Nokkur spenna ríkir innan Samfylkingarinnar vegna prófkjörs flokksins sem fram fer í Suðvesturkjördæmi (Kraganum) nú um helgina. Þar keppa um fyrsta sæti á lista þau Árni Páll Árnason, fv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra.

Kosningin í prófkjörinu, sem fram fer rafrænt, hófst á miðnætti og stendur fram á morgundaginn (laugardag) og þá ættu tölur að liggja fyrir. Þeir aðilar innan Samfylkingarinnar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við síðustu daga treysta sér engan veginn til að spá fyrir um úrslit prófkjörsins um helgina (sem lýkur kl. 17 á morgun, laugardag).

Hér er þó ekki bara um hefðbundna prófkjörsbaráttu að ræða. Í prófkjörinu takast á þungavigtadeildir innan flokksins og niðurstaða prófkjörsins mun væntanlega hafa eitthvað að segja um komandi formannskjör í Samfylkingunni sem fram fer í byrjun febrúar. Það sem síðan færir enn meiri spennu í prófkjörið er að vegna reglna flokksins um kynjakvóta við uppröðun á lista Samfylkingarinnar má teljast öruggt að einn núverandi þingmanna Samfylkingarinnar verður í tæpu þingsæti í vor, ef marka má nýlegar kannanir. Samkvæmt þessum reglum þurfa að vera jöfn kynjahlutföll í fjórum efstu sætum framboðslistans.

Karlkyns þingmenn í hættu

Árni Páll Árnason er núverandi oddviti kjördæmisins og leiddi lista flokksins í síðustu kosningum. Þá fékk flokkurinn rúmlega 32% fylgi og fjóra þingmenn (og var nálægt því að koma fimmta manninum inn). Katrín Júlíusdóttir var í 2. sæti á lista flokksins, Þórunn Sveinbjarnardóttir var í 3. sæti, Magnús Orri Schram í 4. sæti og Lúðvík Geirsson í 5. sæti. Þórunn hefur sem kunnugt er sagt af sér þingmennsku og í kjölfarið tók Lúðvík hennar sæti á þingi. Allir núverandi þingmenn sækjast eftir endurkjöri en vegna fyrrnefndrar reglu um kynjakvóta mun einn karlmannanna á listanum færast niður um sæti, þ.e. ef þeir ná allir í fjögur efstu sætin í prófkjörinu. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins þykir Lúðvík Geirsson hafa veikustu stöðuna af núverandi þingmönnum.

Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Capacent mælist Samfylkingin með tæplega 20% fylgi í kjördæminu og fengi, ef gengið yrði til kosninga í dag, þrjá þingmenn samkvæmt því. Rétt er þó að taka fram að Samfylkingin hefur síðustu mánuði verið að mælast með fjóra þingmenn í kjördæminu. Fylgi flokksins fór nokkuð niður eftir að Árna Pál var vikið úr ríkisstjórn með nokkuð harkalegum hætti um síðustu áramót en flokkurinn hefur jafnt og þétt verið að vinna það fylgi til baka. Í þessu samhengi má nefna að Kraginn er næst sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins (er sterkastur í Suðurkjördæmi) þar sem flokkurinn mælist nú með tæplega 40% fylgi (en fékk 27,6% fylgi í kosningunum 2009). Það má búast við harðri baráttu milli þessara flokka í vor og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins telja margir Samfylkingarmenn að Árni Páll sé líklegri til að „stela“ kjósendum frá Sjálfstæðisflokknum.

Vinskapur á milli Árna Páls og Katrínu

Það sem er merkilegt í þessu er að á milli Árna Páls og Katrínar er ágætis vinskapur þó þau keppi nú við hvort annað um oddvitasætið. En þannig er nú pólitíkin. Það er líka ágætis vinskapur á milli Illuga Gunnarssonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þó þau keppi bæði um oddvitasæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í prófkjöri flokksins sem fram fer síðar í nóvember.

Um 2.800 manns greiddu atkvæði í prófkjör Samfylkingarinnar sem fram fór í mars 2009. Árni Páll, sem þá atti kappi við Lúðvík Geirsson um 1. sætið, og sigraði það nokkuð örugglega. Katrín, sem óskaði þá eftir 2. sæti, fékk örugga kosningu í sitt sæti.

Allt snýst þetta um að sækja sér stuðning ákveðinna hópa. Margir áhrifamiklir einstaklingar innan Samfylkingarinnar í kjördæminu hafa á síðustu dögum og vikum lýst yfir stuðningi við þau Árna Pál og Katrínu. Út á við virðist Árni Páll njóta meiri stuðnings áhrifamikilla einstaklinga innan flokksins. Þannig má sem dæmi nefna að Þórunn Sveinbjarnardóttir, fv. umhverfisráðherra, Rannveig Guðmundsdóttir, fv. félagsmálaráðherra og allir núverandi borgarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi, með Guðfríði Arnardóttur í fararbroddi, hafa öll opinberlega lýst yfir stuðningi við Árna Pál. Þessir sömu aðilar hafa einnig lýst því yfir að þau styðji hann í formannskjöri innan Samfylkingarinnar þó ekki liggi fyrir hvort, og þá hver, muni mæta honum þar.

