Lýðræðisflokkurinn hefur unnið stórsigur í þingkosningunum sem fóru fram í Japan í dag. Lýðræðisflokkurinn fær meirihluta á þingi en meirihlutinn hefur frá árinu 1955 verið í höndum Frjálslynda lýðræðisflokksins. Taro Aso, forsætisráðherra, hefur þegar lýst yfir ósigri flokks síns, að því er segir í frétt FT. Næsti forsætisráðherra verður Yukio Hatoyama, formaður Lýðræðisflokks Japans.

Í frétt Bloomberg um málið segir að Japan glími nú við að ná sér upp úr verstu kreppu landsins frá síðari heimsstyrjöldinni. Næsta ríkisstjórn verði að takast á við methæðir atvinnuleysis, ört hækkandi velferðarkostnað og aldur, auk fólksfækkunar.

Óvíst er hvaða áhrif þessi breyting mun hafa í Japan, sem er annað stærsta hagkerfi heimsins og afar þýðingarmikið fyrir heimsbúskapinn. WSJ fjallaði um málið í dag og þar sagði að þrátt fyrir yfirlýsingar Lýðræðisflokksins um að takast á við sóun, erfiðleika lífeyrissjóðakerfisins og fólksfækkun, þá vanti upp á útfærslur og raunsæi.

Stefnubreyting gæti styrkt jenið

Í grein WSJ er efast um að hægt verði að ná árangri með því að auka kaupmátt ráðstöfunartekna með því m.a. að bjóða auknar barnabætur og niðurfellingu vegatolla, sem séu meðal helstu baráttumála flokksins. Auk þessa segir Bloomberg að Lýðræðisflokkurinn hafi lofað að lækka skatta á fyrirtæki og draga úr áhrifum embættismanna, til að koma hagkerfinu af stað eftir nær 20 ára stöðnun. Þá vilji hann auka sjálfstæði seðlabankans, sem kunni að styrkja jenið þar sem bankinn muni hækka vexti fyrr en ella.

Hættan er hins vegar sú, segir WSJ, vegna mikilla skulda ríkisins, að heimilin auki ekki neyslu sína. Niðurstaða umfjöllunar WSJ er að þetta sé stór stund fyrir lýðræðið í Japan, en ekki fyrir efnahagslífið.

Ávöxtunarkröfu og hlutabréfum spáð hækkun

Reuters segir að fjármálamarkaðir hafi viljað losna undan pattstöðunni í þinginu, þar sem Lýðræðisflokkurinn hefur ásamt öðrum stjórnað efri deildinni og getað þannig tafið frumvörp Frjálslynda lýðræðisflokksins. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa geti þó aukist ef ný stjórn auki útgjöld. WSJ segir að Lýðræðisflokkurinn hafi lofað að hækka hvorki söluskatt í fjögur ár, né að auka skuldabréfaútgáfu á næsta ári, en aukin skuldabréfaútgáfa hækkar ávöxtunarkröfu að öðru jöfnu. Hærri ávöxtunarkrafa felur í sér lægra gengi bréfanna.

Bloomberg hefur eftir yfirmanni í verðbréfafyriræki í Japan að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa muni líklega hækka um 1,7 til ársloka og að Nikkei 225 hlutabréfavísitalan muni hækka um á að giska 14% upp í allt að 12.000 stig. Sá telur að hlutabréfamarkaðurinn muni taka þessum kosningasigri vel og að þar verði jákvætt viðhorf næstu daga eða vikur.