Miðað við þær kannanir sem birst hafa síðustu daga og vikur stefnir allt í að núverandi ríkisstjórn kolfalli í kosningum sem fram fara í dag. Þetta verður þá í fyrsta sinn frá árinu 1987, eða í 26 ár, sem sitjandi ríkisstjórn fellur.

Síðan þá hefur engin ríkisstjórn í raun fallið, þ.e. engin ríkisstjórn misst þingmeirihluta, þó svo að nokkru sinnum hafi verið skipt um ríkisstjórn eða nýir flokkar komið að ríkisstjórn eftir kosningar.

Árið 1987 tapaði stjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þingmeirihluta sínum en það ár bauð nýr flokkur Alberts Guðmundssonar, Borgaraflokkurinn, sig fram og fékk um 11% atkvæða og sex þingmenn. Um var að ræða klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum. Þorsteinn Pálsson myndaði þó nýja ríkisstjórn með Framsóknaflokki og Alþýðuflokki. Sú stjórn hélt velli í rúmt ár en sprakk eins og frægt er í beinni útsendingu á Stöð 2 þegar þeir Jón Baldvin Hannibalsson, fjármálaráðherra og þá formaður Alþýðuflokksins, og Steingrímur heitinn Hermannsson, utanríkisráðherra og þá formaður Framsóknarflokksins, lýstu því yfir að ríkisstjórnarsamstarfinu væri lokið. Út frá því myndaði Steingrímur Hermannsson vinstri stjórn með þátttöku Alþýðuflokks og Alþýðubandalags (og síðar hluta af Borgaraflokknum) sem sat fram að kosningunum árið 1991.

Viðeyjarstjórnin tekur við

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hélt í raun velli eftir kosningarnar 1991 með eins manns meirihluta. Þó var ljóst að mikil óeining var innan þáverandi ríkisstjórnarflokka, m.a. vegna umdeildrar stóriðjustefnu og væntanlegs EES samnings, auk þess sem Sjálfstæðisflokkurinn undir stjórn nýkjörins formanns, Davíðs Oddssonar, vann yfirburðarsigur í kosningunum þegar flokkurinn fékk tæplega 39% atkvæða og 26 þingmenn. Úr varð að Davíð fékk umboð forseta til stjórnarmyndunar og nokkrum dögum síðar myndaði Davíð ríkisstjórn ásamt Alþýðuflokknum undir forystu Jóns Baldvins. Sú stjórn varð strax og er enn þekkt sem Viðeyjarstjórnin enda fóru viðræður fram í Viðey.

Krötunum skipt út fyrir Framsókn

Þó svo að Viðeyjarstjórnin hafi misst nokkuð fylgi í kosningunum vorið 1995 hélt hún samt eins manns þingmeirihluta. Jóhanna Sigurðardóttir, sem setið hafði sem félagsmálaráðherra hluta af kjörtímabilinu, hafði klofið sig úr Alþýðuflokknum og stofnað Þjóðvaka. Sá flokkur fékk rúmlega 7% fylgi á meðan Alþýðuflokkurinn tapaði um 4% fylgi og þremur þingmönnum. Framsóknarflokkurinn jók fylgi sitt um rú 4% frá fyrri kosningum og bætti við sig tveimur þingmönnum. Davíð Oddsson myndaði þá ríkisstjórn með Halldór Ásgrímssyni, formanni Framsóknarflokksins. Þingmeirihlutinn taldi þá 40 manns.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt velli í kosningunum vorið 1999. Sjálfstæðisflokkurinn jók þá fylgi sitt um tæp fjögur prósentustig og fékk tæplega 41% fylgi. Fylgi Framsóknarflokksins lækkaði þó um fimm prósentustig og flokkurinn missti þrjá þingmenn. Ríkisstjórnin hafði þó 38 manna meirihluta og sat áfram. Til gaman má geta að þetta var í fyrsta sinn sem Samfylkingin og Vinstri grænir buðu fram eftir að mistekist hafði að sameina vinstri flokkana Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið undir merkjum Samfylkingarinnar. Samfylkingin fékk um 27% fylgi og 17 þingmenn en VG um 9% fylgi og sex þingmenn.

