Þær húsleitir sem nú standa yfir í höfuðstöðvum Exista, lögmannsstofunni Logos, endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte, Lýsingu og  víðsvegar um London og í Lincoln, eru vegna rannsóknar embættis sérstaks saksóknara á ólögmætri hlutafjáraukningu í Existu sem var framkvæmd í desember 2008, vegna tilfærslu á hlut Existu í Bakkavör yfir í félag í eigu Ágúst og Lýðs og vegna viðskipta Existu með hluti í JJB Sports. Auk þess er verð að rannsaka niðurfellingar á persónulegum ábyrgðum starfsmanna Existu á lánum sem þeim voru veitt til að kaupa hlutabréf í félaginu og yfirfærsla skuldar og hlutabréfa í félag í eigu annars af tveimur forstjórum Existu.

Um 30 manns tóku þátt í húsleitunum á Íslandi og fjórir í Bretlandi, en leitað var á átta stöðum á Íslandi og fjórum stöðum í Bretlandi.

Kaupþing kærði hlutafjáraukninguna og tilfærsluna á Bakkavararhlutnum til sérstaks saksóknara á síðasta ári, en bankinn á mikilla hagsmuna að gæta í bæði Bakkavör og Existu.

Húsleitir standa nú samtímis yfir víðvegar á Íslandi og í London á vegum embættis sérstaks saksóknara og Serious Fraud Office (SFO), efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar.

Ólögmæt hlutafjáraukning brot gegn hlutafélagalögum

Exista tilkynnti um hlutafjáraukningu í félaginu í desember 2008. Arion banki hafði þá leyst til sín eignarhlut bræðranna í félaginu og ætlaði að taka yfir stjórn þess í krafti 45 prósent eignarhlutar.

Bræðurnir brugðust við með að hækka hlutafé Exista um 50 milljarða, skrá félag í þeirra eigu, BBR ehf., fyrir því öllu og standa eftir með tæp 78 prósent eignarhlut í félaginu. Fyrir þess 50 milljarða hluti greiddu bræðurnir einn milljarð króna. Hlutur Arions banka þynntist þá niður í 10,44 prósent. Í kjölfarið gerði bræðurnir hluthöfum Existu yfirtökutilboð og stóðu eftir með rétt tæplega 90 prósent eignarhlut.

Í júní barst Fyrirtækjaskrá fyrirspurn um hvort að umrædd hlutafjáraukning hefði staðist lög. Við skoðun starfsmanna þar varð strax ljóst að handvömm hafði orðið hjá hjá Fyrirtækjaskrá þegar umrædd hlutafjáraukning var skráð, enda segir skýrt í lögum um hlutafélög að „greiðsla hlutar má ekki nema minna virði en nafnverði hans.“ BBR ehf., sem skráði sig fyrir hinu nýja hlutafé, greiddi hins vegar einungis einn milljarð króna fyrir 50 milljarða króna að nafnverði, sem þýðir að félagið greiddi einungis tvo aura fyrir hvern hlut.

Fyrirtækjaskrá úrskurðaði síðan um málið í lok júní í fyrra og sagði hlutafjáraukninguna ólögmæta. Í úrskurði Fyrirtækjaskrár, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, segir að hún telji að gengið hafi verið út fyrir ystu mörk í formi og framsetningu við að fá umrædda hlutafjárhækkun skráða. Er þá vísað til fullyrðinga í tilkynningu um að hlutafé hafi verið greitt að fullu og vísað til framlagðrar sérfræðiskýrslu endurskoðanda því til sönnunar. +

Í úrskurði Fyrirtækjaskrár segir að „ekki verði annað séð en hér sé gróflega brotið gegn þessu grundvallaratriði hlutafélagalaganna.“

Í gögnunum kemur fram að skýrsla sem vísað, hafi ekki verið samin í þeim tilgangi sem fullyrt er í tilkynningu. Lögmannsstofan Logos sendi umrædda tilkynningu og Deloitte samdi sérfræðiskýrsluna.

