Fyrirhuguð skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs á erlendum markaði er fyrsta útboðið af þessu tagi sem ríkið ræðst í síðan hagkerfið hrundi á haustdögum 2008. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stóð til ráðast í útboð fyrir áramót en þá treystu menn sér ekki til þess að taka slaginn og því var hætt við en eins og fram kemur í frétt á vb.is fyrr í morgun er nú ljóst að útgáfan mun eiga sér stað.

Fyrir um viku síðan kom það fram á vb.is að fulltrúar ríkissjóðs hyggðust funda með fjárfestum í fyrstu viku júnímánaðar og kanna landslagið ef svo má að orði komast. Þessi fundaherferð (e. road show) virðist hafa gefið þau svör sem menn vildu heyra. Alls hyggst ríkið sækja um 1 milljarða Bandaríkjadala í útboðinu, jafngildi um 113,4 milljarða króna miðað við skráð gengi dollars hjá Seðlabankanum í gær. Eins og fram kom í Morgunkorni Íslandsbanka fyrir viku síðan eru það hagfelld þróun Icesave-deilunnar, sem öðru fremur felst í því að endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans virðast ætla að verða meiri en áður var talið, og sú staðreynd að matsfyrirtækin ákváðu að hrófla ekki við lánshæfismati ríkissjóðs þrátt fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave, sem eru lykillinn að því að hægt er að ráðast í útgáfu nú.

Þau skuldabréf sem nú verða gefin út eru til fimm ára og líklegt verður að teljast að útgáfunni sé ætlað að endurfjármagna þá gjalddaga sem eru á þessu ári og því næsta en samanlögð upphæð þessara gjalddaga er 454 milljónir evra. Seðlabankinn hefur, sem kunnugt er, að undanförnu verið að kaupa hluta þeirra skuldabréfa sem eru á gjalddaga á næstu tólf mánuðum. Þegar leitað var upplýsinga um þessi mál í fjármálaráðuneytinu fengust þau svör að ráðuneytið myndi ekkert tjá sig um málið að sinni, það væri þeim óheimilt.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að líkleg kjör í útboðinu verið talin 350 punktar ofan á bandarísk ríkisskuldabréf til fimm ára sem nú bera 1,75% vaxtamiða samkvæmt upplýsingum á vef Bloomberg. Þessi kjör eru talsvert hærri en skuldatryggingarálag ríkisins sem er um 200 punktar en eins og fram kemur í áðurnefndu Morgunkorni myndi það teljast ólíklegt að það álag fengist nokkurn tímann. Markaðurinn er óvirkur og því lítið mark á álaginu takandi auk þess sem önnur lönd sem lent hafa í efnahagslegum hremmingum og eru með svipað tryggingarálag hafa verið að fá lán á mun hærri vöxtum.