Kínverska ríkisfyrirtækið Bláa stjarnan (China National BlueStar Co., Ltd) hefur keypt hlut Orkla í Noregi í norska stóriðjufyrirtækinu Elkem AS. Kaupverðið er um 2 milljarðar dollara, eða um 237 milljarðar íslenskra króna. Tilkynnt var um þetta í Noregi á þriðjudagsmorgun í síðustu viku.

Inni í kaupunum eru Elkem Silicon Materials, Elkem Foundry Products, Elkem Carbon og Elkem Solar. Þar með eignast Bláa stjarnan líka Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Forsvarsmenn BlueStar sjá með kaupunum á Elkem gríðarlega möguleika í nýrri sólarorkutækni sem félagið hefur verið að þróa.

Upphaflega í hreingerningaiðnaði

BlueStar Co. var upphaflega stofnað í Lanzhou í Kína sem hreingerningafyrirtæki í september 1984 af Ren JianXin. Hann var þá ritari í ungliðahreyfingu kommúnista í efnarannsóknastofnun sem heyrði undir efnaiðnaðarráðuneyti landsins. Með honum voru 7 félagar ungliðahreyfingarinnar. Fyrirtækið er nú með 90% markaðshlutdeild á upphaflegu starfssviði sínu í Kína og hefur einnig verið að koma undir sig fótunum í þessum geira í Bandaríkjunum og Japan.

Á vegum fyrirtækisins hefur verið þróuð margháttuð tækni ásamt efnum og búnaði fyrir greinina. Árið 1996 voru höfuðstöðvar fyrirtækisins fluttar til Beijing með stuðningi efnaiðnaðarráðuneytisins. Sama ár sameinaðist fyrirtækið Spark Chemical Factory og fjölda annarra ríkisfyrirtækja. Á árinu 2000 var fyrirtækið sett beint undir stjórn kínverska kommúnistaflokksins.

Í eigu ChinaChem og Blackstone

Árið 2004 varð BlueStar sérstakt dótturfélag efnaiðnaðarfyrirtækisins ChinaChem Group Corporation sem á 80% í félaginu. Þá er 20% hlutur í BlueStar í eigu bandaríska fjárfestingarfélagsins Blackstone.

Fyrirtækið er nú eitt stærsta fyrirtæki heims í járnblendi og á um 30 dótturfélög og rannsóknastofnanir. Átti það fyrir kaupin á Elkem hluti í nokkrum skráðum fyrirtækjum, þar á meðal BlueStar Cleaning Co., BlueStar New Materials Co. og Shenyang Chemicals Co. Félagið er mjög öflugt í Kína í fyrirtækjum sem snerta fjölda iðngreina, þar á meðal í vatnsiðnaði og bílaiðnaði. Hefur samsteypan m.a. byggt upp China Automobile Repair sem er stærsta bílaviðgerðarþjónustukeðjan í Kína.

Engin áhrif á rekstur

Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem á Íslandi, segir að þessi eigendaskipti hafi engin áhrif á reksturinn á Grundartanga. Framleiðsla verksmiðjunnar er kísiljárn sem selt er á Evrópumarkaði.

„Ef eitthvað er þá styrkir þetta okkur. Í rauninni er kínverska ríkið á bak við þetta og fyrir Elkem í heild skapar þetta tækifæri í Asíu. Elkem hefur starfað í Kína í tíu ár og hefur verið með plön um stækkun. Þessi kaup styrkja það bara. Yfirstjórn Elkem verður áfram og höfuðstöðvarnar í Noregi en við heyrum undir Elkem Foundry Products.“

Hjá Elkem á Grundartanga starfa um 200 manns auk um 100 í afleiddum störfum þjónustuaðila.

Orkla í Noregi mun þrátt fyrir þessi viðskipti halda eftir hlutabréfaeign sinni í orkufyrirtækinu Elkem Energi AS og 85% hlut í AS Saudefaldene.