Hlutabréf stærstu flugfélaga í Bandaríkjunum hafa lækkað nokkuð það sem af er degi en helstu ástæður þess má rekja til hertra öryggisráðstafana eftir að maður frá Nígeríu reyndi að sprengja vél frá Delta flugfélaginu í loft upp um áramótin.

Þannig hafa hlutabréf í Delta lækkað um rúm 3% í dag, hlutabréf í AMR, móðurfélagi American Airlines, hafa lækkað um 2,8%, bréf í UAL, móðurfélagi United Airlines hafa lækkað um 3,3% og loks hafa hlutabréf í US Airways Group lækkað um 2,9%.

Talið er að hertar öryggisreglur komi til með að draga enn frekar úr hagnaði flugfélaga, sem þegar standa höllum fæti, þannig að ekki má mikið út af bregða.

Sem fyrr segir reyndi maður frá Nígeríu að sprengja upp vél Delta félagsins, sem var á leiðinni frá Amsterdam til Detroit (vélin var áður í eigu Northwest Airlines (NWA)  sem nú hefur sameinast Delta en NWA flaug áður þennan fluglegg).

Slík atvik geta haft margar alvarlegar afleiðingar. Í fyrsta lagi krefjast yfirvöld í Bandaríkjunum hertra öryggisaðgerða. Þannig þarf til að mynda að herða eftirlit víðsvegar í Evrópu á þeim flugvöllum þaðan sem flogið er til Bandaríkjanna. Slíkar aðgerðir eru mjög kostnaðarsamar sem þýðir að flugfélög þurfa að greiða hærri lendingargjöld. Gera má ráð fyrir að kostnaðurinn renni beint út í fargjöld.

Þá leiða hertar öryggisráðstafanir, og eftirlit, til þess að mikil töf skapast á flugvöllum. Það dregur úr vilja fólk til að ferðast sem óneitanlega bitnar fyrst og fremst á flugfélögum en jafnframt öðrum ferðaþjónustuaðilum. Þá má loks taka fram að óttinn við hryðjuverkaárásir dregur enn úr vilja fólks til að ferðast með sömu afleiðingum á tekjur flugfélaga.

Þegar gert ráð fyrir miklu tapi en allt horfði til betri vegar

Nú þegar er gert ráð fyrir að tap flugfélaga víðs vegar um heiminn nemi 11 milljörðum Bandaríkjadala á þessu ári og 5,6 milljörðum á næsta ári. Þetta kom fram í enn einni svartsýnisskýrslu Alþjóðasamtaka flugfélaga (IATA), sem birt var um miðjan desember.

Þá hafði IATA áður gert ráð fyrir 3,8 milljarða tapi flugfélaga á næsta ári þannig að sú tala hefur hækkað nokkuð frá því í sumar. Rétt er að minna á að IATA breytti spá sinni fyrir 2009 þrisvar sinnum þar sem gert var ráð fyrir meira tapi með hverri skýrslunni.

Samkvæmt skýrslu IATA hefur mikill samdráttur átt sér stað bæði í farþegaflugi og ekki síst fraktflugi. En það var þó bjartsýnistónn í skýrslunni. „Það versta er líklega yfirstaðið,“ sagði Giovanni Bisignani, framkvæmdastjóri IATA og vitnaði í skýrsluna þar sem fram kemur að gert er ráð fyrir aukningu bæði í fraktflugi og farþegaflugi strax á næsta ári. Þannig gerir IATA ráð fyrir að flugumferð á næsta ári verði með svipuðu móti og árið 2007.

Viðmælendur Reuters fréttastofunnar segja þó að þetta kunni að breytast fari hryðjuverkaógnin að „taka sig upp á ný“ eins og það er orðað í fréttaskýringu Reuters. Sem fyrr segir kann það að draga verulega úr vilja manna til að ferðast með tilheyrandi tekjumissi flugfélaga.

Það gefur augaleið að hertar öryggisráðstafanir eru ekki að fara að hafa mikil áhrif á afkomu flugfélaga á fjórða ársfjórðungi þessa árs, enda er hann næstum því liðinn. En flestir greiningaraðilar gerðu ráð fyrir batnandi afkomu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs og það er það sem veldur mönnum áhyggjum, þ.e. að hagnaðurinn batni lítið sem ekkert.

