Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing var í fyrradag, fimmtudag, dæmt til að endurgreiða hjónum hátt í 600 þúsund krónur auk dráttarvaxta. Fyrirtækið hafði endurreiknað (eftir fyrsta dóm Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána) og innheimt með ólöglegum hætti bílalán sem hjónin tóku hjá Lýsingu.

Í stuttu máli er forsaga málsins sú að hjónin tóku fyrrnefnt bílalán en helmingur lánsins var i erlendri mynt og hinn helmingurinn í íslenskum krónum. Undir rekstri máls féllst Lýsing hf. á allar kröfur stefnanda varðandi gengistryggða hluta samningsins um ólögmæti afturvirks vaxtaútreiknings og endurgreiddi hjónunum rúmar 400 þúsund krónur.

Hvað íslenska hluta lánsins varðar þá hóf Lýsing, án nokkurs fyrirvara, að leggja verbætur ofan á þann hluta og innheimta líkt og um vertryggt lán væri að ræða. Sú aðgerð hefur nú verið dæmt ólögleg með fyrrnefndum dómi.

Dómurinn sjálfur er um margt áhugaverður. Lögmaður Lýsingar bar því við að lántakandanum hefði mátt vera ljóst að íslenskur hluti lánsins væri verðtryggður, enda væri það á allra vitorði að lán sem veitt eru til lengri tíma en 60 mánaða (5 ára) í íslenskum krónum væru verðtryggð. Auk þess hefðu hjónin mátt vita að svo lágir vextir, sem þarna voru í boði, væru ekki almennt í boði nema á vertryggðum lánum. Þá taldi lögmaðurinn að hjónin hefðu sýnt af sér tómlæti með því að mótmæla ekki verðtryggingu fyrr, en þau höfðu greitt af láninu í fjögur ár án þess að gera athugasemd um verðtrygginguna sjálfa.

Dómarinn tók ekki undir þessi sjónarmið Lýsingar eða lögmanns fyrirtækisins. Þá er skýrt tekið fram í dómnum að hjónin hafi ekki sýnt tómlæti vegna fyrrgreindra þátta og að Lýsing væri fagaðili sem yrði sjálfur að bera kostnaðinn af því ef samningurinn hefði ekki verið nægilega skýr. Þá kemst dómurinn sem fyrr segir að þeirri niðurstöðu að ekkert gefi til kynna í samningnum sjálfum, þ.e. lánasamningnum, að íslenskur hluti hans væri verðtryggður.

Lýsing lagði einhliða á verðbætur

Viðskiptablaðið fjallaði um sambærilegt mál í nóvember 2010. Lýsing hafi fyrr á því ári hafið að innheimta verðbætur og vexti á bílalán sem voru að hluta til veitt í myntkörfu en að hluta til í íslenskum krónum. Þetta kom fram í gögnum og greiðsluseðlum sem Viðskiptablaðið var, og er enn, með undir höndum en hópur viðskiptavina Lýsingar hélt því fram að samningarnir væru ekki verðtryggðir og fyrirtækinu því ekki heimilt að innheimta verðbætur. Í flestum tilvikum skiptast lánin í helminga, þ.e. 50% í myntkörfu og 50% í íslenskum krónum.

Í einu tilviki sem Viðskiptablaðið fjallaði um var um að ræða bílalán vegna bifreiðar sem keypt var ári 2006. Lánið, sem var til 84 mánaða, nam rúmum 2 m.kr., helmingur myntkarfa og helmingurinn íslenskar krónur. Undir liðnum vextir, verðtrygging og annað kemur fram að samningurinn væri gengistryggður og farið var yfir hlutfall myntkörfunnar. Ekkert kom fram um að helmingur lánsins (íslensku krónurnar) væri verðtryggður.

Í greiðsluseðli frá því um sumarið 2007 var umræddum viðskiptavini Lýsingar sendur greiðsluseðill til innheimtu á rúmum 32 þús. kr. sem var í takt við upphaflegan samning. Reiknað er með vöxtum á alla gjaldmiðla en engar verðbætur. Vorið 2010 barst síðan greiðsluseðill frá Lýsingu til innheimtu tæplega 49 þús.kr. Eins og gefur að skilja hafði gengi gjaldmiðlanna í myntkörfuhluta lánsins hækkað nokkuð frá árinu 2007. Þess utan var viðskiptavinurinn krafinn um tæpar 5 þús.kr. vegna verðbóta og vaxta af verðbótum. Þetta var aðeins eitt mál af mörgum.

