Fasteignaverð í Þýskalandi hefur verið mjög stöðugt undanfarin ár og á þeim markaði varð aldrei sú fasteignabóla sem sjá mátti í flestum öðrum löndum heims. Nú eru hins vegar teikn á lofti um að þetta kunni að breytast þar sem eldra fólk er nú farið að taka sparifé út af bankareikningum vegna lélegrar ávöxtunar og setja það í fasteignir.

Í kjölfar tveggja heimsstyrjalda sem Þjóðverjar fóru mjög illa út úr hefur almenningi þar í landi að fara varlega með sparifé sitt. Því hefur fremur verið lagt inn á það sem menn töldu örugga bankareikninga heldur en að setja peningana í fasteignir eða aðrar fjárfestingar. Það skýrir að hluta þá staðreynd að engin ofureftirspurn hefur orðið á húseignum í landinu, þó það sé vissulega breytilegt eftir landshlutum.

Önnur skýring er sú alvarlega staðreynd að Þjóðverjum fer nú stöðugt fækkandi sem líka hefur slegið á eftirspurnina. Þannig hefur Þjóðverjum fækkað að meðaltali um 50.000 manns á ári síðan 2002. Um leið fer hlutfall eldra fólks í samfélaginu hækkandi og mun það hlutfall halda áfram að vaxa fram til 2030.

Samkvæmt úttekt Global Property Guide eru lækkandi eftirlaun auk þess ekki talin gefa tilefni til að ætla að eldri borgara fari að flytja sig í nýtt og betra húsnæði.

Þó ástandið á þýska fasteignamarkaðnum hafi ekki verið þess eðlis að fólk gæti vænst góðrar ávöxtunar af fasteignakaupum, þá kann það að vera að snúast við að minnsta kosti tímabundið.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins frá íslenskum fasteignakaupanda sem búsettur er í Munchen í Bæjaralandi hafa menn nýverið rekið sig á skyndilega og mjög vaxandi eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á svæðinu. Það mun einkum stafa af því að eldra fólk sem hefur átt umtalsvert sparifé í bönkum getur ekki lengur reitt sig á að það skili jákvæðri ávöxtun. Því virðast mjög margir hafa tekið stefnuna á fasteignakaup og er þetta að sögn þegar farið að valda umframeftirspurn í sumum borgarhlutum í Munchen. Það gefur aftur væntingar um aukna ávöxtunarmöguleika í húsnæði sem gæti leitt til keðjuverkunar.

Vegna viðvarandi mjög lágar stýrivaxta og jafnvel neikvæðrar raunávöxtunar eru miklar líkur á að þessi þróun breiðist út. Þá gæti það hæglega orðið til þess að auka veltuna í þýska samfélaginu verulega og koma efnahagslífinu á góðan snúning að nýju.

Þýsk yfirvöld hafa reyndar reynt ýmislegt til þess að ýta undir aukna veltu. Riðu þau m.a. á vaðið með að styrkja eigendur notaðra bíla með fjárframlagi ef það fjárfesti í nýjum bílum þýsku bílaframleiðendanna. Þá mun eitthvað hafa verið um að yfirvöld hafi hreinlega sent peninga beint heim til fólks til að örva eyðsluna í þjóðfélaginu.

Í gamla Austur-Þýskalandi sem sameinaðist í eitt stórt Þýskaland eftir fall Berlínarmúrsins hefur ástandið þó verið með nokkuð öðrum hætti. Þar var húsnæði í mikilli niðurníðslu og var því farið í gríðarlegar fjárfestingar í nýju húsnæði. Jókst t.d. framboð á fullkláruðu nýju húsnæði í Austur-Berlín úr 257.000 íbúðum árið 1990 í 500.000 íbúðir á árunum 1995 til 2000. Leiddi það til offramboðs og fjölmörg fyrirtæki brenndu sig þar illa. Síðan hefur fasteignaverð í norðaustanverðu Þýskalandi yfirleitt verið fyrir neðan meðallag og féll fasteignaverð í Berlín t.d. um 7,75% á árunum 1995 til 2003. Á sama tíma hækkaði fasteignaverð að meðaltali um 7% m.a. í Franfurt og Dusseldorf í vestanverðu landinu.