Líkur þess að kröfuhafar Arion banka kjósi að eignast 87 prósent hlut í bankanum hafa minnkað undanfarnar vikur, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Það sem helst situr í kröfuhöfunum er hin hatramma umræða sem geisað hefur um framtíð Haga og meðferð Arions banka á lánum til eigenda Haga, 1998 ehf. Hvorki skilanefnd Kaupþings, sem mun halda á eignarhlut kröfuhafanna, né þeir erlendu kröfuhafar sem fylgjast grannt með málum á Íslandi eru áfjáðir um að verða þátttakendur í þeim leðjuslag sem stendur yfir um framtíð Haga. Þeir sjá líka fyrir sér að sambærilegar deilur gætu risið upp þegar bankinn mun reyna að endurskipuleggja lán fleiri stórra viðskiptavina sinna. Þó eru enn taldar meiri líkur en minni á að kröfuhafarnir kjósi að eignast meirihluta í bankanum.

Ákvörðun um framtíðareignarhald liggur fyrir á mánudag

Tilkynnt verður um hvort að kröfuhafar gamla Kaupþings, sem að langstærstu leyti eru erlendir skuldabréfaeigendur, muni eignast 87 prósent hlut í Arion banka á mánudag. Til stendur að skilanefnd Kaupþings fundi með þeim í London um helgina. Að loknum þeim fundum mun lokaniðurstaða liggja fyrir. Ákvörðunin átti upphaflega að liggja fyrir í lok október en var frestað um mánuð til að skilanefndin gæti fengið frekari upplýsingar um stöðu Arion banka. Þær upplýsingar sem óskað var eftir voru annars vegar uppgjör bankans frá 22. október 2008 og fram að síðustu áramótum, og hins vegar níu mánaða uppgjör Arion banka fyrir árið 2009. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins kom ekkert fram í þessum uppgjörum sem ætti að hræða kröfuhafanna frá því að taka yfir meirihluta Arion banka. Sömu heimildir segja að sú skoðun hafi verið ríkjandi í lok október að ef uppgjör Arion banka væru í lagi þá myndu kröfuhafarnir taka bankann. Deilurnar um framtíð Haga hafi síðan hafist og dregið úr þeim vilja.

Ákvörðuninni var frestað fram yfir ákvörðun um framtíðareignarhald

Arion banki hefur þegar móttekið tilboð frá Jóhannesi Jónssyni, erlendum fjárfestum og stjórnendum Haga, þeim Finni Árnasyni og Guðmundi Marteinssyni, um endurskipulagningu á 1998 ehf. Engum dylst þó að Jón Ásgeir Jóhannesson, sonur Jóhannesar, er einnig beinn þátttakandi í tilboðinu þótt að faðir hans sé skrifaður fyrir því. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að töluverð átök hafi verið í stjórn Arion banka vegna Hagamálsins og umfjöllunar fjölmiðla um það. Þau átök hafi leitt til þess að málið hafi lent inn á borði Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem hafi mælst til þess að stjórnin myndi ekki funda þar til að ákvörðun lægi fyrir um hvort kröfuhafar Kaupþings myndu eignast meirihluta í Arion banka. Ástæða þess að Gylfi mælti fyrir þessu er sögð sú að þá taki pólitískt skipuð stjórn Arion banka ekki lokaákvörðun um stórmál eins og niðurstöðu Hagamálsins heldur stjórn skipuð nýjum eigendum hans, fari svo að kröfuhafarnir samþykki að taka bankann. Sú niðurstaða rímar við þá ákvörðun stjórnar Arion banka um að afstaða til tilboðs núverandi eiganda 1998 ehf. og þar með Haga verði ekki tekin fyrr en í janúar. Þá munu nýir eigendur bankans getað haft áhrif á hver niðurstaðan verður, kjósi þeir að eignast hlut í Arion banka.

