Krónan hefur veikst um 6,4% frá áramótum eftir miklar sveiflur. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd tók hún að styrkjast í lok janúar en veiktist svo skyndilega um miðjan mars. Þegar hún var sterkust hafði hún styrkst um tæp 17% frá áramótum þann 12. mars sl., en veikust var krónan 10. þessa mánaðar og hafði þá veikst um rúm 7% frá áramótum.

Ef horft er lengra aftur, til ársbyrjunar 2008, hefur krónan veikst um 47%, eða tæplega helming. Þetta felur í sér að í dag fást um það bil helmingi færri evrur eða dalir, svo dæmi séu tekin, fyrir krónurnar en fyrir hálfu öðru ári.

Veiking fyrir vaxtaákvörðun

Á fimmtudag, 2. júlí, verður tekin ákvörðun um stýrivexti Seðlabankans. Síðasta vaxtaákvörðun var tekin 4. júní, lækkun um 1 prósentu í 12%. Frá þeim tíma hefur krónan veikst um 3%, sem dregur úr líkum á verulegri lækkun vaxta. Flestir sem fjallað hafa um næstu vaxtaákvörðun telja nú að lækkun nk. fimmtudag verði lítil eða engin.

Greining Íslandsbanka spáir háum vöxtum vel fram á næsta ár

Veiking krónunnar á sér stað þrátt fyrir gjaldeyrishöft, háa stýrivexti og afgang af vöruskiptum við útlönd. Í Morgunkorni Íslandsbanka í gær kom fram að greining Íslandsbanka telur að vextir Seðlabankans verði háir vel fram á næsta ár og lítið lækkaðir frá því sem nú er. Ekki sé hægt að útiloka vaxtahækkun í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta sem fyrirhugað sé síðar á þessu ári. Í Morgunkorni segir að búast megi við að stöðugt muni fjara undan krónunni á næstunni og að gjaldeyrishöftin haldi verr eftir því sem þau eldist. „Háir innlendir vextir og áframhaldandi lækkun krónunnar virðist því blasa við,“ segir í Morgunkorni.

Krónan enn veikari erlendis

Mikill munur er á gengi krónu innanlands og erlendis, en tölurnar hér að ofan miðast við gengi Seðlabankans, það sem kallað er þröng viðskiptavog. Gengi evru innanlands og utan hefur heldur nálgast allra síðustu daga, en sl. mánuð þar á undan hafði bilið á milli gengisins hér og erlendis farið minnkandi, að því er segir í Hagsjá hagdeildar Landsbankans á fimmtudag.

Þar segir að aflandsgengi evru hafi frá því í byrjun mars sveiflast frá 205 krónum í 300 krónur en standi nú í 220 krónum. Aflandsgengið sé því 42 krónum hærra en gengi Seðlabankans. Munurinn var enn meiri í mars, en fyrir hrun bankanna munaði mestu um 4 krónum á gengi evru utanlands og innan.

Seðlabankinn óttast að höftin leki

Veikara gengi krónunnar erlendis en hér á landi veldur þrýstingi á gengið hér á landi og álagi á gjaldeyrishöftin. Um leið er ólíkt gengi hér og erlendis ein helsta ástæða þess að talin er þörf á gjaldeyrishöftum. Eins og fram hefur komið, m.a. í umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, hefur Seðlabankinn boðað til sín nokkra af helstu útflytjendum landsins til að ræða framkvæmd haftanna. Bankinn óttast a höftin leki á þann hátt að evrum sé skipt í krónur erlendis í stað þess að það sé gert hér heima, enda fást þannig mun fleiri krónur fyrir evruna.