Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Alistair Darling, fjármálaráðherra, hafa lagt til að hæsta skattþrep á einstaklinga verði hækkað úr 40% í 50%. Viðmiðunin á að vera 150.000 pund á ári, eða um 2,4 milljónir króna á mánuði.

Áform Browns og Darlings koma í framhaldi af versnandi horfum í bresku efnahagslífi. The Economist segir að í sumu tilliti séu opinber fjármál þar í landi þau verstu í nokkru ríku landi. Líklegt sé að fjárlagahalli verði jafnvel meiri í Bretlandi á næsta ári en á Ítalíu. Vegna erfiðleika fjármálakerfisins hafi skatttekjur minnkað mikið á sama tíma og útgjöld til velferðarmála fari vaxandi.

Skuldahlutfallið rýkur upp

Breska ríkið hefur tekið há lán og hlutfall skulda þess af landsframleiðslu hefur vaxið mikið. Í fjárlögum síðasta árs var gert ráð fyrir að skuldir ríkisins yrðu 39% af landsframleiðslu í ár, en nú er gert ráð fyrir 59% og talið líklegt að það hækki í 79% á árunum 2013-2014.

Landsframleiðsla í Bretlandi féll um 1,9% á fyrsta fjórðungi og hefur ekki fallið meira í 30 ár, en á árinu 1979 féll hún um 2,4% á þriðja fjórðungi. Eins og fram kemur í Telegraph í dag var fjöldaatvinnuleysi í landinu á þessum tíma og mikil stéttabarátta. Þetta leiddi svo af sér fall vinstri stjórnarinnar og valdatöku Margaret Thatcher.

Telegraph segir að þróun landsframleiðslunnar veki upp efasemdir um að spár Darlings um að hagkerfið muni dragast saman um 3,5% muni ganga eftir. Þær virðist nú vera of bjartsýnar.

Cameron með 18% forskot

Ný skoðanakönnun sem gerð var fyrir Telegraph sýnir að Íhaldsflokkur Davids Cameron er nú með 18% forskot á Verkamannaflokk Browns og að ef kosið yrði nú myndi Cameron ná 150 sæta meirihluta í þinginu. Íhaldsflokkurinn fengi 45%, Verkamannaflokkurinn 27% og Frjálslyndi flokkurinn 18%. Í síðasta mánuði sýndi samskonar könnun að Íhaldsflokkurinn hefði 10% forskot á Verkamannaflokkinn.