Stjórnendur Landsvirkjunar eru að klára skuldabréfaútboð að fjárhæð180 milljónir evra með milligöngu Deutsche Bank samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Það jafngildir um 28 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar í dag.

Fulltrúar þýska bankans hafa verið hér á landi um helgina að ganga frá lausum endum. Búist er við að kjörin séu verri en Landsvirkjun hefur þurft að horfast í augu við í langan tíma eða 5,5% álag ofan á LIBOR vexti, sem eru millibankavextir í London. Lánstíminn er um fimm ár. Í langan tíma hefur álag á lán til Landsvirkjunar verið lítið eitt fyrir ofan LIBOR-vextina, 50 punktar eða svo (0,5%). Þetta eru því allt önnur kjör en hafa áður boðist. Horfa verður á það í alþjóðlegu samhengi og erfitt ástand á lánsfjármörkuðum og laskað traust á íslenskum fyrirtækjum.

Búist er við að Deutsche Bank kaupi sjálfur helming útgáfunnar og selji áfram til fjárfesta. Búið er að finna kaupendur að stærstum hluta bréfanna sem standa út af.

EIB lokaði á lán Landsvirkjunar

Viðskiptablaðið sagði frá því  19. ágúst síðastliðinn að Fjárfestingabanki Evrópu (EIB) lokaði á lán til Landsvirkjunar í júlí sl., sem átti að veita til framkvæmda við Búðarhálsvirkjun vegna þess að ekki hefur enn fengist botn í Icesavedeilu Íslands, Hollendinga og Breta. Upplýsingum þess efnis var komið til íslenskra stjórnvalda og Landsvirkjunar, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Lánakjörin í þeim samningi sem var til umræðu hjá stjórn EIB voru ásættanleg. Þau fengust þó ekki uppgefin nákvæmlega. Lánin áttu að standa undir töluverðum hluta framkvæmdarinnar við Búðarhálsvirkjun en þó ekki allrar. Með því skuldabréfaútboði sem nú er unnið að þykir ljóst að fjármögnun Landsvirkjunar er komin í betra horf en á horfðist fyrr í sumar til að mæta endurfjármögnun og fyrirhuguðum framkvæmdum á vegum fyrirtækisins.

Sterk lausafjárstaða

Þrátt fyrir erfitt ytra umhverfi í rekstri Landsvirkjunar stendur fyrirtækið vel. Ekkert íslenskt fyrirtæki hefur nándar nærri eins mikið eigið fé. Í árslok í fyrra nam það 1,56 milljörðum dollara eða sem nemur 185 milljörðum króna. Lausafé, þ.e. handbært fé og aðgangur að veltilánum, var einnig gríðarlega mikið á flesta mælikvarða í lok árs 2009. Það var um 475 milljónir dollara eða um 56 milljarðar króna. Í þessu árferði, þ.e. þegar aðgangur að lánamörkuðum erlendis er lítill sem enginn skiptir miklu máli vera með mikið laust fé til að mæta smærri skuldbindingum. Sterk lausafjárstaða hjálpar fyrirtækinu að standa við skuldbindingar fram til loka árs 2012