Þegar leiðtogar tuttugu helstu iðnríkja heims koma saman til fundar í London í næstu viku bíða þeirra tröllaukin úrlausnarefni. Það stærsta er að finna lausn á þeim vandamálum sem hafa fylgt hinu hnattræna ójafnvægi í alþjóðahagkerfinu.

Hvernig á að endurræsa hikstandi hagvaxtarvél alþjóðahagkerfisins og hvaða úrbætur á regluverki fjármálamarkaða eru nauðsynlegar til þess að afstýra að fjármálakreppa á borð við þá sem nú er uppi endurtaki sig? Þetta eru hinar augljósu spurningar sem blasa við leiðtogum iðnríkjanna tuttugu. En að sama skapi standa vonir margra til þess að leiðtogarnir tækli eina af grundvallarorsökum þess ástands sem nú er uppi: Hið hnattræna ójafnvægi sem hefur einkennt alþjóðahagkerfið undanfarinn áratug.

Of lítill sparnaður á Vesturlöndum

Með hnattrænu ójafnvægi er átt við þá staðreynd að sparnaður er of lítill á Vesturlöndum, og þá fyrst og fremst í Bandaríkjunum, meðan að sparnaðarhlutfallið er of hátt í stórum útflutningshagkerfum á borð við Kína og önnur ríki Asíu. Enginn efast um þátt ofuráhættusækinna bankamanna, skuldsettra bandarískra neytenda og ófullkomins regluverks á fjármálamörkuðum í að steypa alþjóðahagkerfinu út í þá kreppu sem nú er uppi. En fleira kemur til.

Sparnaður Asíu stuðlaði að mikilli áhættusækni

Í nýlegri umfjöllun bandaríska blaðsins The Wall Street Journal kemur fram að seðlabankastjórar Bandaríkjanna og Bretlands, þeir Ben Bernanke og Mervyn King, telja að ytra umhverfi tímabils hins auðfengna fjármagns hafi meðal annars verið mótað af efnahagsstefnu útflutningshagkerfa Asíu. Allt frá því að fjármálakreppan skall á Suðaustur-Asíu árin 1997 til 1998 hafa flest ríki í heimshlutanum, með Kína í fararbroddi, búið við afar hagstæðan viðskiptajöfnuð við umheiminn og varið stórum hluta hans í að styrkja gjaldeyrisvaraforða sína. Þessum gjaldeyrisforða Asíuríkjanna var að miklum hluta varið til fjárfestingar á Vesturlöndum og þá fyrst og fremst í bandarískum ríkisskuldabréfum. Þetta gríðarlega fjármagnsflæði frá Asíu til Vesturlanda hafði ótvíræð áhrif til lækkunar vaxtastigs í heiminum.

Vaxtaráðgátan um miðjan áratuginn

Það er ekki nóg með það að þetta mikla flæði fjármagns frá þróunarríkjum til þróaðra hagkerfa stangist á við allar kennisetningar nýklassískrar-hagfræði. Það leiddi einnig til þess að rof varð á hefðbundnum hagfræðilögmálum. Í þessu samhengi má nefna hina svokölluðu vaxtaráðgátu (e. Interest Rate Conundrum) um miðjan þennan áratug. Ráðgátan fólst í því að þrátt fyrir að bandaríski seðlabankinn hækkaði skammtímavexti stefndu langtíma vextir niður. Ljóst má vera að hin mikla gjaldeyrissöfnun Asíuríkjanna þrýsti síðarnefndu vöxtunum niður og dró þar með úr getu bandaríska seðlabankans til þess að slá á þenslu. Á sama tíma og þetta gerist hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur vestanhafs og hefðbundnir mælikvarðar á áhættusækni fjárfesta (til að mynda VIX-vísitalan) voru afar lágir.

Banvæn blanda

Mikil áhættusækni, gnótt lánsfjármagns og lágir vextir eru ekki góð blanda og eru margir af þeim fjármálagerningum sem hafa verið fyrirferðamiklir á fjármálamörkuðum til vitnis um það. Offramboð af lánsfjármagni og lágir vexti leiða til þess að sífellt verður erfiðara að ná viðunandi arðsemi á fjármagni og það getur leitt til þess að sköpunargáfa bankamanna verður skynsemi þeirra yfirsterkari. Til ofureinföldunar má segja að þessi hættulega blanda hafi leitt til núverandi kreppu á fjármálamörkuðum. Og það er einmitt þess vegna sem að margir sérfræðingar telja nauðsynlegt að leiðtogar helstu iðnríkja heims reyni að leysa vandamálin sem fylgja hinu hnattræna ójafnvægi í alþjóðahagkerfinu. Með öðrum orðum: Að auka sparnað í Bandaríkjunum og að sama skapi knýja áfram neyslu í útflutningshagkerfum Asíu.

