Seðlabanki Íslands hefur stofnað Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. samkvæmt frétt Morgunblaðsins í morgun þar sem meðal annars eru veð sem bankinn heldur á í FIH. Seðlabankinn tók veð í danska bankanum sem tryggingu fyrir 500 milljóna evra láni sem Kaupþingi var veitt 6. október 2008.

Viðskiptablaðið hefur greint frá því að samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Kaupþings er FIH eign nefndarinnar. Lánið til Kaupþings ber því vexti en Seðlabankinn mun ekki hagnast með því að bíða eftir að verðmæti FIH aukist þangað til bankinn verður seldur. Allur sá ávinningur mun renna til Kaupþings.

Forsendur fyrir lánveitingunni breyttust eftir að Kaupþing féll haustið 2008. Í frétt Morgunblaðsins segir að Seðlabankinn hefði leyst til sín veðin í FIH í kjölfar bankahrunsins. Jafnframt kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum verða eignir inni í Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. seldar eftir því sem markaðsaðstæður leyfa.

Ekki hefur fengist svar við þeirri spurningu af hverju Seðlabankinn krefjist þess ekki að skilanefnd Kaupþings endurgreiði þessar 500 milljónir evra eins fljótt og auðið er. Seðlabankinn hagnast ekkert á því, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins sem Seðlabankinn hefur ekki gert athugasemdir við, að bíða eftir því að markaðsaðstæður batni enn frekar.

Í Morgunblaðinu 10. nóvember kom fram að bókfært eigið fé FIH væri nú helmingi hærra en upphaflegt veð Seðlabankans fyrir láninu til Kaupþings, og að Seðlabankinn áformi að selja hlutabréf sín í bankanum árið 2012 og að andvirðið renni í gjaldeyrisvarasjóð bankans. Ef það gerðist hefði skilanefnd Kaupþings hins vegar alltaf tækifæri til þess að greiða upp lánið við Seðlabankann og myndi líkast til gera það ef að virði bréfanna í FIH væri talið mun meira en lánsupphæðin, enda hlutverk nefndarinnar að hámarka virði þeirra eigna sem hún hefur umsjón með.

Í ljósi þess hlýtur það að vera í skoðun innan Seðlabankans, sem nú leitar allra leiða til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð bankans með erlendri lántöku, að fá þessar 500 milljónir evra greiddar auk vaxta til að það gangi eftir.