Þýski risabankinn Deutsche Bank er milligönguaðili í skuldabréfaútgáfunni og kaupendur eru mest erlendir fagfjárfestar. Eitthvað er þó um að bankar kaupi bréfin sjálfir og selji þau svo áfram, samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Gunnarssyni, deildarstjóra fjármáladeildar Landsvirkjunar.

Á þessu ári hefur Landsvirkjun ekki dregið á fjölmynta veltilán sem fyrirtækið hefur aðgang að en fékk það um 26 milljónir dollara með þeim hætti í fyrra. Skuldabréfaútgáfan tryggir að Landsvirkjun hefur nú aðgang að um 500 milljónum Bandaríkjadollara, eða sem nemur um 58 milljörðum króna, til að mæta skuldbindingum næstu ára. Það dugar langt fram eftir ári 2012 ef marka má upplýsingar sem fram koma í ársskýrslu Landsvirkjunar fyrir árið 2009.

Það er þó að teknu tilliti til þess að ekki verði farið út í nýframkvæmdir sem fjármagna þarf sérstaklega. Eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu er stjórn Evrópska fjárfestingarbankans (EIB) ekki enn búin að samþykkja lánveitingu til Landsvirkjunar sem ætlað er að fjármagna gerð Búðarhálsvirkjunar. Hefur þeim skilaboðum verið komið til íslenskra stjórnvalda að ástæðan sé sú að samkomulag um Icesave liggi ekki fyrir.

Ávinna þarf traust

Sú staðreynd að Deutsche Bank skuli vera milligönguaðili með fyrrnefndri skuldabréfaútgáfu er um margt merkileg. Enginn af alþjóðlegu stórbönkunum sem lánuðu íslensku bönkunum fyrir hrun þeirra er talinn hafa tapað meiru á lánveitingum hingað til lands en Deutsche Bank.

Þá eru ekki öll kurl komin til grafar enn hvað varðar hagsmuni bankans hér á landi. Ekki aðeins vegna þess að ekki liggur fyrir hversu miklar endurheimtur verða úr þrotabúum gömlu bankanna heldur einnig þar sem bankinn hefur mikla hagsmuni undir hjá fyrirtækjum eins og Lýsingu og Actavis.

Þórhallur Ásbjörnsson, hagfræðingur hjá Arion banka, segir að þótt kjörin sem bjóðist nú á lánum séu ekki góð þá skipti máli að „brjóta ísinn“, þ.e. að fara út á markaðinn og sjá hvað er í boði fyrir fyrirtæki með traustan efnahagsreikning.

„Í upphafi geta kjörin verið slæm. En einhvers staðar verða menn að byrja. Traustið kemur svo smám saman og byggist upp. Að því leytinu til er þess útgáfa mikilvæg.“

Áfram erfitt ytra umhverfi

Landsvirkjun glímir þó enn við erfitt ytra umhverfi, þó að skuldabréfaútgáfan á dögunum sé merki um að glufur séu að opnast inn á lánamarkaði. Erfitt er að segja til um hversu langan tíma það mun taka fyrir Landsvirkjun að skapa sér nægilega mikið traust til að fyrirtækið geti náð sér í fé á góðum kjörum.

Vextir á alþjóðamörkuðum eru í lægstu lægðum nú, víðast hvar á bilinu 0 til 1%. Sama hvaða myntir er um að ræða. Skuldir Landsvirkjunar eru þó að stærstum hluta í dollurum og evrum. Álög eru hins vegar há, ekki síst vegna erfiðrar fjárhagstöðu ríkja og fyrirtækja. Traust á mörkuðum er því ekki orðið almennt eða mikið enn, eftir að millibankamarkaðir féllu nær alveg saman á haustmánuðum 2008.

Þá hefur verð á áli, sem orkuverð Landsvirkjunar til álveranna tekur mið af, sveiflast mikið á síðustu tveimur árum þrátt fyrir að framboð á mörkuðum sé enn mikið og hafi í raun staðið í stað samkvæmt upplýsingum frá London Metal Exchange. Staðgreiðsluverð á áli er nú rúmlega 2.000 dollarar á tonnið en um 4,3 milljónir tonna af áli eru óseld á markaði, eða sem nemur um fimmfaldri ársframleiðslu hér á landi.

Helst er það mikil eftirspurn í Kína, Indlandi, Þýskalandi og fleiri löndum þar sem ágætlega hefur gengið að koma hjólum efnahagslífsins af stað, sem heldur álmörkuðum á lífi. Verðið á áli fór lægst í 1.200 dollara á tonnið á vormánuðum 2009, samhliða nær algjöru hruni í fjárfestingum á hlutabréfa- og hrávörumörkuðum  eftir hrunið 2008.