Ljóst er að það mun velta á þingmönnun Vinstri grænna hvort farið verður í aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB) í sumar, líkt og Samfylkingin hefur lagt til, eða hvort málið verði undirúið með öðrum hætti og unnið að drögum að aðildarviðræðum.

Þráinn Bertelsson, þingmaður Borgarahreyfingarinnar steig í pontu á Alþingi í morgun og lýsti því yfir að Borgarahreyfingin myndi styðja þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar, sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði fram í dag, en hún felur í megindráttum í sér að hafnar verði aðildarviðræður við ESB strax í sumar. Þráinn sagði að hreyfingin hefði einstaka athugasemdir við efnisatriði tillögunnar en myndi þó styðja hana.

Tillaga Samfylkingarinnar er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins lagði einnig fram þingsályktunartillögu í morgun, af hálfu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins en hún felur það í sér að utanríkismálanefnd Alþingis verði falið að undirbúa mögulega umsókn um aðild að ESB. Í því felst jafnframt að farið verði betur yfir samningsskilyrði í aðildarviðræðum og helstu hagsmunir landsins skilgreindir.

Gert er ráð fyrir að utanríkismálanefnd skili tillögum sínum í sumarlok og því ljóst að ef sú tillaga verður ofan á verður ekkert að aðildarviðræðum strax í sumar eins og þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir.

Tillaga Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela utanríkismálanefnd Alþingis að undirbúa mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Nefndinni er falið eftirfarandi hlutverk:

1. Að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

2. Að vinna vegvísi að mögulegri aðildarumsókn sem taki til umfjöllunar öll álitamál varðandi upphaf aðildarviðræðna og hvernig að þeim skuli staðið, auk þess að fjalla um nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við staðfestingu mögulegs aðildarsamnings.

VG ræður úrslitum

Sameiginlegur þingmannafjöldi Samfylkingarinnar og Borgarahreyfingarinnar er 24 þingmenn en sem fyrr segir mun Borgarahreyfingin styðja tillögu Samfylkingarinnar.

Sameiginlegur þingmannafjöldi Framsóknarflokks og Sjálfstæðislokks er hins vegar 25 þingmenn en flokkarnir hafa lagt fram sameiginlega tillögu og gera má ráð fyrir að allir þingmenn flokkanna styðji hana.

Því er ljóst að 14 þingmenn Vinstri grænna munu ráða úrslitum með framhaldið. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar sagði á Alþingi í morgun að honum litist ekki illa á tillögu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hann sagði að það væri eðlilegt að utanríkismálanefnd tæki málið til meðferðar.

Vinstri grænir eru sem flokkur á móti aðild Íslands að ESB. Hins vegar hafa ýmsir forystumenn flokksins, t.a.m. Ögmundur Jónasson talað fyrir því að þjóðin fái að greiða atkvæði um málið. Þó er óvíst hvora tillöguna, ef nokkra, þingmenn VG munu styðja.