Lýsing tók einhliða upp á því að innheimta verðbætur og vexti af verðbótum, enda hafði fyrirtækið einhliða skilgreint samninginn upp á nýtt sem verðtryggðan. Félagið hætti þó síðar við að innheimta verðbætur og vexti af verðbótum eftir að viðskiptavinir félagsins mótmæltu innheimtunni með þeim rökum að samningarnir væru ekki verðtryggðir.

Nýju tölvukerfi kennt um aukagjöldin

Þegar Viðskiptablaðið innti Halldór Jörgensson, þáverandi forstjóra Lýsingar, eftir svörum í nóvember 2010 bar hann því við að um tæknilega útfærslu væri að ræða og eftir endurnýjun í tölvukerfi fyrirtækisins væru einstaka liðir reikninga aðgreindir betur en áður. Þessum rökum hafnaði Neytendastofa sem þá hafði tekið nokkur mál til skoðunar og fyrrnefndur dómur sem féll í gær hafnar þeim einnig.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var þetta línan sem var gefin út fyrir starfsmenn, ef þannig má að orði komast. Með öðrum orðum þá var þeim skilaboðum komið til starfsmanna í innheimtu að útskýra þessi aukagjöld eða aukakostnað sem Lýsing ætlaði að leggja á hóp viðskiptavina sinna með fyrrgreindum hætti.

Viðskiptablaðið ráðfærði sig í kjölfarið við fjölda lögmanna um málið. Allir sögðu þeir að ekki væri hægt að innheimta verðbætur af lánum nema skýrt hafi verið tekið fram að samningurinn væri verðtryggður. Í samningum Lýsingar við viðskiptavini sína kom fram að leigugjald, þ.e. afborganir af bílalánum, tækju breytingum á gengi og vöxtum skv. 7. grein samninganna. Þar var tilgreind breyting vaxta eftir því hvort samningar eru óverðtryggðir, verðtryggðir eða gengistryggðir. Jafnframt kom fram í fyrirsögn samninganna hvort samningarnir væru verðtryggðir, óverðtryggðir eða gengistryggðir. Í fyrrnefndri 7. grein samninganna voru þó engin dæmi þess að samningar væru skilgreindir bæði sem verðtryggðir og gengistryggðir, heldur að þeir séu annað hvort. Þannig var t.a.m. ekkert sem gaf til kynna að íslenskur hluti myntkörfulána væri verðtryggður.

Í greiðsluseðlum sem gefnir voru út áður en hin meinta breyting á tölvukerfi Lýsingar á að hafa átt sér stað er ekkert sem gefur til kynna að íslenskur hluti lánanna væri verðtryggður. Þvert á móti var hann reiknaður á sömu vöxtum og kjörum og aðrir gjaldmiðlar í lánunum, sem tóku mið af LIBOR vöxtum.

Sagði frétt Viðskiptablaðsins meira og minna vitlausa

Í tölvupósti sem Halldór Jörgensson, þáv. forstjóri Lýsingar, sendi blaðamanni þann 11. nóvember 2010 (sama dag og fyrsta frétt blaðsins af málinu birtist) sagði hann að réttara væri að segja að verðtryggingin hefði verið sérgreind en ekki skilgreind eins og stóð í fyrirsögn blaðsins. Þá sagði hann allt annað í fréttinni vera „meira og minna vitlaust eða í röngu samhengi“ eins og hann komst að orði. Hann ítrekaði að útreikningar hefðu ekki breyst heldur hefði framsetningu greiðsluseðlanna verið bætt. Þá sagði hann fyrstu setningu fréttarinnar, sem hljóðaði svo; „Lýsing hóf í vor að innheimta verðbætur og vexti…” vera kolranga og meiðandi fyrir Lýsingu.

Ekkert hefur þó komið fram um að efnistök í fyrrnefndri frétt Viðskiptablaðsins hafi verið „meira og minna vitlaust eða í röngu samhengi“ – þvert á móti staðfestir nýfallinn og fyrrnefndur dómur efni fréttaskrifanna.

Hér má sjá frétt um ákvörðun Neytendastofu , sem staðfesti fyrri fréttir Viðskiptablaðsins.

Hér má sjá fyrrnefndan dóm sem fjallað er um hér að ofan