Öll lán voru færð yfir til nýju bankanna með miklum afslætti

DV greindi frá því á miðvikudag að lán 1998 ehf. hefði verið fært yfir í Arion banka á 17 milljarða króna. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka, segist ekki geta tjáð sig um hvort að þessi tala sé rétt. „Ég get ekki tjáð mig um virði einstakra lána.“ Bókfært virði lánsins var um 30 milljarðar króna í september í fyrra en það hefur hækkað í um 48 milljarða króna síðan þá vegna falls krónunnar, en lánið er í evrum. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um endurmat á efnahagsáætlun Íslands er hægt að sjá með hversu miklum afslætti nýju bankarnir þrír fengu eignir heimila og fyrirtækja þegar þær voru færðar yfir úr gömlu bönkunum. Þar segir að bókfært virði þeirra skulda fyrirtækja sem færðar voru yfir frá Kaupþingi til Arion banka væri um 975 milljarðar króna miðað við að verg landsframleiðsla sé 1.500 milljarðar króna í ár. Raunvirði skulda fyrirtækjanna er hins vegar sagt 262,5 milljarðar króna. Því nemur afsláttur nýja bankans á eignunum um 712,5 milljörðum króna. Raunvirði eignanna er því um 27 prósent af bókfærðu virði þeirra.

40 stærstu lán Arion banka afgirt

Verðmatið byggir annars vegar á mati Deloitte á eignunum og hins vegar á mati bankanna sjálfra. Í mati Deloitte var eignunum skipt upp í þrjá hópa: lán einstaklinga, lán lítilla og meðalstórra fyrirtæka og stór lán til fyrirtækja eða eignarhaldsfélaga. Til að ákveða virði tveggja fyrrnefndu hópanna voru teknar stikkprufur úr heildarlánasafni hvers hóps. Út frá því var fundið meðalverð og lánasöfnin keypt yfir á því verði. Þegar kom að mati á stóru lánunum var farið öðruvísi að. Þá var farið í gegnum hvert og eitt lán og mögulegar endurheimtir metnar. Síðan var fundið út verðbil og hvert lán „selt“ yfir til nýja bankans með afslætti sem var á því verðbili. 40 stærstu lánin sem „seld“ voru yfir til Arion banka eru þó afgirt (ring-fenced) í samkomulagi milli bankans og skilanefndar Kaupþings. Það þýðir að kröfuhafar Arion munu hirða hlut af allri viðbótarinnheimtu af þessum lánum upp að fyrirfram ákveðnu þaki. Því eiga bæði kröfuhafarnir og nýi bankinn mikið undir því að sem mest innheimtist af þessum stóru lánum.

Ekkert hefur enn verið afskrifað

Því liggur fyrir að ef heimildir DV um að lán 1998 ehf. hafi verið fært yfir á 17 milljarða króna eru réttar þá hefur lánið verið fært yfir til nýja bankans á hærra verði en meðaltal allra lána til fyrirtækja sem færð voru til nýja bankans. Það þýðir að endurheimtur þessa láns hafa verið taldar verða betri en á flestum öðrum lánum fyrirtækja sem færð voru yfir.  Arion sendi frá sér fréttatilkynningu í byrjun nóvember þar sem bankinn tók fram að engar afskriftir hefðu farið fram á lánum til 1998 ehf. og að unnið væri að hámarksendurheimt bankans. Það er í sjálfu sér rétt að bankinn hefur ekki afskrifað lánið líkt og það var fært yfir til hans. Hann hefur ekki afskrifað neitt fyrr en hann fer niður fyrir það verð sem hann keypti lánið á. Mismunurinn á kaupverði Arion á láninu og bókfærðu virði þess lendir á kröfuhöfum bankans.

Baugsfeðgar vita ekki verðmiðann á láninu

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að einungis lítill hópur fólks viti hver verðmiðinn af láni 1998 ehf. var þegar að Arion banki keypti lánið. Lántakendurnir, í þessu tilfelli Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes faðir hans og aðilar tengdir þeim, vita ekki með neinni vissu hver sá verðimiði var. Þeir vita einungis nafnvirði lánsins, sem í tilfelli 1998 ehf. er um 48 milljarðar króna. Þær samningsviðræður sem átt hafa sér stað milli bankans og lántakandans, og tilboðið sem fylgdi í kjölfarið, lituðust eðlilega að þessu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Lánveitandinn, Arion banki, var að reyna að fá eins mikið fyrir lánið umfram það sem bankinn „keypti“ þá á. Lántakandinn, 1998 ehf., er hins vegar að reyna að losna undan sem stærstum hluta af þeirri 48 milljarða króna byrði sem á félaginu hvílir.