Davíð og Halldór hætta

Kosningarnar 2003 mörkuðu þó tímamót. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði um sjö prósentustigum og missti fjóra þingmenn en fylgi Framsóknarflokksins hélst nær óbreytt sem og þingmannafjöldinn. Í framhaldinu sömdu þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson um áframhaldandi samstarf en um leið að þeir myndu skiptast á stólum á miðju kjörtímabili, þannig að Halldór yrði forsætisráðherra en Davíð utanríkisráðherra. Rétt er að taka fram að í sömu kosningum fékk Samfylkingin 31% fylgi undir forystu Össurar Skarphéðinssonar en það er í eina skiptið sem flokkurinn hefur náð 30% fylgi.

Þeir Davíð og Halldór hættu báðir afskiptum af stjórnmálum á kjörtímabilinu. Davíð, sem þá var orðinn utanríkisráðherra, lét af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi flokksins haustið 2005. Geir H. Haarde, þá fjármálaráðherra, var þá kjörinn formaður og tók við sem utanríkisráðherra. Halldór Ásgrímsson sagði síðan af sér bæði sem formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra eftir að flokkurinn hafði beðið afhroð í sveitastjórnarkosningum vorið 2006. Eftir það settist Geir H. Haarde í stól forsætisráðherra en Guðni Ágústsson varð formaður Framsóknarflokksins. Valgerður Sverrisdóttir varð utanríkisráðherra.

Framundan voru miklar hrókeringar innar Framsóknarflokksins því Guðni lét af formennsku fyrir kosningarnar 2007 og Jón Sigurðsson, þá iðnaðarráherra (sem þó sat ekki á þingi) varð formaður flokksins.

Þingvallastjórnin verður til

Í kosningunum vorið 2007 hélt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eins manns meirihluta (en hafði haft þriggja manna meirihluta á fyrra kjörtímabili). Sjálfstæðisflokkurinn jók fylgi sitt um þrjú prósentustig og bætti við sig þremur þingmönnum, en Framsóknarflokkurinn tapaði hins vegar sex prósentustigum og fimm þingmönnum. Þá náði Jón Sigurðsson, formaður flokksins, ekki kjöri sem þingmaður flokksins í Reykjavík.

Þó svo að ríkisstjórnin hafi haldið velli varð raunin sú að Geir H. Haarde myndaði ríkisstjórn, sem kölluð var Þingvallastjórn, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem þá var orðin þingmaður Samfylkingarinnar. Samfylkingin fékk 18 þingmenn kjörna þannig að sá meirihluti taldi 43 þingmenn.

Vart þarf að rifja upp afdrif þeirrar ríkisstjórnar, en hún sat við völd þegar stærstu viðskiptabankar landsins hrundu eins og spilaborg í október 2008. Í lok janúar 2009 tilkynnti Ingibjörg Sólrún að ríkisstjórnarsamstarfinu væri lokið og Geir H. Haarde baðst lausnar. Úr varð að Samfylkingin og Vinstri grænir fengu umboð forseta til að mynda minnihlutastjórn sem Framsóknarflokkurinn varði vantrausti. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var þá nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins.

Núvarandi ríkisstjórn kolfallin

Í apríl 2009 fóru aftur fram kosningar þar sem Samfylkingin og Vinstri grænir náðu 34 manna þingmeirihluta. Saga þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr kallar á aðra ítarlega fréttaskýringu, en þó er vert að taka fram að ríkisstjórnin nýtur í raun stuðnings minnihluta Alþingis þar sem fimm þingmenn, þrír úr VG og tveir úr Samfylkingunni, hafa yfirgefið meirihlutann á kjörtímabilinu. Hún hefur þó staðið af sér tvær vantrauststillögur, meðal annars með stuðningi þeirra Róberts Marshall og Guðmundar Steingrímssonar sem nú eru í framboði fyrir Bjarta framtíð en eru báðir fv. þingmenn Samfylkingarinnar.

Ríkisstjórnin hefur mælst með minnihlutafylgi í könnunum frá því sumarið 2010, en aldri lægri en nú. Samfylkingin mældist í gær með tæplega 15% fylgi (fékk tæplega 30% í kosningum 2009) og Vinstri grænir með 10% fylgi (fékk tæpl. 22% 2009). Flokkarnir mælast þannig með 14-16 þingmenn samanlagt, þannig að það er óhætt að segja að núverandi ríkisstjórn sé kolfallinn eins og áður hefur komið fram.