Ekki auðleystur vandi

Nú hljómar það eins og vandamálið sé auðleyst en því miður er það ekki svo. Ljóst er að sparnaður mun ekki aukast í fyrirsjáanlegri framtíð vegna mikilla útgjaldaaukningar bandarískra stjórnvalda vegna efnahagskreppunnar og aðgerða seðlabankans vegna björgunar fjármálageirans. Vegna þessa þurfa stjórnvöld í Washington að reiða sig á vilja ríkja á borð við Kína til þess að fjármagna þessa skuldsetningu með kaupum á ríkisskuldabréfum þeirra. Þrátt fyrir að stjórnvöld í Peking hafi látið í ljós áhyggjur að undanförnu yfir skuldasöfnun bandaríska ríkisins hljóta þau í aðra röndina að fagna efnahagsaðgerðum stjórnvalda í Washington. Ef allt fer vel örva þær eftirspurn á mikilvægum markaði fyrir kínverskan útflutning á tímum mikils eftirspurnarsamdráttar í alþjóðahagkerfinu. En eðli málsins samkvæmt eru Bandaríkjamenn ekki reiðubúnir til þess að ráðast í svo umsvifamikla aukningu ríkisskulda til þess eins að örva útflutningsatvinnuvegi í Asíu. Því leggja stjórnvöld vestanhafs mikla áherslu á það að leiðtogafundur helstu iðnríkjanna komi sér saman um samhæfðar efnahagsaðgerðir sem er ætlað að örva eftirspurn í alþjóðahagkerfinu. Leiðrétting á ójafnvæginu sem skapaði ytra umhverfi fjármálakreppunnar mun ekki fást fram með öðrum hætti.

Að axla ábyrgð og öðlast áhrif

Rétt eins og Martin Wolf, einn af ritstjórum Financial Times, benti á fyrir skemmstu í pistli sínum hvílir mikil ábyrgð á stjórnvöldum stóru hagkerfanna sem hafa safnað digrum gjaldeyrissjóðum á undanförum árum. Viðvarandi hagstæður viðskiptajöfnuður þýðir einfaldlega að þessi ríki flytja inn eftirspurn frá umheiminum. Og í sjálfu sér er fátt við það að athuga – nema að slík stefna er hættuleg á tímum fjármálakreppu á borð við þá sem nú er uppi. Hún veldur því að ómögulegt er að örva heildareftirspurn í alþjóðahagkerfinu. Í ljósi þessa er ákaflega brýnt að ríki á borð við Kína leggi lóð sín á vogarskálarnar og auki ríkisútgjöld til þess að örva eftirspurn í hagkerfum sínum. Líkt og Wolf heldur fram er það í raun eina leiðin sem er fær til þess að koma í veg fyrir að ríki sem búa við mikinn viðskiptahalla lendi í miklum vandræðum og freistist jafnvel til þess að skýla sér á bakvið efnahagslega verndarstefnu.

Kínverjar viðra hugmyndir um nýjan alþjóðlegan gjaldmiðil

Margt bendir til þess að stjórnvöld í Peking séu ekki fullkomlega fráhverf þessum þankagangi. Þau hafa kynnt til sögunnar býsna stórtækar efnahagsaðgerðir sem er ætlað að örva eftirspurn innanlands og að sama skapi kynnti seðlabankastjóri landsins hugmyndir um að koma ætti upp nýjum gjaldmiðli í alþjóðahagkerfinu sem tengist ekki einstaka hagkerfi með beinum hætti. Í fljóti bragði gæti þetta virst sem ódulbúin árás á stöðu Bandaríkjadalsins. En þegar skyggnst er undir yfirborðið sést að svo er ekki. Með þessari tillögu eru kínversk stjórnvöld að gefa til kynna að þau ætli sér virkara hlutverk við lausn þeirra vandamála sem nú eru uppi í alþjóðahagkerfinu og það mun fela í sér að þeim verði ætluð meiri áhrif en nú er. Það eitt að seðlabanki landsins hefur verið auka stöðu sína í bandarískum ríkiskuldabréfum styrkir þessa skoðun. Hugmyndir seðlabankastjórans hljóta jafnframt að fela í sér að alþjóðastofnun á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fari með forráð yfir nýju fyrirkomulagi á gjaldeyrismörkuðum og þar af leiðandi myndi virkari aðkoma Kínverja í alþjóðahagkerfinu þýða aukin áhrif þeirra innan sjóðsins.

Kastljósið mun beinast að London í næstu viku. En hugsanlega skiptir fundur leiðtoga tveggja helstu iðnríkja heims – Bandaríkjanna og Kína – mun meira máli fyrir framhaldið en ályktanir þeirra tuttugu ríkja sem eiga fulltrúa á ráðstefnunni.