Amagerbanken er gjaldþrota. Ein virtasta og elsta fjármálastofnun Danmerkur féll endanlega sl. sunnudag eftir darraðardans í marga mánuði. Þegar bankinn féll var eigið fé bankans neikvætt um 654 milljónir danskra króna, eða sem nemur 13,7 milljörðum króna. Það sem gerði útslagið var afskrift á útlánum bankans á síðasta ársfjórðungi ársins 2010, upp á a.m.k. þrjá milljarða danskra króna eða sem nemur 63 milljörðum íslenskra króna. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar og mörg atriði er varða stjórnun bankans og samskipti við eftirlitsstofnanir hafa ekki verið útskýrð í þaula, ef marka má fréttaskýringar allra helstu dönsku fjölmiðlanna undanfarna daga.

Bankinn er nú kominn í slitameðferð. Stofnun danska ríkisins sem hefur það hlutverk að tryggja fjármálastöðugleika og eftirlit með fjármálageiranum, Finansiel Stabilitet, opnaði strax á mánudaginn banka á nýrri kennitölu sem nú vinnur með viðskiptavinum Amagerbanken að því að leysa úr fjölmörgum vandamálum. Ljóst er að margir innstæðueigendur munu ekki fá allt sitt til baka. Innstæðutryggingin í Danmörku er að hámarki upp að 100 þúsund evrum, eða sem nemur tæpum 16 milljónum íslenskra króna. Allt umfram það fæst ekki að fullu til baka. Endanlegar endurheimtur í bú bankans munu þó stýra því að lokum hversu mikið fæst til baka.

Hremmingarnar 2008 áhrifaríkar

Amagerbanken í Danmörku.
Amagerbanken í Danmörku.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Vandamál Amagerbanken má rekja til tveggja meginþátta. Annars vegar til mikilla útlána til fasteignafélaga sem síðan gátu ekki greitt þau aftur, og hins vegar til lausafjárerfiðleika og hraðrar rýrnunar eigna á haustmánuðum 2008. Danska ríkið greip til viðamestu aðgerða til að bjarga fjármálakerfi landsins sem gripið hefur verið til í sögu þess, enda um nánast einstæða atburði að ræða. Reglugerðin sem ríkið samþykkti hét Banken 1. Kjarni hennar var ríkisábyrgð á öllum innstæðum í tvö ár og svo trygging lausafjár fyrir allt danska bankakerfið. Á haustmánuðum stóðu danskir bankar höllum fæti, eins og bankar í öðrum löndum, og voru algjörlega háðir baktryggingu ríkisins.

Þetta tveggja ára tímabil var í raun sá tími sem bankarnir fengu til þess að koma málum sínum í lag. Hinn 1. október í fyrra var ríkisábyrgð á öllum innlánum afnumin og hámarkstrygging sett við 100 þúsund evrur, í takt við nýlega tilskipun Evrópusambandsins. Þá var einnig öllum bönkum og minni fjármálastofnunum gert að koma stöðugleika á fjárhag sinn þannig að hann stæðist allar kröfur, meðal annars um 8% eiginfjárhlutfall. Rétt áður en þessi nýja reglugerð tók gildi var FIH bankinn, sem áður var í eigu Kaupþings, og Seðlabanki Íslands tók að veði fyrir 500 milljóna evra láni, seldur til danskra eigenda. Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu lögðu dönsk stjórnvöld mikla áherslu á að stöðugleiki væri kominn á eignarhald bankanna og fjárhag þeirra áður en regluverkinu var breytt.

Tókst ekki

Amagerbanken náði aldrei að styrkja fjárhag sinn nægilega vel eftir 1. október í fyrra. Danski auðmaðurinn Karsten Ree lagði bankanum ítrekað til aukið hlutafé frá október í fyrra og fram að falli bankans. Það gerði hann að beiðni stjórnar bankans sem var með dönsk yfirvöld á bakinu. Þau kröfðust þess að eiginfjárstaða bankans yrði bætt, fyrst innan mánaðar frá því að nýjar reglur tóku gildi og síðan með reglulegum hætti. Lokafresturinn var sá að efnahagsreikningur bankans fyrir árið 2010 yrði að uppfylla öll skilyrði og fjárhagsstaðan væri traust. Bankinn hafði því verið lifandi dauður í töluverðan tíma áður en hann var formlega settur í gjaldþrotameðferð.

Samkvæmt því er fram kom í fréttaskýringu í Politiken sl. miðvikudag þá var þrýstingur stjórnvalda ekki síst tilkominn vegna ríkisábyrgða á lánum bankans og síðan beinum lánum Seðlabankans til bankans, sem ekki höfðu verið greidd til baka. Samtals námu ríkisábyrgðirnar um 13,2 milljörðum danskra króna, eða sem nemur um 280 milljörðum íslenskra króna. Ekki liggur ljóst fyrir hversu mikið mun fást til baka af þessu fé en fjármálaráðuneytið danska sagði í yfirlýsingu að allt yrði gert til þess að lágmarka tjón skattgreiðenda af falli bankans.