Velta með skuldabréf nam um 1.150 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Mest var veltan í júní eða tæpir 275 milljarðar en minnst var veltan í mars, tæpir 187 milljarðar.

Hvað einstakar tegundir bréfa varðar er langmesta veltan með Ríkisbréf eða um 685 milljarðar króna. Því næst er mest veltan með Íbúða- og húsnæðisbréf eða um 408 milljarðar króna.

Engin velta hefur verið með skuldabréf lánastofnana og sveitafélaga síðustu þrjá mánuði samkvæmt gögnum Kauphallarinnar. Þó nemur velta með skuldabréf sveitafélaga og Lánasjóðs sveitafélaga (LSS) 881 milljón þar sem af er ári, mest í júní eða um 470 milljónir.

Velta með skuldabréf fyrirtækja lítil

Velta með skuldabréf fyrirtækja nemur um 1,8 milljarði króna það sem af er ári en mest var hún í maí, tæpur 1,1 milljarður króna. Eins og sést þá hefur hún verið sáralítil aðra mánuði á árinu. Heildarvelta með skuldabréf fyrirtækja nam tæpum 5,8 milljörðum króna í fyrra.

Þá nemur heildarvelta með erlend skuldabréf rúmum 5,2 milljörðum króna þar sem af er ári en stærstu hluti þeirrar veltu kom til í janúar og febrúar, eða um 3,4 milljarðar króna og 1,8 milljarðar. Síðan þá hefur nánast engin velta verið með erlend skuldabréf.

Mikil velta í september í fyrra

Síðustu tólf mánuði nemur velta með skuldabréf um 2.954 milljörðum króna en mest var veltan í september í fyrra eða um 515,7 milljarðar.

Heildarvelta með skuldabréf s.l 12 mánuði er sem hér segir:

  • Júlí 2008 – 384,2 milljarðar kr.
  • Ágúst 2008 – 310,2 milljarðar kr.
  • September 2008 – 515,7 milljarðar kr.
  • Október 2008 – 322,2 milljarðar kr.
  • Nóvember 2008 – 93,5 milljarðar kr.
  • Desember 2008 – 178,2 milljarðar kr.
  • Janúar 2009 – 195,2 milljarðar kr.
  • Febrúar 2009 – 193,3 milljarðar kr.
  • Mars 2009 – 186,8 milljarðar kr.
  • Apríl 2009 – 103 milljarðar kr.
  • Maí 2009 – 197,4 milljarðar kr.
  • Júní 2009 – 274,7 milljarðar kr.