Tæplega 49.000 einstaklingar hafa nú þegar sótt um að fá greitt úr séreignarsparnaði sínum en með lagabreytingu í upphafi síðasta árs var landsmönnum gert heimilt að leysa út allt að 1 milljón króna.

Greiðslurnar eru greiddar út á allt að 23 mánaða tímabili. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Ríkisskattstjóra verða greiddir út rúmlega 41,2 milljarðar króna í kjölfar þessa. Einstaklingum er heimilt að taka út allt að 2,5 milljón krónur, eða 111.111 kr. á mánuði.

Það sem af er þessu ári hafa verið greiddir út rúmlega 13,2 milljarðar króna en áætlað er að heildargreiðslur fyrir þetta ár verði rúmir 15,9 milljarðar króna. Í fyrra voru þegar greiddir út um 22 milljarðar króna.

Til gaman má geta að það sem af er þessu ári hefur tæpur 1,5 milljarður verið greiddur út að meðaltali á mánuði. Greiðslurnar á þeim mánuðum sem eftir eru á árinu eru nokkuð minni og í desember er áætlað að rétt rúmar 800 milljónir verði greiddar út.

Frá því í mars 2009, þegar fyrst var heimilt að taka út af séreignasparnaði, hafa verið greiddir út rúmlega 35,2 milljarðar króna. Greiðslurnar á næsta ári, og reyndar fram á mitt ár 2012, eru nokkuð minni og því má gera ráð fyrir að flestir hafi þegar nýtt sér þetta úrræði sem á annað borð höfðu kost á því. Samkvæmt áætlun Ríkisskattstjóra verða rúmar 260 milljónir króna greiddar út að meðaltali á mánuði á næsta ári, mest í upphafi árs en fer minnkandi þegar líða fer á árið.

Skatturinn tekur sitt

Ekki liggur ljóst fyrir hverjar skatttekjur ríkisins af þessum greiðslum hafa verið. Í lok síðasta árs fjallað Viðskiptablaðið um sömu greiðslur, sem þá voru eins og gefur að skilja nokkuð minni, en samkvæmt útreikningum blaðsins námu skatttekjur hins opinbera um 8 milljörðum króna á síðasta ári vegna þessa. Þar af fékk ríkið um 5,3 milljarða króna en sveitafélög um 2,9 milljarða króna í útsvar.

Síðan þá hafa skattar hins vegar hækkað og búið er að taka upp þrepaskipt skattkerfi.* Þannig er greiddur um 40% skattur af öllum tekjum yfir 200 þúsund krónum á mánuði. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru allflestir, sem á annað borð nýta sér þann möguleika á að fá greitt úr séreignasparnaði, að fá hann greiddan ofan á aðrar tekjur og því falla greiðslurnar í efra skattþrep.

Af þeim tæplega 16 milljörðum króna sem greiddir verða út á þessu ári má ætla að tæplega 6,4 milljarðar fari í skatta. Þar af fara um 2 milljarðar króna í útsvar til sveitafélaga. Erfitt er að festa hendur á þessar tölur vegna þrepaskiptingu skattkerfisins og þetta því lagt fram með þeim fyrirvara.

*Hægt er að halda því fram með rökum að skattkerfið hafi, vegna fastrar tölu persónuafsláttar, verið þrepaskipt út í hið óendanlega áður en núverandi skattkerfi var tekið upp.

Leiðrétting : Í upprunalegri útgáfu á þessari frétt var sagt að greiðslurnar úr séreignasparnaðinu skiptist niður á 9 mánuði. Það er ekki rétt þar sem lögunum var breytt um síðustu áramót og hámarksgreiðslur hækkaðar úr 1 milljón króna í 2,5 milljónir króna. Þannig geta einstaklingar fengið greitt í allt að 23 mánuði.