Enn hafa félög með skammstöfunina FS komið til opinberar umræðu vegna óvenjulegra fjármálagerninga.

Nú hefur komið í ljós að félagið FS38 ehf. hefur lánað FS37 ehf., sem nú hefur verið nafnbreytt í Stím ehf., verulegar fjárhæðir sem flest bendir til að verði ekki innheimar. Bæði þessi félög hafa verið, eða eru með einum eða öðrum hætti í eigu Pálma Haraldssonar fjárfestis í Fons. Engin svör fengust úr herbúðum Fons þegar eftir var leitað.

Félögin virðst hafa verið stofnuð sem hluti af ákveðinni röð kennitalna í október 2007. Hlutafé er í lágmarki en skuldir gríðarlegar án þess að séð verði að nein rekstur sé í félögunum. Þá hefur stjórn FS38 ehf. aðeins ein stjórnarmann sem er Eiríkur S. Svavarsson starfsmaður Fons. Hann er jafnframt tilkynntur sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi.

Heimilsfesti félagsins er að Suðurgötu 22, þar sem Fons er til húsa. Þegar eftir var leitað fengust engar upplýsingar um í hvaða félögum það á. Ný stjórn var skipuð í félaginu strax 16. nóvember samkvæmt tilkynningu til Hlutafélagaskrá. Þá var Eiríkur einn stjórnarmaður og Rannveig Guðmundsdóttir varamaður. Undir tilkynninguna ritar Pálmi Haraldsson.

24. nóvember síðastliðinn urðu síðan þær breytingar að Eiríkur lætur af störfum og Andri Freyr Stefánsson tekur við. Andri Freyr er 25 ára gamall.

Í ársreikningi FS38 ehf. fyrir árið 2007 kemur fram að hlutafé  er 500 þúsund sem er lágmarksupphæð við stofnun hlutafélags. Tap varð af rekstri að fjárhæð 25,9 milljónir króna. Eigið fé var því neikvætt í árslok, tæpum tveimur mánuðum eftir að það er stofnað, um 25,4 milljónir króna.  Í áritun endurskoðanda félagsins, Símonar Á. Gunnarssonar hjá KPMG, kemur fram að ekki hafi farið fram könnun eða endurskoðun á meðfylgjandi reikningi.

Í ársreikningnum kemur fram að félagið hefur lánað FS37 ehf., sem þá var í eigu Fons, 2,5 milljarða króna með einum gjalddaga á árinu 2008. Lánið er víkjandi fyrir öðrum lánum FS37 og tekið er fram að miðað við eignastöðu sé verulegur vafi á um innheimtanleika kröfunnar. Þar af leiðandi eru áfallnir vextir ekki reiknaðir eða tekjufærðir í rekstrarreikningi.

Áður hafði  komið  fram að FS37, síðar Stím, hefði verið stofnað að frumkvæði Glitnis til að fjárfesta í Glitni og FL Group, nú Stoðum.