Í úrskurðinum segir einnig að formleg og efnisleg framsetning tilkynningar um hlutafjáraukninguna hafi „á allan hátt vikið verulega frá því sem lög og venjur standa til[...]Það ber einnig að undirstrika að umrædd tilkynning verst frá einni af stærri lögmannsstofum landsins og með fylgir skýrsla endurskoðanda stórrar endurskoðandaskrifstofu, sem hefur allt yfirbragð vandaðrar sérfræðiskýrslu. Hugsanlega stafar tiltrú starfsmanna fyrirtækjaskrár af þeirri ástæðu að fagaðilar á borð við þá sem hér eiga í hlut farið ætið að réttum reglum enda segir á heimasíðu Logos: „Í nútíma viðskiptaumhverfi eru það heiðarleiki, fagmennska og reynsla sem LOGOS hefur að leiðarljósi, sem geruir það bæði að leiðandi, sem og umsvifamestu lögmannstofu á Íslandi.““

Forsvarsmenn Arion banka kærðu í kjölfarið hlutafjáraukninguna til embættis sérstaks saksóknara.

Tilraunir til að halda Bakkavör

Þann 10. október 2008, fjórum dögum eftir neyðarlagasetningu, tilkynnti stjórn Existu að félagið hefði ákveðið að selja allan hlut sinn í Bakkavör til ELL 182 ehf, eignarhaldsfélags í eigu Ágústar og Lýðs Guðmundssona. Um var að ræða 39,6 prósent hlut í Bakkavör.

Bræðurnir létu Existu lána sér fyrir kaupunum með svokölluðu seljendaláni upp á 8,4 milljarða króna. Þeir lögðu ekkert eigið fé fram við kaupin.Tæpu ári eftir söluna, í september í fyrra, var síðan send inn tilkynning til Kauphallarinnar um að viðskiptum með alla hluti Exista í félaginu væri lokið.

Í stuttri orðsendingu Bakkavarar til lánveitenda Existu við þetta tilefni þá sögðust Ágúst og Lýður vera tilbúnir að skoða það að láta kaupin ganga til baka ef endurskipulagning Exista gengi eftir og þeir fengju að halda 30 prósent hlut í Exista og yfirráðum yfir félaginu. Með öðrum orðum þá voru þeir tilbúnir að skila Bakkavararhlutnum gegn því að fá að stjórn Existu áfram. Þetta sættu stjórnendur Arion banka sig ekki við og kærðu forsvarsmenn Exista til embættis sérstaks saksóknar vegna sölunnar á Bakkavararhlutnum.

Niðurfellingar á persónulegum ábyrgðum

Skömmu eftir bankahrun sendu forstjórar Existu, þeir Sigurður Valtýsson og Erlendur Hjaltason, starfsmönnum félagsins bréf. Í því kom frma að „lán til starfsmanna sem tóku þátt í starfsmannaútboði í september 2006 eru tryggð með veði í Exista-bréfunum. Starfsmenn vera því ekki persónulega ábyrgð á greiðslu lánsins. Hrökkvi virði Exista-bréfanna ekki fyrir eftirstöðvum þegar lánið fellur á gjalddaga í september 2009 verða engar frekari kröfur gerðar á hendur starfsmönnum og eftirstöðvar lánsins felldar niður.“

Samkvæmt endurskipulagningaráætlunum Existu verður hlutafé í félaginu einskis virði gangi nauðasamningar félagsins upp. Því fengu starfsmenn lán sín afskrifuð og hvorki starfsmenn né stjórnendur Existu þurfa að gangast í persónulega ábyrgð fyrir lánum sem þeir tóku til hlutabréfakaupa. Þetta hefur embætti sérstaks saksóknara nú tekið til rannsóknar.

Auk þess rannsakar embættið yfirfærslu á skuld og hlutabréfum yfir í félag annars af tveimur forstjórum Existu. Ekki kemur fram í tilkynningu frá embættinu hvort þar sé um Sigurð Valtýsson eða Erlend Hjaltason að ræða.

JJB rannsóknin

Serious Fraud Office (SFO) og Serious Organised Crime Agency (Soca) í Bretlandi hafa báðar verið með JJB íþróttaverslunarkeðjunnar bresku til rannsóknar frá því á síðasta ári. Meðal annars er verið að rannsaka hvort að peningar hafi verið þvegnir í gegnum fyrirtækið.

Aðaleigandi þess var Chris Ronnie sem var í miklum lánaviðskiptum við Kaupþing fyrir bankahrun. Ronnie var settur af sem stjórnandi JJB í mars 2009. Kaupþing Singer & Friedlander hafði þá framkvæmt veðkall í bréfum Ronnie´s í JJB og tekið þau yfir. Exista var einnig á meðal stærstu eigenda JJB þegar að Ronnie stýrði fyrirtækinu.