Öldungadeild Bandaríkjaþings ákvað í gærkvöldi að framleiðslu F-22 Raptor orrustuþotunnar skyldi hætt en áður hafði verið áætlað að verja um 1,75 milljörðum dala í verkefnið.

Þó svo að hér sé einungis um að ræða framleiðslu á einni orrustuþotu eru stjórnmálaskýrendur vestanhafs sammála um að málið sé mikill sigur fyrir Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, sem hefur heitið því að skera niður í varnarmálum.

Þannig er því haldið fram að með ákvörðun Öldungadeildarinnar í gær sé þingið að gefa tóninn fyrir það sem koma skal en Bandaríkin verja að meðaltali um 680 milljörðum dala til varnarmála á ári hverju. Til samanburðar var upprunalegi björgunarpakki yfirvalda til handa fjármálageiranum um 700 milljarðar dala.

Það er bandaríska fyrirtækið Lockheed Martin, dótturfélag Boeing, sem framleiðir þoturnar. Repúblikanar á þingi og lögfræðingar Lockheed Martin höfðu mótmælt fyrirhugaðri ákvörðun Öldungadeildarinnar með þeim rökum að með því að hætta framleiðslu yrðu fjöldauppsagnir í framleiðsluiðnaði og nauðsynlegt væri að verja störfin í því ástandi sem nú ríkir í atvinnumálum vestanhafs.

Drauma-orrustuþota en þó ekki gallalaus

F-22 orrustuþotan átti að verða stolt bandaríska flughersins og til hennar voru gerðar miklar væntingar. Þotan sést ekki í radar, getur borið talsvert magn af vopnum, getur svifið á sama stað í ákveðinn tíma, hefur nákvæmari hnit á skotmörkum sínum en aðrar þotur og flýgur hraðar en flestar aðrar orrustuþotur.

F-22 er draumur í augum þeirra sem þekkja til lofthernaðar en hún er þó dýr í viðhaldi. Viðmælandi CNN segir að fyrir hvern flugtíma þurfi allt að 30 tíma í viðhald. Demókratar á þinginu hafa sagt að fyrir sama fjármagn væri hægt að framleiða mun meira af öðrum góðum orrustuþotum.

En málinu er þó ekki alveg lokið. Öldungadeildin ákvað aðeins að skrúfa fyrir fjármagnið sem áætlar hafði verið til framleiðslu F-22 þotunnar en við gerð fjárlaga hafði Fulltrúadeild þingsins eyrnamerkt ákveðnu fé, um 1,5 milljörðum dala, til „tæknilegrar“ orrustuþotu sem búin yrði öllum nauðsynlegum kröfum nútímahernaðar. Það liggur í augum uppi að F-22 uppfyllir þær kröfur.

Hins vegar þurfa báðar deildir þingsins að komast að samkomulagi áður en Obama forseti skrifar undir lögin en hann hefur þegar hótað því að synja lögunum ef framleiðslu þotunnar verði haldið áfram. Nú þegar hafa tæplega 190 þotur verið framleiddar eða eru á framleiðslustigi.

Pentagon vill einbeita sér að hermönnum

Það sem kemur þó mest á óvart er að sátt virðist ríkja um málið í Pentagon, þ.e. að framleiðslu þotunnar verði hætt. Það kemur ekki til af því hversu léleg hún sé, þvert á móti, heldur hafa bæði Robert Gates, varnarmálaráðherra (sem einnig var varnarmálaráðherra á síðustu árum forsetatíðar George W. Bush), og háttsettir hershöfðingjar gefið í skyn að nauðsynlegt sé að nýta það fjármagn sem fæst til varnarmála betur og einbeita sér að uppbyggingu mannafla Bandaríkjahers frekar en tæknibúnaði.

Þá má geta þess að seint í gærkvöldi samþykkti Öldungadeild þingsins, með 93 atkvæðum gegn einu, að veita 2,5 milljarðar dala fjárveitingu sem nýtt yrði til að fjölga hermönnum í Bandaríkjaher um allt að 30 þúsund á næstum þremur árum og bæta kjör þeirra hermanna sem fyrir eru í hernum.

Viðmælandi Reuters fréttastofunnar, sem sagður er starfa í Pentagon, segir Bandaríkjaher smátt og smátt vera að forgangsraða upp á nýtt. Hann segir að ekki komi til greina að hætta tækniþróun á vígbúnaði heldur þurfi að gæta jafnræðis á því að bæta tæknina og sinna mannaflanum.

John McCain, öldungadeildarþingmaður og fyrrv. mótframbjóðandi Obama um forsetaembættið, sagði Obama eiga mikið hrós skilið fyrir stefnufesti sína í varnarmálum. Hann varaði vil dylgjum um að með því að skera niður í fjárframlögum til varnarmála væri verið að veikja varnir landsins. Á tímum sem þessum væri nauðsynlegt að vanda sig við öll útgjöld og þar væru varnarmál ekki undanskilin.