Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur, eins og flestum er kunnugt, ekki beinlínisborið sitt barr eftir hrun fjármálakerfisins árið 2008. Aðeins eru sjö fyrirtæki skráð á aðallista kauphallarinnar og þar af eru þrjú færeysk. Auk þess hefur Össur, sem var stærsta íslenska félagið í kauphöllinni, verið afskráð, en eins og fram hefur komið mun kauphöllin áfram bjóða upp á viðskipti með hlutabréf Össurar. Auk Össurar eru á aðallista skráð Marel, Icelandair og Nýherji en viðskipti með hlutabréf síðastnefnda félagsins eru afar sjaldséð, síðustu viðskipti með bréf félagsins áttu sér stað í lok janúarmánaðar og var velta í þeim viðskiptum 140 þúsund krónur.

Þó virðist vera einhver ljósglæta í enda ganganna því á undanförnum vikum hefur heyrst af áformum um skráningu æ fleiri fyrirtækja á markað og er skemmst að minnast þess að Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq OMX á Íslandi sem rekur kauphöllina, lét nýlega hafa eftir sér í Viðskiptablaðinu að hann meti markaðinn svo að fjöldi nýskráninga á hlutabréfamarkað á næstu 12-18 mánuðum verði sá mesti frá árinu 1999. Það ár áttu 8 nýskráningar sér stað og í lok ársins var fjöldi skráðra fyrirtækja 75 og hefur hann aldrei verið meiri. Á kauphallardegi Arion banka í fyrradag hjó Páll svo í sama knérunn þegar hann lét hafa eftir sér að mikið væri framundan í þessum efnum og að árið 2015 mætti allt eins eiga von á því að 50 fyrirtæki yrðu skráð í kauphöllina.

Páll vildi í samtali við Viðskiptablaðið ekkert láta uppi um hvaða nýskráningum hann hefði haft veður af, sagði sig þá mundu gerast brotlegan við reglur kauphallar. Ummæli hans, auk frétta af nokkrum fyrirtækjum sem hyggja á skráningu, vöktu þó forvitni. Hversu mörg fyrirtæki hyggja á skráningu á næstu misserum og hvaða fyrirtæki eru það? Hvernig fyrirtæki hyggja á skráningu og hvað þarf til þess að fyrirtæki teljist skráningarhæft? Til þess að leita svara við þessum spurningum var haft samband við eignaumsýslufélög bankanna og Framtakssjóð Íslands auk þess að rifja upp fréttir af fyrirhuguðum skráningum.

Fjármálafyrirtæki og tryggingafélög

Hvaða fyrirtæki eru það þá sem líklega munu sjást á markaði á næstu misserum? Páll Harðarson nefndi tímabilið 12-18 mánuði þegar hann lét þau orð falla að fjöldi nýskráninga yrði sá mesti frá árinu 1999 en við skulum lengja það tímabil aðeins og færa sjóndeildarhringinn að 36 mánuðum, þ.e. þremur árum.

Fyrst ber að nefna stóru bankana þrjá, Landsbanka, Arion og Íslandsbanka. Þessir bankar hafa verið að skila traustum uppgjörum, svo ekki sé fastar að orðið kveðið, en ætla má að eigendur, sérstaklega þeirra tveggja síðarnefndu sem auk ríkisins eru kröfuhafar föllnu bankanna, sjái sér hag í því að koma eignunum í verð fyrr en síðar. Þá hefur það verið yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að einkavæða Landsbankann á ný, fyrr eða síðar, og verður skráning á hlutabréfamarkað án nokkurs vafa meðal þeirra kosta sem íhugaðir verða. Ekki er ljóst hvort það verður innan 36 mánaða en þó er full ástæða til þess að telja Landsbankann með í þessari upptalningu. Að sögn Sigþórs Jónssonar er líklegt að efnahagsreikningur bankakerfisins minnki enn frekar áður en ráðist verður í skráningu þeirra, ella sé líklegt að vægi fjármálafyrirtækja á íslenskum hlutabréfamarkaði verði aftur mjög mikið.

Þá má ætla að MP banki verði einnig skráður á markað innan þess tímaramma sem hér er til skoðunar en eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu stefnir fjárfestahópur sá, sem undir forystu Títans fjárfestingarfélags hyggst yfirtaka bankann á næstunni, að skráningu hans á skipulagðan verðbréfamarkað innan 36 mánaða. Af öðrum fjármálafyrirtækjum sem nefnd hafa verið líkleg til skráningar á næstu misserum má nefna Byr en þó ber ekki öllum saman um hvort það sé raunhæft. Þá er ekki útilokað að Valitor verði skráð á markað innan þriggja ára en eins og fram kemur í viðtali við Viðar Þorkelsson, forstjóra Valitors, hér í blaðinu í dag hefur stjórn Valitors markað þá stefnu að skrá félagið á næstu fáeinum árum. Óljóst er þó hvenær af því verður.

Komið hefur fram að stefnt sé að skráningu Horns fjárfestingarfélags, sem er eignaumsýslufélag Landsbankans, og mun áðurnefnd sala félagsins á hlut þess í Marel hafa verið liður í undirbúningi fyrir þá skráningu. Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, vill þó ekkert gefa nánar upp um þessi áform né heldur um skráningu á eignum úr eignasafni Horns. Meðal óskráðra eigna félagsins eru Eimskip og Reitir fasteignafélag en komið hefur fram að eigendur beggja þessara félaga hyggja á skráningu á næstu misserum. Í ljósi þess að Eimskip verður skráð á markað er skemmtilegt að velta því fyrir sér hvort helsti keppinautur félagsins, Samskip, fari sömu leið. Sigþór Jónsson segir það þó ekki líklegt miðað við samsetningu eigendahóps félagsins í dag en félagið sé þó líklega vel hæft til skráningar. Hvað Miðengi, eignaumsýslufélag Íslandsbanka, varðar þá segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans, að það hafi ekki komið til tals að skrá félagið sjálft á markað. „Hins vegar vegar gæti komið til þess að einstaka félög sem í dag eru inni í Miðengi verði skráð á markað á einhverjum tímapunkti,“ segir hún. Heyrst hefur þó að skráning flugfélagsins Bláfugls, sem er í eigu Miðengis, hafi verið til íhugunar.

Auk fjármálafyrirtækjanna verða tryggingafélögin að teljast líkleg til þess að enda á hlutabréfamarkaði innan nokkurra missera. Tryggingamiðstöðin hefur þegar tilkynnt um skráningaráform og þá má ætla að Sjóvá fari á markað áður en langt um líður. Hvað Vátryggingafélagið varðar þá er það félag sem kunnugt er í eigu Existu sem síðan er í eigu kröfuhafa. Líklegt þykir að kröfuhafarnir muni á næstu misserum skrá helstu eignir Existu á markað, í stað þess að skrá móðurfélagið, og hámarka þannig endurheimtur sínar. Þar af leiðir að líklegt verður að teljast að VÍS fari á markað auk Skipta en þau félög eru stærstu eignir Existu. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur skráning þessara félaga þó enn ekki verið rædd. Þegar samskiptafélög ber á góma má svo teljast harla líklegt að auk Skipta verði Vodafone skráð á markað innan þess tímaramma sem hér er til umfjöllunar.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.