Heildarviðskipti með skuldabréf í Kauphöllinni námu tæpum 322 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 16,1 milljarða veltu á dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni er þetta mesta dagsvelta það sem af er ári en í júlímánuði nam veltan 14,2 milljörðum á dag. Þetta er þá fjórði mánuðurinn í röð sem meðaldagsvelta eykst á milli mánaða.   Mest voru viðskipti með lengstu flokk ríkisbréfa, RIKB 19 0226 51,2 milljarðar og þá með RIKB 25 0612 47,4 milljarðar.

Sýnir þörf á fleiri fjárfestingakostum

„Það eru helst þrír þættir sem hafa áhrif á þessa auknu skuldabréfaveltu,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar í samtali við Viðskiptablaðið, aðspurður um aukna veltu.

„Í fyrsta lagi eru það nýir og endurbættir viðskiptavakasamningar sem aukið hafa viðskipti með skuldabréf töluvert. Í öðru lagi er einfaldlega mikið að gerast í efnahagslífinu, við erum að fá jákvæðari fréttir og auk þess er ríkið búið að gefa út ný skuldabréf.“

Þá segir Magnús að í þriðja lagi sé um að ræða tilfærslu fjármagns af innlánsreikninum bankanna yfir í skuldabréf.

„Með lækkandi innlánsvöxtum leitar fjármagnið meira inn á skuldabréfamarkaðinn. Við sjáum líka fyrir okkur að það fjármagn geti von bráðar leitað inn á hlutabréfamarkaðinn,“ segir Magnús og bætir því við að mikið líf á skuldabréfamarkaðnum sýni glöggt þörfina fyrir fjárfestingakosti aðra en bankareikninga.

Bjart útlit fyrir hlutabréfamarkað, langt í land með skuldabréfamarkað fyrirtækja

Magnús segir að í raun megi segja að skuldabréfamarkaðurinn sé að fullu búinn að ná sér eftir hrunið, þ.e. sá hlut sem snýr að ríkisskuldabréfum. Þá telji Kauphöllin jafnframt að nú felist góð tækifæri til nýskráninga hlutabréfa, ekki síst hefðbundinna rekstrarfélaga sem eru vel í stakk búin til að njóta þeirra ávaxta sem fylgja auknu gegnsæi.

Aðspurður um mögulega skuldabréfaútgáfu fyrirtækja segir Magnús að enn sé töluvert í að sá markaður verði virkur á ný. Lítið traust sé borið til þess markaðar um þessar mundir en með tíð og tíma geti það breyst.

Ávöxtunarkrafa OMXI3MNI hækkaði um 78 punkta í ágúst

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 203,9 milljörðum en viðskipti með íbúðarbréf námu 99,8 milljörðum.  Heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa nam rúmum 1.340 milljörðum og hækkaði um 2,3% milli mánaða.

Ávöxtunarkrafa þriggja mánaða óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI3MNI) hækkaði um 78 punkta í mánuðinum og stendur nú í 7,59%.  Ávöxtunarkrafa eins ára óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI1YNI) lækkaði um 59 punkta og er núna 6,71%.

Viðbót, til frekari upplýsinga

Í maí s.l. var gífurlegt fjármagn, eða um 1.775 milljarðar króna, á innlánsreikningum bankanna og hafði sú upphæði aukist milli mánaða það sem af er ári. Viðskiptablaðið hefur fjallað töluvert um þetta fjármagn, þá sérstaklega í sérblaði um fjármál einstaklinga. Þannig hefur meðal annars verið velt upp þeirri spurningu hvort fjármagnið muni, með lækkandi innlánsvöxtum, leita í frekari mæli inn á skuldabréfamarkaðinn.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku hefur Seðlabankinn ekki birt nýjustu upplýsingar um innistæður í bankakerfinu né heldur peningamagn í umferð. Ástæðan fyrir því er sú að bankar og fjármálafyrirtæki hafa ekki skilað inn nýjustu tölum um fyrrgreinda þætti. Því liggja engar nákvæmar upplýsingar fyrir um mögulegan flutning fjármagns af innlánsreikningum í sumar en af veltu skuldabréfa má gera ráð fyrir töluverði flæði þar á milli, þ.e. frá innlánsreikningum yfir á skuldabréfamarkað.