Tvisvar sinnum færri íbúar eru á bak við hvert bankaútibú á Íslandi en í Svíþjóð og þeir eru mun færri hér en á öllum hinum Norðurlöndunum. Íbúum á bak við hvert útibú á Íslandi fjölgaði nánast ekkert á milli áranna 2009 og 2010 en þrátt fyrir það hafa þeir aldrei verið jafn margir og um síðustu áramót. Útibúum banka hérlendis fækkaði einungis um eitt á síðasta ári þrátt fyrir að flestir sem koma að íslensku bankakerfi virðast sammála um að það sé allt of stórt.

Þetta kemur fram í samanburðartölfræði sem Samtök fjármálafyrirtækja á Íslandi (SFF) taka saman og halda utan um. Vert er að taka fram að tölur frá hinum Norðurlöndunum eru frá árslokum 2009, en íslensku tölurnar sýna stöðuna hérlendis eins og hún var um síðustu áramót.

Hagrætt eftir hrun

Töluverð hagræðing átti sér stað innan bankakerfisins í kjölfar bankahrunsins. Á árinu 2009 fjölgaði til að mynda íbúum að baki hverju útibúi um 400 og útibúum fækkaði um 23. Vert er að taka fram að hluti þeirrar hagræðingar átti sér stað með því að nokkrar fjármálastofnanir fóru í þrot og voru ekki endurreistar. Því er ekki hægt að rekja hana einvörðungu til endurskipulagningar innan starfandi banka og sparisjóða.

Íbúafjöldi að baki hverju útibúi 2010
Íbúafjöldi að baki hverju útibúi 2010

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Íslendingar hafa lengi vel verið sér á báti varðandi íbúafjölda að baki hverju bankaútibúi, sérstaklega þegar þeir eru bornir saman við nágrannaþjóðir sínar. Árið 2002 voru til að mynda 1.477 Íslendingar að baki hverju útibúi, eða rúmlega þrisvar sinnum færri en í Svíþjóð, sem rak hagkvæmasta bankakerfið ef miðað er við fjölda viðskiptavina á hvert útibú.

Minna en 20% af því sem var

Hagræðingin sem hefur átt sér stað á Íslandi frá bankahruni virðist þó ekki mikil þegar hún er sett í samhengi við núverandi stærð íslenska bankakerfisins.

Í septemberlok 2008, nokkrum dögum áður en bankahrunið reið yfir, mat Seðlabanki Íslands eignir íslenskra banka og sparisjóða á 14.900 milljarða króna. Í lok mars síðastliðins mat bankinn eignir þeirra á 2.767 milljarða króna, eða um 18,5% af því sem þær voru fyrir hrun. Bankakerfi dagsins í dag er því tæpur fimmtungur af því sem það var.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.