Aukin jákvæðni, eða kannski öllu heldur jákvæðari tónn, er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar Peningamál þau eru út komu í síðustu viku eru borin saman við Peningamál fyrsta fjórðungs síðasta árs. Í raun þarf ekki að lesa lengra en bara yfirlýsingu peningastefnunefndar, sem birtist á síðu þrjú, til þess að sjá að mikið vatn virðist hafa runnið til sjávar í efnahagsmálum Íslands á þessu liðlega ári sem liðið hefur á milli útgáfanna, Peningamál 1/2010 komu út 27. janúar í fyrra en Peningamál 1/2011 2. febrúar sl.

Vaxtalækkun er tæki sem venjulega er notað til þess að örva hagkerfið á meðan vaxtahækkanir eru yfirleitt notaðar til aðhalds eða til þess að kæla hagkerfið, eða vinna gegn verðbólgu sem oftar en ekki er afleiðing of mikillar eftirspurnar í hagkerfinu og því til marks um ofhitnun þótt vissulega – eins og við Íslendingar vitum af biturri reynslu – geti verðbólga verið til marks um utanaðkomandi áföll í hagkerfinu. Af framansögðu, um notkun vaxtabreytingatækisins, má draga þá ályktun að séu vextir lækkaðir þurfi hagkerfið á örvun að halda. Að sama skapi má þá gera ráð fyrir að umfang vaxtalækkunarinnar sé til marks um hversu mikil þörfin á örvun er.

Séu yfirlýsingar peningastefnunefndar bornar saman á milli ára þá sést berlega að töluverð batamerki eru á hagkerfinu. Í fyrsta lagi voru vextir lækkaðir um 0,5 prósentustig í janúar í fyrra en aðeins um 0,25 prósentustig nú í síðustu viku. Sömuleiðis segir peningastefnunefnd í yfirlýsingu sinni að forsendur séu að öllu óbreyttu fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds, þ.e. lækkun vaxta. Svo langt er hún fráleitt tilbúin að ganga í yfirlýsingu sinni frá 2. febrúar sl. Þar segir: „Þar sem horfur eru á að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmiðið og í ljósi þess að vextir eru í sögulegu lágmarki ríkir aukin óvissa um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða.“

Eins og færð voru rök fyrir í Viðskiptablaðinu fyrir viku er peningastefnunefnd þarna sumpart að búa í haginn fyrir viðbrögð við frekari veikingu krónunnar og jafnvel einhverri verðbólguhækkun en víst er að hún er líka að undirbúa jarðveginn fyrir mögulega stýrivaxtahækkun þegar fram líða stundir, þó ekki verði það endilega við næstu stýrivaxtaákvörðun eða jafnvel þarnæstu eða næstu á eftir því. Gleymum ekki að í hagspá Seðlabankans sem uppfærð var í síðustu viku kemur fram að veikur efnahagsbati sé hafinn, en víkjum að því síðar. Hafa ber í huga að eitt ár er langur tími í efnahagsmálum og eins og fram kemur í tilvitnun hér að framan er verðbólga nú komin niður fyrir markmið Seðlabankans, þótt vissulega megi gera ráð fyrir að hún hækki í febrúar, en í janúar 2010 var hún 6,6%.

Fjárfesting og vinnumarkaður

Víkjum nú aðeins að efnahagsspá Seðlabankans. Eins og áður segir bendir spáin, sem uppfærð var nú í byrjun febrúar, til þess að efnahagsbati sé hafinn. Sú var alls ekki raunin í janúar í fyrra. Í samantekt spárinnar sem þá var uppfærð segir m.a.: „Í meginatriðum eru efnahagshorfur svipaðar og í nóvember. Samdrátturinn á síðasta ári var minni en áður var talið en á móti verður hann meiri á þessu ári. [...] Óvissa um efnahagshorfur hefur jafnframt aukist vegna meiri óvissu um framgang efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Peningamál samanburður janúar 2010 og 2011
Peningamál samanburður janúar 2010 og 2011
© None (None)

Gott dæmi um hinn jákvæðari tón hagspárinnar nú varðar fjárfestingu. Í fyrra var gert ráð fyrir að fjármunamyndun drægist saman um tæp 6%, raunin varð 4,5% skv. nýju spánni, en á þessu ári er gert ráð fyrir tæplega 10% vexti fjármunamyndunar í hagkerfinu sem stafar að mestu leyti af kröftugri atvinnuvegafjárfestingu en í upphafi síðasta árs ríkti mikil óvissa um slíka fjárfestingu. Þá var m.a. vitnað í könnun Capacent Gallup á viðhorfum stjórnenda. Sú könnun gaf „... til kynna meiri svartsýni en þær kannanir sem lágu fyrir við gerð síðustu spár. Fyrirtækin búast við því að draga muni enn frekar úr eftirspurn og eru einnig svartsýnni á horfur um framlegð en í haust.“ Þá var gert ráð fyrir að hagkerfið myndi dragast saman um 3,5% á síðasta ári, nú spáir Seðlabankinn því að samdrátturinn hafi verið 2,7% á síðasta ári en spáir 2,8% hagvexti á þessu ári og 3,2% hagvexti, spá bankans í fyrra um hagvöxt yfirstandandi árs var 2,6% og fyrir árið 2012 var hún 2,8%.

Hér eru ótaldar stærðir eins og atvinnuleysi, en horfur á vinnumarkaði virðast mun bjartari nú en fyrir ári, auk verðbólguspár og fleiri þátta (sjá meðfylgjandi töflu), en allt ber að sama brunni. Efnahagsbatinn virðist hafinn, þótt brothættur sé, og hagspá Seðlabankans er mun jákvæðari nú en í fyrra.

Gjaldeyrishöft í ólíku ljósi

Áberandi munur er á yfirlýsingu peningastefnunefndar þegar kemur að gjaldeyrishöftum. Í Peningamálum 1/2010 segir: „Að því gefnu að gjaldeyrishöftin haldi, ættu skammtímaáhrif á krónuna að vera lítil. Hins vegar væri áhættusamt að taka fleiri skref til afnáms gjaldeyrishaftanna á meðan þessi óvissa [Icesave] varir.“ Í Peningamálum 1/2011 er hins vegar rætt um afnám gjaldeyrishafta á þeim nótunum að breytingar á höftunum standi fyrir dyrum: „Áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapa einnig óvissu til skemmri tíma [um vaxtabreytingar].“