Sextán erlendir bankar, sem stóðu að tveimur sambankalánum til Samson eignarhaldsfélags á samtals 28 milljarða króna, krefjast þess að fá afhentar innstæður á tveimur reikningum félagsins að upphæð um 380 milljónir króna.

Skiptastjóri Samson hefur neitað kröfu þeirra þar sem hún barst eftir að kröfulýsingarfrestur var liðinn og málið verður því afgreitt fyrir héraðsdómi Reykjavíkur þar sem það verður þingfest á föstudag.

Bankarnir sextán vilja á móti meina að þar sem innstæðurnar eru tilteknar sem veð í lánasamningum þeirra við Samson hafi ekki verið nauðsynlegt að lýsa kröfunni.

Verði krafa erlendu bankanna samþykkt mun endurheimt á kröfum almennra kröfuhafa Samson rýrna, en á meðal þeirra eru skuldabréfaeigendur, meðal annars fjöldi íslenskra lífeyrissjóða. Samson var í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 12. nóvember 2008.

Commerzbank leiðir hópinn

Þýski bankarisinn Commerzbank fer fyrir bönkunum sextán sem halda á sambankaláninu. Þeir eru frá Þýskalandi, Danmörku, Lúxemborg Frakklandi, Austurríki, Bretlandi og Lúxemborg. Á meðal þeirra banka sem eiga hlut í láninu eru Societe General, Bayerische Landesbank, HSH Nordbank og Raiffeisen Zentralbank Österreich.

Lánin tvö voru upphaflega veitt gegn veði í 45,8 prósenta hlut Samson í Landsbankanum, sem var langstærsta eign félagsins. Samkvæmt gengi Landsbankans var virði þess hlutar rúmir 90 milljarðar króna þegar bankinn féll í október 2008.

Eigendur Samson greiddu upphaflega 12,3 milljarða króna fyrir hlutinn og síðar kom í ljós að hluti þess fjármagns hafði fengist að láni hjá Búnaðarbankanum, sem síðar varð Kaupþing. Samson-menn voru duglegir við að veðsetja bréf sín í Landsbankanum til að fjármagna önnur verkefni.

Lán í tengslum við stofnun fasteignafélags

Sambankalánin tvö upp á 28 milljarða króna voru upphaflega veitt í október 2005. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru þau tekin í tengslum við stofnun fasteignafélags þeirra Björgólfsfeðga, Samson Properties. Það félag var síðar sameinað Novator Properties á Kýpur sem þrotabú Samson á um 70 prósenta hlut í.

Í mars 2007 var síðan gerður nýr láns- og veðsamningur þar sem Samson-mönnum var gert að leggja fram frekari veð fyrir láninu. Í þeim samningum bætti Samson um 4,5 milljarða króna virði af bréfum í Landsbankanum við sem veði fyrir lánunum tveimur.

Lítið fæst upp í kröfur

Samson skuldaði um 112 milljarða króna þegar félagið fór í þrot. Helsta eign þess, hlutabréfin í Landsbankanum, er verðlaus og því litlar eignir á móti þessari skuld. Helst er horft til þess að eign þrotabúsins í Novator Properties skili einhverju til baka en heimildir Viðskiptablaðsins herma að vonast sé til að hægt verði að innheimta allt að tíu milljarða króna upp í kröfur.

Niðurstaðan í dómsmálinu sem hefst á föstudag skiptir því töluverðu máli fyrir almenna kröfuhafa á borð við skuldabréfaeigendur. Samson skuldaði þeim hópi rúma 24,3 milljarða króna samkvæmt lýstum kröfum í bú félagsins.

Stærsti hluti þeirra eru íslenskir lífeyrissjóðir sem eiga tæplega fjórtán milljarða króna virði af skuldabréfum útgefnum af Samson. Aðrir skuldabréfaeigendur eru fjármálafyrirtæki og einstaklingar.