Viðskiptamenn nenna ekki að eyða hálfum degi í öryggiseftirlit

Það sem helst má heyra á fjölmiðlum vestanhafs er ekki endilega að hryðjuverkaógnin sé búin að taka sig upp á ný, heldur hvað flugiðnaðurinn er viðkvæmur um þessar mundir og má við litlu. Flugfélög eru smátt og smátt að jafna sig eftir mikinn samdrátt vegna efnahagserfiðleika víðs vegar um heiminn og því megi lítið út af bera.

Í kjölfar fyrrnefndra efnahagserfiðleika hafa flugferðir viðskiptamanna dregist verulega saman. Nær öll flugfélög heims selja færri sæti á 1. farrými en fyrir tveimur árum og það hefur skaðað tekjur þeirra verulega. Auknar tafir á flugvöllum kunna að draga enn frekar úr þessum ferðum að sögn viðmælanda Reuters.

„Ef menn sem eru að fara í stuttar viðskiptaferðir, hugsanlega innan dags, þurfa að eyða um fjórum tímum í öryggiseftirlit þá er nokkuð ljóst að menn finna sér aðrar leiðir til að stunda viðskipti,“ segir Robert Mann hjá ráðgjafafyrirtækinu R.W. Mann & Company. Mann bætir því við að hert öryggiseftirlit kunni að hafa mjög slæm áhrif á viðskiptamenn og kostað flugfélögin stórfé, þar sem þeir greiði bæði hærra verð en meðal farþegi félaganna og ferðist oftar.

Farþegar gætu þurft að sitja kyrrir síðasta klukkutímann í flugi

Það eru ýmsar aðferðir notaðar til að herða öryggi í flug. Fyrir utan þær hefðbundnu, s.s. vopnaleitartæki, skönnun á farangri og áþreifanlegri leit mega farþegar jafnvel eiga von á því að sjá fleiri leitarhunda og vopnaða verði í flugstöðum beggja megin Atlantshafsins.

Í allflestum tilvikum er leitað á farþegum þegar þeir fara inn á fríhafnarsvæði flugstöðvar. Bandaríska heimavarnarráðuneytið íhugar nú að setja reglur um að leitað verði á farþegum aftur áður en þeir fara um borð í flugvélarnar. Á fríhafnarsvæðum geta farþegar orðið sér úti um ýmsan varning sem hægt er að nota við hryðjuverkaárásir í flugvélum, svo sem ýmis efni úr matvælum, kveikjara og eldspýtur og hnífapör svo dæmi sé tekið.

Þá má gera ráð fyrir svokölluð atferliseftirliti. Þá er að einhverju marki fylgst með hegðun flugfarþega í flugstöðvum sem kann að þykja grunsamleg.

Loks íhuga bandarísk yfirvöld að setja reglur um það að flugfarþegum sé óheimilt  að standa upp úr sætum sínum klukkutíma fyrir lendingu, auk þess sem þeir þurfa að sitja með borðin uppi og ekki verður heimilt að hafa neitt „í fanginu“ eins og það er orðað í fréttum vestanhafs. Allt eru þetta þó bara hugmyndir en af verður kunna að liggja ströng viðurlög við broti á slíkum reglum.

Í kjölfar sprengjutilræðisins sem minnst var á hér í upphafi hafa mörg flugfélög brugðið á það ráð að slökkva á afþreyingarkerfi sínu klukkutíma fyrir lendingu, en þau kerfi sýna gjarnan kort og aðrar upplýsingar um ferðir vélarinnar.

Þá má loks við þetta bæta að nokkuð hefur verið rætt um að hafa vopnaða verði, ýmist í búningi eða dulargervi, um borð í flugvélum sem fljúga til eða innan Bandaríkjanna. Það hefur þó þótt nokkuð umdeilt en þar vegur þyngst að um leið og það er komið skotvopna um borð í flugvél kann það að kalla á enn meiri hættu. Ef hryðjuverkamaður/menn ná að yfirbuga vopnaðar vörð eru þeir allt í einu komnir með skotvopn í hendur og þá þarf varla að spyrja að leikslokum.