Það er óhætt að segja að Bjarni Benediktsson hafi fengið nokkuð afgerandi kosningu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær þegar hann var endurkjörinn formaður flokksins, í fjórða sinn á fjórum árum, með um 79% atkvæða.

Það óvænta gerðist þó að Hanna Birna Kristjánsdóttir fékk um 19% fylgi í formannskjöri þrátt fyrir að vera ekki í framboði sem formaður. Viðmælendur Viðskiptablaðsins sem þekkja vel til sögu Sjálfstæðisflokksins muna ekki eftir því að það hafi gerst áður.

Hanna Birna hlaut þó afgerandi kosningu í varaformannsembætti og fékk um 95% fylgi sem er nær óþekkt í slíku kjöri.

Hér verða rifjaðar upp formanns- og varaformannskosningar í Sjálfstæðisflokknum allt frá árinu 1983 þegar Þorsteinn Pálsson var fyrst kjörinn formaður flokksins.

Tími Þorsteins fer í hönd

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1983 var Þorsteinn Pálsson kjörinn formaður með um 52% atkvæða en þrír voru í framboði eftir að Geir Hallgrímsson hafði ákveðið að láta af formennsku. Friðrik Sophusson var á sama fundi kjörinn varaformaður með um 91.5% atkvæða.

Þorsteinn var síðan endurkjörinn formaður árið 1985 með 94% atkvæða og Friðrik endurkjörinn varaformaður með um 78% atkvæða. Fylgi Þorsteins jókst enn meira á landsfundi 1987 þegar hann var endurkjörinn formaður með tæplega 98% atkvæða og á sama fundi var Friðrik endurkjörinn varaformaður með tæplega 88% atkvæða.

Sem kunnugt er myndaði Þorsteinn sína fyrstu og einu ríkisstjórn í júlí árið 1987 með Framsóknarflokki og Alþýðuflokki og varð hann forsætisráðherra. Ríkisstjórnin lifði stutt og var stjórnarsamstarfinu slitið í september 1988.

Á landsfundi árið 1989 hafði heldur dregið úr vinsældum Þorsteins innan Sjálfstæðisflokksins en hann var þó  kjörinn formaður í fjórða sinn með um 80% atkvæða. Yfir 100 manns skiluðu auðum atkvæðum og svipaður fjöldi greiddi öðrum einstaklingum, sem ekki voru í framboði, atkvæði sitt. Á sama fundi var Davíð Oddsson hins vegar kjörinn varaformaður (eftir að Friðrik Sophusson hafði ekki gefið kost á sér áfram) með um 81% greiddum atkvæðum.

Davíð fellir Þorstein

Árið 1991 dró þó til tíðinda eins og frægt er þegar Davíð Oddsson felldi Þorstein Pálsson úr formannsstóli. Davíð hlaut tæplega 53% atkvæða en Þorsteinn 47%. Þá var Friðrik Sophusson kjörinn varaformaður flokksins á ný með um 76% atkvæða.

Davíð var þó ekki óumdeildur innan flokksins þó svo að stuttu seinna yrði hann forsætisráðherra. Fyrst um sinn naut hann takmarkaðs stuðnings í þingflokki sjálfstæðismanna auk þess sem stuðningsmenn Þorsteins tóku sinn tíma í að fyrirgefa honum það að hafa boðið Þorsteini byrginn árið 1991. Það fór því þannig að á landsfundi flokksins 1993 hlaut Davíð tæplega 79% atkvæða í formannskjöri, sem er svipað fylgi og Bjarni hlaut á fundinum í gær. Þá var Friðrik endurkjörinn varaformaður með 76% hlutfall atkvæða.

Næsti landsfundur var haldinn um þremur árum síðar eða árið 1996 (landsfundinum sem halda átti árið 1995 var frestað vegna snjóflóðanna á Vestförðum). Þá hafði Davíð myndað sína aðra ríkisstjórn og stuðningur við hann innan flokksins hafði aukist verulega eins og kom í ljóst þegar hann fékk tæplega 90% kosningu í formannskjöri. Fjármálaráherrann þáverandi, Friðrik Sophusson, hlaut enn á ný um 76% kosningu í embætti varaformanns en þetta átti eftir að verða hans síðasta kosning í það embætti.

Á Landsfundi flokksins árið 1999, stuttu áður en Sjálfstæðisflokkurinn fékk yfir 40% fylgi í alþingiskosningum, hlaut Davíð afgerandi kosningu í formannsembættið þegar 97% kjósenda í formannskjöri greiddu honum atkvæði. Á sama fundi var Geir H. Haarde kjörinn varaformaður með um 75% atkvæða og hafði betur í baráttu við Sólveigu Pétursdóttur sem hlaut rétt rúmlega 24%.

