Eins og frá var greint í morgun kann handtakan á milljarðamæringnum Raj Rajaratnam að leiða til þess að eitt stærsta svikamál innherjaviðskipta verði afhjúpað ef marka má umfjöllun bandarískra fjölmiðla af málinu.

Rajaratnam, ásamt öðrum, er talinn hafa hagnast upp allt að 20 milljarða Bandaríkjadali með ólöglegum innherjaviðskiptum en hann var handtekinn nú fyrir helgina.

En fyrir áhugamenn um verðbréfaviðskipti og lögreglurannsóknir er nokkuð áhugavert að skoða hvernig yfirvöld vestanhafs fara að því að bæði greina og síðan rannsaka innherjasvik.

Samkvæmt umfjöllun Bloomberg fréttaveitunnar fylgist eftirlitsstofnun verðbréfaviðskipta (e. Securities and Exchange Commission), betur þekkt sem SEC, daglega með verðbréfaviðskiptum og lætur FBI vita ef eitthvað grunsamlegt á sér stað. Þannig er t.d. mjög algengt að SEC veiti því athygli ef einhverjir ákveðnir aðilar hagnast vel rétt áður en skráð fyrirtæki birta uppgjör sín. Sá sem stundar sjaldan viðskipti gæti átt í erfiðleikum með að útskýra hvernig hann varð svona „heppinn“ að stunda ágóðasöm viðskipti stuttu fyrir birtingu uppgjöra.

Öðru máli gegnir þú um vogunarsjóði. Þeir eru líklegri til að bregðast hratt við og það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að vogunarsjóður selji hlutabréf stuttu áður en uppgjör er kynnt sem kann að valda lækkun bréfanna – nú eða í hina áttina, kaupi hlutabréf sem rjúka upp í verði eftir kynningu uppgjöra svo nokkur dæmi séu tekin.

Þá koma svokölluð blá skjöl (e. blue sheet) inn í myndina. Það eru gögn sem SEC safnar og byggja á rafrænum gagnagrunni sem settur var upp fyrir um tveimur árum. Samkvæmt upplýsingum Bloomberg leita tölvur eftir líkum færslum (viðskiptum) og parar saman upplýsingar um tvo eða fleiri aðila sem allir framkvæma lík viðskipti á ákveðnum tímapunkti, t.d. ef um að ræða svipaðar upphæðir, sama fyrirtæki og svo frv.

Þetta er að mestu gert í tölvum sem forritaðar eru samkvæmt ákveðnum skilmálum til að elta svona viðskipti uppi. Að sögn Bloomberg virðist það bera árangur því saksóknarar í málinu eru bjartsýnir á að málið kunni að leiða til þungra dóma. Undir það tekur Reuters fréttastofan í umfjöllun sinni um málið og segist hafa heimildir fyrir því að sönnunargögnin séu til í bunkavís.

Þegar tölvan síðan grefur upp umtalað mynstur fara viðvörunarbjöllur í gang. Þá eru umrædd fyrirtæki skoðuð, hverjir kunna að hafa upplýsingar um það, hvernig þeir sem stunduðu viðskipti gætu mögulega hafa fengið upplýsingar, hvaða aðilar hafa veitt ráðgjöf (s.s. bankar, lögfræðiskrifstofur og fl.) og svo frv.

Bæði Bloomberg og Reuters greina frá því að þegar búið er að kortleggja viðskipta- og tengslanetið sé auðvelt að finna fyrirtæki eða aðila sem kunna að hafa lekið innherjaupplýsingum.

Þessi aðferð hefur að sögn Bloomberg þegar borið árangur. Í febrúar á þessu ári voru fjórir starfsmenn UBS AG og Blackstone Group handteknir í Bandaríkjunum eftir að grunur vaknaði að innherjaupplýsingar höfðu gengið á milli aðila.

Leynileg aðgerð sem staðið hefur í tvö ár

Í umfjöllun Bloomberg kemur þó fram allt þetta ferli hafi ekki leitt til handtökunnar á Rajaratnam heldur hafi starfsmenn SEC orðið varir við grunsamlega hegðun starfsmanna Galleon og því ekki verið þörf á öllu því ferli sem greint var frá hér að ofan. Þegar verið að setja fyrrnefndan gagnagrunn upp urðu starfsmenn SEC þegar varir við grunsamleg viðskipti Galleon og úr varð að starfsmaður stofnunarinnar gerðist starfsmaður Galleon í nóvember 2007. Um var að ræða leynilega aðgerð (e. undercover).

Fjölmiðlar vestanhafs hafa greint frá því að saksóknarar í málinu hafi meðal sönnunargagna samtöl á bandi, skjöl, tölvugögn og tölvupósta. Bloomberg segir að yfirvöld hafi beitt svipuðum aðgerðum til að uppræta eiturlyfjahringi og hryðjuverkastarfsemi. Þá greindi Wall Street Journal frá því í gær að þrír fyrrverandi starfsmenn Rajaratnam séu meðal uppljóstrara í málinu.