Ný ríkisstjórn Þýskalands leggur nú drög að stórtækum aðgerðum til að efla atvinnu- og viðskiptalífið þar í landi.

Þannig stendur til að hin „miðju-hægri“ sinnaða ríkisstjórn, eins og Financial Times (FT) kallar hana, lækki verulega skatta á fyrirtæki í þeirri ásamt því að minnka regluverk þeirra til muna.

Eitt af kosningaloforðum Angelu Merkel, leiðtoga kristilegra demókrata og kanslara Þýskalands, var einmitt að lækka skatta á fyrirtæki í þeirri von að annars vegar styrkja fyrirtækin sjálf en þá sagðist Merkel halda í þá von að lægri skattar myndu auka umsvif þeirra og færa þannig hærri skatttekjur inn í ríkissjóð.

Svo virðist sem frjálslyndir demókratar, sem er hinn flokkurinn í ríkisstjórninni, séu samþykkir þessu en FT hefur eftir fulltrúum beggja flokka að fyrirtæki megi eiga vona á verulegum skattalækkunum á næstunni. Þá segja fulltrúar flokkanna að frekar eigi að leggja áherslu á að efla einkageirann, það sé fljótasta leiðin út úr kreppunni, en að efla hið opinbera.

Önnur ríki myndu frekar kjósa að Þjóðverjar reyni að auka innlenda eftirspurn

Þýska hagkerfið þrífst að mestu leyti á miklum útflutningi, þ.e. Þjóðverjar flytja út gífurlega mikið af vörum og kaupa lítið af umheiminum. Í umfjöllun FT kemur fram að ákvörðun ríkisstjórnar Merkel verði vonbrigði fyrir hagfræðinga og stjórnmálamenn, þá helst í Bandaríkjunum en einnig í öðrum ríkjum sem höfðu frekar vonast til þess að Merkel myndi reyna treyst hagvöxt með því að örva eftirspurn innanlands frekar, en framlag hennar til vaxtar hefur verið alla tíð verið lítið samanborið við framlag útflutnings. Eðli málsins samkvæmt myndi hagvöxtur í krafti eftirspurnaraukningar í þýska hagkerfinu hafa verulega jákvæð áhrif á helstu viðskiptalönd sökum stærðar þýska hagkerfisins.

Þá kemur einnig fram í umfjöllun FT að með þessum tillögum, sem að öllum líkindum verða kynntar á næstu vikum, sé ríkisstjórnin að gefa bæði verkalýðsfélögum og vinstri flokkunum í Þýskalandi vopn í hendur sem án efa munu gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að taka hagsmuni fyrirtækja fram yfir hagsmuni almennings. FT hefur hins vegar eftir hátt settum fulltrúa kristilegra demókrata að Merkel og ráðgjafar hennar séu staðráðnir í að styðja þétt við bakið á fyrirtækjum í landinu, það muni koma öllum til góða. Þá verði ekkert gert sem geti orðið til þess að útflutningur minnkaði.

Almenningur kaupi sjálfur sjúkratryggingar

Eitt af því sem lagt verður til er að kostnaður almennings við heilbrigðistryggingar aukist en hingað til hefur kostnaðurinn skipst nokkuð jafnt milli launþega og atvinnurekenda. FT greinir frá því að það sé trú beggja flokka að kostnaðurinn íþyngi fyrirtækjunum um of, þ.e. að greiða gjöld önnur en laun s.s. sjúkratryggingar.

Ekki liggur fyrir hversu mikið tekjuskattur fyrirtækja mun lækka. Þó er talið að skattar muni lækka um 15 – 35 milljarða evra á fjögurra ára tímabili.