Umbrotin í arabaheiminum hafa í senn vakið ánægju og ugg á Vesturlöndum. Fæstum er eftirsjá í einræðisherrunum og hver vill letja til lýðræðis?

Á hinn bóginn er full ástæða til þess að hafa ríkar áhyggjur af áhrifunum á orkubúskap heimsins, eins og örar hækkanir á olíuverði bera vitni um. Hefur olíuframleiðsla heimsins þó lítið truflast við ólguna enn. Falli fleiri ríkisstjórnir í arabaheiminum, sem er alls ekki ólíklegt, mun verðið ná nýjum hæðum.

Uppreisn jafnt í örbirgð og allsnægtum

olíuframleiðsla heimsins 2009
olíuframleiðsla heimsins 2009
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.


Þegar ólgan gerði fyrst vart við sig litu margir svo á að hin fátækari ríki þessa heimshluta væru ljóslega veik fyrir, en að það ætti ekki við um hin olíuauðugari ríki, þar sem valdhafarnir hefðu keypt sér frið frá þegnunum eða hefðu þá undir gullslegnum járnhæl. Það reyndist rangt, hin auðugu olíuríki við Persaflóa eru líka útsett fyrir ólgunni, sem snýst fyrst og fremst um aukið frelsi og vísi að lýðræði, blandið hneykslan á spillingu og óhófi forréttindastéttarinnar.

Olíuverðhækkanir ógna efnahagsbata á heimsvísu

Nú þegar hefur hráolíuverðið skotist upp í $120 tunnan, þó það hafi sjatnað eilítið aftur. Það er ekki langa leið frá því raunverði sem menn fengu að kynnast í olíukreppunni á 8. áratugnum, þó verðhækkunin hafi hlutfallslega ekki verið jafnharkaleg og þá. Nú hefur heimsbyggðin ekki enn jafnað sig eftir hina alþjóðlegu fjármálakreppu (enda áhrif hennar enn ekki fyllilega fram komin), peningamarkaðir eru óstöðugir og verðbólga tekin að láta á sér kræla meðan hagvöxtur lætur víðast á sér standa.

Afar ósennilegt er að olíuverð lækki svo nokkru nemi í bráð — margir tala um varanlega verðhækkun — og mikil hætta á verulegum hækkunum til viðbótar. Það mun óhjákvæmilega draga verulega úr annarri neyslu og þeir sem eitthvað kunna fyrir sér í hagsögu muna að upphaf 5 síðustu niðursveiflna í hagkerfi heimsins markaðist af verulegum olíuverðshækkunum, þó orsakasamhengið sé eilítið á reiki.

Víðast hvar — vestan hafs sem austan og á litla Íslandi — eru áætlanir stjórnvalda um batnandi hag mjög háðar spám um aukna einkaneyslu. Slíkt er borin von ef olíuframleiðslan truflast og verð hækkar verulega.

Skrilljóndollara spurningin um Sádí-Arabíu

Stjórnvöld í Sádí-Arabíu hafa sagt að þau muni auka olíuframleiðslu sína til þess að vega upp á móti hvers konar truflunum á olíuframleiðslu og -útflutningi annarra ríkja. Ekki eru allir á einu máli um hvort þeir ráði yfir slíkri umframgetu til langframa, en í bili virðist sem hún sé til staðar og það hefur temprað frekari verðhækkanir. Í bili.

Stóra spurningin er hins vegar hvort konungveldið standi. Það nýtur ekki sérstakra vinsælda þegnanna, bókstafstrúarmenn hafa horn í síðu þess og vert er að hafa í huga að helstu olíulindir landsins í norðaustri eru á landsvæði þar sem shítar eru í miklum meirihluta, en þeir telja sig eiga ýmissa harma að hefna sem minnihlutahópur í landinu.

Falli hús Sádí-ættarinnar í Arabíu mun olíuverð rjúka upp í óþekktar hæðir og ekki þokast niður í bráð. Hið sama á raunar við um Íran.

Konungveldið þar er ekki jafnstöðugt og margir halda og enginn veit hvort það gæti staðist uppreisn. Til þessa hafa flestir veðjað á að Bandaríkjamenn muni skakka leikinn ef í óefni stefnir, en á það við lengur? Það veit enginn og ekki Obama heldur.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. fimmtudag.