Tveir formenn stjórnmálaflokka, þeir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna (VG), og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, hafa frá ársbyrjun 2004 fengið greiddar um 30,5 milljónir úr ríkissjóð vegna lagabreytinga í eftirlaunafrumvarpinu svokallaða í árslok  2003.

Í 23. grein eftirlaunalaganna er kveðið á um að formenn stjórnmálaflokka, sem ekki eru jafnframt ráðherrar, fái greitt 50% álag á þingfararkaup en við samþykkt frumvarpsins var lögum um þingfararkaup breytt samkvæmt þessu. Aðeins tveir alþingismenn, þeir Guðjón Arnar og Steingrímur hafa verið formenn flokka, óslitið síðan þá.

Frá því að lögin tóku gildi, eða frá áramótum 2003/2004 hefur þingfararkaupi verið breytt 11 sinnum af Kjararáði (áður Kjaradóm), 10 sinnum til hækkunar en einu sinni til lækkunar eða frá s.l. áramótum.

Sé miðað við 50% álag ofan á þingfararkaup frá ársbyrjun 2004 hefur það hækkað úr tæpum 220 þúsund krónum á mánuði í um 260 þúsund krónur á mánuði en var orðið, fyrir lækkunina um síðustu áramót rúmar 281 þúsund krónur. Rétt er að ítreka að álagið greiðist ofan á þingfararkaup.

Steingrímur og Guðjón Arnar saman með um 30,5 milljónir króna ...

Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins hefur Steingrímur J. Sigfússon, sem verið hefur formaður VG frá því lögin tóku gildi, fengið tæpar 15 milljónir greiddar í álag ofan á þingfararkaup vegna laganna – eða fram til 1. febrúar á þessu ári þegar hann tók við embætti ráðherra.

Á sama tíma hefur Guðjón Arnar Kristjánsson, sem verið hefur formaður Frjálslynda flokksins síðan lögin tóku gildi, fengið rúmar 15,5 milljónir króna greiddar fyrir sama álag en hann hefur aldrei gegnt embætti ráðherra.

... 5 aðrir aðrir formenn saman með um 15,5 milljónir króna

Þá hafa tveir formenn Samfylkingarinnar fengið greiddar um 9,5 milljónir króna frá því að lögin tóku gildi. Þær greiðslur hafa skipst á milli formannanna Össur Skarphéðinssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ingibjörg varð formaður Samfylkingarinnar vorið 2005 og hefur því fengið greiddar um 5,5 milljónir áður en hún settist í ríkisstjórn vorið 2007 en Össur tæpar 4 milljónir króna þar á undan.

Frá því að Framsóknarflokkurinn fór úr ríkisstjórn sumarið 2007 hefur formaður flokksins fengið greiddar tæpar 5,2 milljónir króna en þær skiptast á milli þeirra Guðna Ágústssonar og Valgerðar Sverrisdóttur. Guðni hefur þannig fengið greiddar um 4,7 milljónir króna en Valgerður, sem var formaður í um tvo mánuði fékk greiddar rúmar 500 þúsund krónur í álag fyrir að vera formaður stjórnamálaflokks.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi formaður fær ekki greidd laun þar sem hann situr ekki á þingi.

Loks hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið um 520 þúsund krónur vegna laganna en sú greiðsla hefur öll hlotnast Geir H. Haarde, frá því að hann vék úr ríkisstjórn þann 1. febrúar s.l. en Bjarni Benediktsson mun fá álagið greitt héðan af.

Breyting á þingfararkaupi enn í gildi

Þannig hafa um 46 milljónir króna verið greiddar formönnum stjórnmálaflokka sem ekki hafa verið ráðherrar frá því að lögin tóku gildi í ársbyrjun 2004.

Eins og kunnugt er voru eftirlaunalögin afnumin fyrr á þessu ári. Hins vegar hefur breytingin á þingfararkaupi alþingismanna, þ.á.m. aukaálagsgreiðslum til formanna, ekki verið tekin til baka og er því enn í fullu gildi.

Formenn stjórnmálaflokkanna munu því halda 50% aukagreiðslum svo lengi sem þeir sitja á þingi og eru ekki ráðherrar.