Kratarnir í Hafnafirði styðja þó Katrínu heilshugar og þar fara Lúðvík Geirsson og Gunnar Svavarsson fremstir í flokki. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins munu þeir hafa tilkynnt Katrínu að þeir myndu ekki styðja hana í 2. sæti á lista flokksins í þetta sinn (líkt og þeir gerðu árið 2009) heldur þyrfti hún nú að vaða í Árna Pál og sækjast eftir 1. sætinu. Þessi hópur hefur stutt Katrínu síðustu ár en þarna spilar líka inn í persónuleg andúð þeirra á Árna Páli. Þá hefur það vakið athygli að flestir úr hópi kratanna í Hafnafirði eru fyrrverandi, en ekki núverandi, bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar.

Jóhanna styður Katrínu

Hrannar B. Arnarson lýsir yfir stuðningi við Katrínu Júíusdóttur.
Hrannar B. Arnarson lýsir yfir stuðningi við Katrínu Júíusdóttur.
Það er heldur ekkert launungarmál að Katrín er, ólíkt Árna Pál, í miklu uppáhaldi hjá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og fráfarandi formanns Samfylkingarinnar. Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður og nánasti samstarfsmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, lýsti yfir stuðningi við Katrínu á Facebook síðu sinni í vikunni og innan flokksins er litið þannig á að þarna sé komin sönnun þess að Jóhanna styðji ansi dyggilega við bakið á Katrínu. Margir innan Samfylkingarinnar, sem eru búnir að bíða lengi eftir því að Jóhanna Sigurðardóttir stígi til hliðar, meta það sem svo að stuðningur Jóhönnu við Katrínu sé í raun bjarnargreiði en rétt er að ítreka að sú greining er mjög umdeild innan flokksins.

Það vekur líka enn meiri athygli að Katrín er í raun ekki jafn vinstri sinnuð, í þeim skilningi, og Jóhanna og hennar nánustu samstarfsmenn. Katrín þótti standa sig mjög vel í starfi iðnaðarráðherra áður en hún fór í fæðingarorlof á síðasta ári og var vel liðin meðal marga aðila atvinnulífsins (svona eins langt og það nær miðað við hatrömm samskipti ríkisstjórnarinnar og atvinnulífsins). Þá vakti Katrín athygli fyrir mikla röggsemi eftir eldgosið í Eyjafjallajökli vorið 2010 og er fyrir vikið vel liðin innan ferðaþjónustunnar, svo dæmi sé tekið.

Það vakti þó litla hrifningu meðal stuðningsmanna Árna Páls þegar fjármálaráðherrann Katrín hélt í gær blaðamannafund, tveimur dögum fyrir prófkjör, til að kynna margra milljarða króna útgjöld ríkisins í hin ýmsu verkefni undir nafni fjárfestingaáætlunar ríkisins. Maður þarf ekki að vera mjög reyndur í pólitík til að sjá að tímasetningin var engin tilviljun. Á sama tíma hefur Magnúsi Orra Schram verið bannað af kjördæmisráði flokksins í Kraganum að auglýsa nýútkomna bók sína í aðdraganda prófkjörsins.

Össur ræður úrslitum

Þó bæði Katrín og Árni Páll hafi á árum áður tekið þátt í starfi ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins eru þau bæði það sem skilgreina má sem hægri kratar. Til gamans má geta þess að í ítarlegu viðtali í áramótatímariti Viðskiptablaðsins um síðustu áramót ræddi Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og æðsti prestur Samfylkingarinnar, um mikilvægi þess að hægri kratar næðu völdum í flokknum.

Það leiðir hugann að formannskjöri innan Samfylkingarinnar sem fram fer á landsfundi flokksins í byrjun febrúar nk. Árni Páll hefur lýst því yfir, m.a. í viðtali við VB Sjónvarp þann 17. október sl., að hann myndi áfram sækjast eftir því að verða formaður Samfylkingarinnar hvernig svo sem prófkjörið fer um helgina. Samkvæmt könnun MMR, sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið um miðjan október, nýtur Árni Páll meiri stuðnings innan Samfylkingarinnar en Katrín en rétt er að geta þess að hann er sá eini sem þegar hefur lýst yfir framboði. Fari svo að Katrín vinni prófkjörið á morgun er hún þó komin í nokkuð sterka stöðu og búast má við því að hún lýsi yfir formannsframboði í kjölfarið.

Einstaklingar innan Samfylkingarinnar hafa þó bent blaðamanni á að kjósendur í prófkjöri flokksins í Kraganaum séu aðeins brot af meðlimum Samfylkingarinnar á landsvísu þannig að það sé varasamt fyrir bæði Árna Pál og Katrínu að líta á sigur í Kraganum sem of greiðan aðgang í formannsstól. Að því sögðu eru þó ekki margir aðrir sterkir aðilar í augsýn sem eru líklegir til að skáka öðru þeirra. Margir hafa nefnt Magnús Orra Schram í þessu samhengi, þannig að rjóminn af framtíðarleiðtogum Samfylkingarinnar virðist liggja í Kraganum. Fyrst að hér var áður minnst á Össur Skarphéðinsson segja reynsluboltar úr krataheiminum að hann muni hafa mest um það að segja hver verði næsti formaður Samfylkingarinnar.

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
© BIG (VB MYND/BIG)