Davíð og Geir með afgerandi fylgi

Stuðningurinn við þá Davíð og Geir var því sem næst óskoraður og á fyrsta landsfundi þessarar aldar, landsfundinum 2001, var Davíð endurkjörinn formaður með um 98% atkvæða og Geir varaformaður með um 89% hlutfall atkvæða. Hið sama gerðist á landsfundinum 2003 nema þá hafði stuðningur við Geir aukist í um 93%. Davíð var aftur endurkjörinn formaður með 98% fylgi.

Þetta var síðasta formannskosning Davíðs og á landsfundi flokksins haustið 2005 var Geir H. Haarde kjörinn formaður með um 94% fylgi. Hann var einn í framboði. Hins vegar tókust á um varaformannsembættið þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kristján Þór Júlíusson. Þorgerður hafði betur með 62% atkvæða gegn 36% Kristjáns Þórs.

Geir var síðan endurkjörinn formaður á landsfundi vorið 2007 með um 96% atkvæða og Þorgerður hlaut um 80% fylgi í endurkjöri sem varaformaður. Vart þarf að rifja mikið upp það kjörtímabil sem þá fór í hönd, og varði aðeins í tæp tvö ár áður en núverandi ríkisstjórn tók við völdum eftir hina svokölluðu búsáhaldabyltingu í byrjun árs 2009. Geir H. Haarde tilkynnti á sama tíma um alvarleg veikindi sín og um leið að hann myndi láta af afskiptum af stjórnmálum.

Bjarni nýr formaður

Bjarni Benediksson var kjörinn nýr formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í mars 2009. Hann atti þá kappi við Kristján Þór Júlíusson (sem fjórum árum áður hafði tapað fyrir Þorgerði Katrínu í varaformannskjöri). Bjarni hlaut um 58% atkvæða en Kristján Þór um 40%. Þorgerður Katrín var endurkjörin varaformaður með um 81% fylgi.

Sumarið 2010 fór fram aukalandsfundur eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafði sagt af sér sem varaformaður á flokksráðsfundi í Keflavík fyrr um vorið, stuttu eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Þó svo að landsfundurinn 2010, hafi verið haldinn á óvenjulegum tíma, eða um hásumar, væri í raun haldinn til þess að kjósa nýjan varaformann þá lýsti Bjarni því ítrekað yfir að hann sæktist eftir því að endurnýja umboð sitt sem formaður flokksins, sérstaklega eftir útkomu rannsóknarskýrslunnar.

Á fundinum gerðist það óvænt að Pétur H. Blöndal, alþingismaður, bauð sig  fram gegn Bjarna og fékk um 30% fylgi þó svo að hann hefði lýst yfir framboði aðeins um sólarhring fyrir kjörið. Bjarni var þó endurkjörinn formaður með um 62% hlutfall atkvæða. Á sama fundi var Ólöf Nordal kjörin varaformaður með um 70% fylgi en Lára Óskarsdóttir, sem einnig bauð sig fram, fékk um 17% fylgi.

Hanna Birna skorar Bjarna á hólm

Rúmu ári síðar, haustið 2011, fór fram einn harðasti formannsslagur í Sjálfstæðisflokknum í 20 ár þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir bauð sig fram gegn Bjarna. Bjarni hafði þó betur í þeirri baráttu og fékk um 55% atkvæða en Hanna Birna um 45%. Ólöf Nordal var endurkjörinn varaformaður og fékk um 80% atkvæða. Mótframbjóðandi hennar, Sr. Halldór Gunnarsson (betur þekktur sem Halldór í Holti) fékk um 9% fylgi en Hanna Birna fékk um 7% fylgi þó hún hefði ekki boðið sig fram .

Sem fyrr segir fékk Bjarni um 79% fylgi þegar hann var endurkjörinn formaður í gær. Hanna Birna fékk um 19% þrátt fyrir að vera ekki í framboði en Halldór í Holti, sem boðið hafði sig fram gegn Bjarna, fékk einungis tæp 2%. Gild atkvæði voru 1.190.

Í varaformannskjörinu í gær voru 1.179 gild atkvæði og af þeim fékk Hanna Birna 1.120 eða 95%. Aðrir fengu 59 atkvæði. Í þeirri 30 ára sögu sem hér er rifjuð upp hefur varaformaður aðeins einu sinni fengið fylgi yfir 90% þegar Geir H. Haarde var endurkjörinn varaformaður árið 2003.