Christopher Liddell, fyrrverandi fjármálastjóri Microsoft, hefur tekið við starfi sem fjármálastjóri General Motors (GM). Hann mun leiða endurskipulagningu á rekstri bíla- og vélaframleiðandans bandaríska.

Liddell þykir útsjónarsamur rekstrarmaður en hann hefur verið meðal helstu hugsuða Microsoft undanfarin ár og gegnt starfi fjármálastjóra frá því í maí 2005.

Eftir að alheimskreppan dýpkaði til muna, eftir fall Lehman Brothers og þjóðnýtingu bandaríska ríkisins á AIG á haustmánuðum í fyrra, greip Microsoft, eins og önnur fyrirtækja, til niðurskurðar í rekstri. Skorinn var niður kostnaður upp á rúmlega 3 milljarða dollara, eða sem nemur um 400 milljörðum íslenskra króna. Um 5.000 störf voru aflögð í þeim aðgerðum. Það er þó aðeins um fimm prósent af heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins sem er liðlega 100 þúsund. Árlegur vöxtur fyrirtækisins hefur þó verið mun meiri undanfarin ár en sem nemur þeim störfum sem aflögð voru. Niðurskurðurinn fólst því að stórum hluta í því að fresta frekari vexti fyrirtækisins þangað til stöðugleiki væri orðinn meiri á mörkuðum.

Tvö meginverkefni

Rekstur GM hefur verið í járnum undanfarin tvö ár. Heimskreppan kom illa við fyrirtækið, sem hefur verið haldið lifandi með stjórnvaldsaðgerðum, einkum til að verja um tvær milljónir starfa sem fyrirtækinu tengjast í Bandaríkjunum. Verkefni Liddell eru einkum tvíþætt, samkvæmt tilkynningu frá GM og fréttaskýringum erlendra fjölmiðla.

Það er í fyrsta lagi að minnka rekstrarkostnað, til að gera fyrirtækið „lífvæntlegt“ að nýju og bjarga því endanlega frá dauða, og síðan að endurvekja áhuga fjárfesta á félaginu. Fyrri hluti verkefnisins þolir enga bið og er talið líklegt að Liddell mun strax láta rækilega til sín taka þegar kemur að því að minnka kostnað og bæta rekstur. Ekki er heldur loku fyrir það skotið, samkvæmt fréttaskýringum í erlendum fjölmiðlum, að Liddell mun leggja mikla áherslu á að GM nái forskoti á sviði bíla sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum en olíu, þar helst rafmagni.

Bónus ef allt gengur upp

Áhugi fjárfesta er síðan langtímaverkefni. Liddell hefur sjálfur látið hafa eftir sér að það sé fyrst og fremst ögrunin við að koma að GM í því árferði sem nú ríkir á mörkuðum sem réð því að hann færði sig til GM. Vandi GM er djúpstæður. Fyrirtækið hefur smátt og smátt verið að tapa niður góðri stöðu sinni á Bandaríkjamarkaði. Nú er svo komið að Toyota á flesta selda bíla þar í landi. Þá hefur illa gengið hjá GM að koma á markað bifreið sem er ódýr, sparneytinn og þægilegur.

Liddell mun fá 750 þúsund dollar í laun á ári eða tæplega hundrað milljónir íslenskra króna. Laun hans hjá Microsoft voru meira en tvöfalt hærri. Takist honum hins vegar að endurvekja áhuga fjárfesta á félaginu, og ekki síst almennings í Bandaríkjunum, þá mun hann fá 5,75 milljóna dollara bónus greiðslu eða tæplega 750 milljóna króna. Liddell horfir til þess að ná því markmiði.