Landsframleiðsla í hagkerfum heimsins heldur áfram að hrapa. Nú hefur Japan birt tölur um landsframleiðslu fyrsta fjórðungs ársins og þær sýna samdrátt upp á 4% frá fyrra fjórðungi, eða rúm 15% á ársgrunni, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Þetta er mesti samdráttur í Japan á einum fjórðungi frá árinu 1955 að því er fram kemur í WSJ. Að sögn Reuters er Seðlabanki Japans svartsýnn á að þær breytingar séu að verða sem snúi þróuninni við.

Ekki verra í Tævan frá 1952

Kína er eitt tiltölulega fárra hagkerfa sem enn eru með hagvöxt, en hann fer ört minnkandi og var 6,1% á fyrsta fjórðungi frá sama tíma í fyrra. Í Tævan hefur landsframleiðsla hins vegar dregist saman um 9,3% á sama mælikvarða og er það mesta hrap frá því farið var að birta opinberar hagtölur árið 1952.

Eystrasaltsríkin koma illa út

Í Austur- og Mið-Evrópu hefur þróunin verið mjög neikvæð. Þegar horft er á þróun fyrsta ársfjórðungs á ársgrunni, eins og gert er í meðfylgjandi töflu, raða Eystrasaltsríkin og Slóvakía sér í neðstu sætin. Slóvakía og Lettland eru með um 38% samdrátt á ársgrunni á fyrsta fjórðungi.

Versta þróun í Þýskalandi frá 1970

Landsframleiðsla í Mexíkó dróst saman um nær 22% á ársgrunni, sem er versta þróun þar í landi frá því í pesóakrísunni árið 1995, þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Bandaríkin komu landinu til bjargar. Mexíkó hefur nú tryggt sér 47 milljarða dala frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Innflutningur til Bandaríkjanna dróst saman um 30% á fyrsta fjórðungi sem hefur mikil áhrif á mörg önnur lönd. Eitt þeirra er Þýskaland sem að sögn Financial Times Deutschland mátti á fyrsta fjórðungi þola samdrátt á ársgrunni upp á rúm 14%, sem er mesti afturkippur frá árinu 1970.

Mikill samdráttur á evrusvæðinu

Evrusvæðið í heild sinni dróst saman um 2,5% á fyrsta fjórðungi ársins frá fjórða fjórðungi í fyrra, eða um nær 10% á ársgrunni. Með þessum samdrætti versnaði samdráttur sem var þegar orðinn sá versti frá síðari heimsstyrjöldinni, að því er segir í FT.

Bati á seinni hluta ársins?

Þrátt fyrir allar þessar neikvæðu tölur, nú síðast frá Japan, telja hagfræðingar sig sjá ljós við enda ganganna. Þá má minna á að Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, sagði fyrr í mánuðinum að viðsnúningur væri innan seilingar. Hversu langt það er í mánuðum mælt er ómögulegt að segja til um en flestir virðast telja að það verði einhvern tímann á seinni hluta ársins.