Þegar salan gekk í gegn í mars síðastliðnum fengust þær upplýsingar hjá Arion banka að markmið Marti með kaupunum á verktakahluta Íslenskra Aðalverktaka (ÍAV) væri að nota fyrirtækið til að bjóða í verktakaverkefni á hinum Norðurlöndunum. Í þessu lægi tækifæri fyrir íslenska verktaka að komast í verkefni annarsstaðar en á Íslandi.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu í dag að fyrrum eigendur ÍAV hafi eignast helmingshlut í fyrirtækinu á ný . Viðskiptablaðið fjallaði á sínum tíma ítarlega um endurskipulagningu fyrirtækisins. Fréttaskýring í fjórum hlutum um málið mun birtast á vef blaðsins í dag. Þetta er þriðji hluti hennar.

Hættir við að nota ÍAV sem stökkpall til Norðurlandanna Það markmið að nota ÍAV sem stökkpall til hinna Norðurlandanna virðist hafa breyst. Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Gunnari Sverrissyni að „forráðamenn Marti Contractors hafa ekki viljað fjarstýra fyrirtækinu frá Sviss. Þeir leggja mikla áherslu á að það sé rekið á íslenskum forsendum og af Íslendingum. Það er á þeim forsendum sem við komum að félaginu."

Samkvæmt heimasíðu ÍAV er ekki að sjá að fyrirtækið hafi komið að einu einasta verkefni annarsstaðar en á Íslandi síðan að verktakahlutinn var seldur.

Helstu verkefnin eru Harpa og Bolungarvíkurgöng

Helstu verkefni sem Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) hafa verið að vinna að í verktöku er bygging tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu við Reykjavíkurhöfn og gerð Bolungarvíkurganga. Sá hluti ÍAV sem Marti Contractors tók yfir hélt framkvæmd þeirra verkefna áfram. Gerð Bolungarvíkurganga er á vegum Vegagerðar ríkisins.

Þegar ÍAV hóf vinnu við Hörpu átti tónlistarhúsið að rísa sem einkaframkvæmd á vegum félags sem heitir Portus. Það félag var í eigu Nýsis og Landsbankans, en báðir upprunalegu eigendurnir eru nú gjaldþrota. Til að halda framkvæmdinni áfram ákváðu íslenska ríkið og Reykjavíkurborg að taka hana yfir og fjármagna það sem upp á vantaði. Viðskiptablaðið hefur áður greint frá því að kostnaður við byggingu hússins verði hátt í 30 milljarða króna þegar yfir lýkur.

Samið um tvö stór verkefni í ár

Til viðbótar við þessi tvö stóru verkefni samdi ÍAV við Rio Tinto Alcan á Íslandi um verklegar framkvæmdir við fyrri áfanga straumshækkunarverkefnis í Straumsvík. Sá samningur var gerður í apríl, um mánuði eftir yfirtöku Marti á verktakahluta ÍAV.

Í desember samdi fyrirtækið síðan við Carbon Recycling International (CRI) um byggingu verksmiðju í Svarstengi.

Mikillar óánægju hefur gætt á meðal annarra aðila á verktakamarkaði með að fyrirtæki sem hafi í reynd orðið gjaldþrota, losað sig við skuldir sínar og orðið við það rekstarhæft aftur sé að keppa um verkefni.