Enn eru að birtast svartsýnar spár fyrir flugiðnaðinn í heiminum en nú gera alþjóðasamtök flugrekenda, IATA ráð fyrir því að flugfélög komi til með að tapa allt að 9 milljörðum Bandaríkjadala á þessu ári.

Þetta er tvöfalt sú upphæð sem samtökin gerðu ráð fyrir í byrjun árs þegar útlitið fyrir flugiðnaðinn var sagt slæmt. Um svipað leyti í fyrra var það síhækkandi eldsneytisverð sem var að gera flugfélögum erfitt fyrir. Nú hefur eldsneytisverð þó lækkað verulega en á móti kemur að gífurlegur samdráttur hefur orðið í eftirspurn, bæði í farþega- og fraktflugi.

Tap flugrekenda víðs vegar um heiminn á fyrstu þremur mánuðum þessa árs er mun meira en gert hafði verið ráð fyrir og er það helst um að kenna minnkandi tekjum flugfélaganna. Rétt er að taka fram að hér er átt við bæði farþegaflug og fraktflug.

Mörg af stærri flugfélögum heims, svo sem evrópsku félögin Air France-KLM og British Airways, bandarískur flugfélögin Northwest-Delta (sem sameinuðust í fyrra), US Airlines, American Airlines og Continential auk asískra flugfélaga á borð við China Air, Singapoure Airlines og Emirites - sjá nú fram á annað tap ár ef fer sem horfir.

Giovanni Bisignani, framkvæmdastjóri IATA segir í samtali við breska blaðið Finacial Times að mörg flugfélög óttist einnig hækkandi eldsneytis verð á seinni hluta þessa árs en hann segir að fari eldsneytisverð á flug á næstu mánuðum geti það gengið að mörgum flugfélögum dauðum innan fárra mánaða.

„Þau eru í alvöru svona viðkvæm um þessar mundir,“ segir Bisignani.

„Það má ekkert út af bera. Flugfélögin hafa verið að laga sig að breyttum aðstæðum, minnkað framboð, sagt upp starfsfólki, lagt gömlum vélum og svo framvegis en á meðan fólk er ekki að fljúga þá ganga þau auðvitað ekki lengi.“

Tæplega 60 milljarða dala tap frá árinu 2001

Eins og fyrr segir höfðu IATA samtökin gert ráð fyrir töluverðu tapi flugfélaga á þessu ári. í mars s.l. gerðu samtökin ráð fyrir því að flugfélög víða um heim myndu tapa allt að 4,7 milljörðum dala á þessu ári. Sú spá hefur sem fyrr segir nærri tvöfaldast en rétt er að hafa í huga að flugfélög töpuðu samanlegt um 10,4 milljörðum dala á heimsvísu á síðasta ári.

Þá hefur rekstur flugfélaga almennt gengið illa frá árinu 2001 og en 2007 var eina árið sem flugfélög sýndu fram á hagnað á heimsvísu þegar þau högnuðust um tæpa 3 milljarða dali. Á árunum 2001 – 2006 töpuðu flugfélög á heimsvísu samanlagt um 41,6 milljörðum dala og ef spár ganga eftir mun tapið nema um 19,4 milljörðum dala fyrir árið í fyrra og árið í ár. Tapið á átta árum mun því nema tæplega 60 milljörðum dala ef spár ganga eftir.

Mesta tapið í Asíu

Mesta tap flugfélaga á sér stað í Asíu og á Kyrrahafinu þar sem mörg flugfélög berjast nú í bökkum. Það sem munar mestu fyrir þau félög er algjört fall í eftirspurn eftir sætum á fyrstu farrýmum vélanna, svo sem viðskiptafarrýmum en þannig höluðu félögin inn stóran hluta af tekjum sínum fyrir nokkrum árum. Þá hefur fraktflug í Asíu snarminnkað eða um 48% á síðustu 18 mánuðum.

Vegna þessa gerir IATA ráð fyrir 3,3 milljarða dala tapi á rekstri flugfélaga í Asíu og á Kyrrahafinu. Þá er gert ráð fyrir 1,5 milljarða dala tapi flugfélaga sem starfrækt eru í Mið-Austurlöndum sem og 1,5 milljarða dala tapi í N-Ameríku og 1 milljarða dala tapi flugfélaga í Evrópu. Hér er um lágmarksspá að ræða en IATA gerir ráð fyrir um 2 milljörðum dala tapi aukalega víðsvegar um heiminn.

Samkvæmt upplýsingum frá IATA hefur fraktflug dregist saman um 20% milli ára á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, mest í Bandaríkjunum og Evrópu en farþegafjöldi hefur dregist saman um 8% milli ára á sama tíma. Þó skal hafa í huga að á sama tíma í fyrra hafði farþegum eitthvað fækkað auk þess sem flugfélög hafa verulega dregið úr framboði á flugsætum.

Þá gera samtökin ráð fyrir að tekjur flugfélaga lækki um 15% á milli ára á þessu ári, eða um 80 milljarða dali og verði um 448 milljarðar.

Loks er gert ráð fyrir 800 nýjum vélum á markað á þessu ári, flestum frá Airbus og Boeing.