Frumvarp um breytingar á stjórnarskrá er nú til umræðu á Alþingi. Frumvarpið hefur þegar verið afgreitt úr sérnefnd um stjórnarskrármál sem skipuð var vegna málsins og er nú tekið fyrir til 2. umræðu.

Í því frumvarpi sem nú er lagt fram eru gerðar fjórar tillögur um breytingar á stjórnarskránni, í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á nýtingu auðlinda, í öðru lagi um breytingar á stjórnarskrá almenn, í þriðja lagi tilhögun á þjóðaratkvæðagreiðslu og í fjórða lagi er lagt til að stjórnlagaþing verði haldið sem fjalli um breytingar á stjórnarskránni.

Fjölmargir aðilar skiluðu umsögnum um frumvarpið og þegar umsagnirnar eru skoðaðar kemur í ljós að flestir þeirra sem skiluðu umsögnum töldu málið ýmist of hratt unnið, þversagnakennt, ýmsir draga lögfræðihugtök í efa og sumir telja að málið eigi að bíða fram yfir kosningar.

Í almennri umsögn um frumvarpið voru margir sem sögðu of skamman tíma gefin til að skila umsögnum. Þar á meðal var Sigurður Líndal , lagaprófessor og Ágúst Þór Árnason , kennari við Háskólann á Akureyri.

Þá sagði Davíð Þór Björgvinsson , prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík (HR) að skammur tími hefði gefist til umsagnar miðað við umfang málsins. Í umsögn sinni tók Davíð Þór ekki afstöðu til þess hve brýnt málið sé.

Annar kennari við HR, Ragnhildur Helgadóttir , lektor við lagadeild segir í umsögn sinni að óheppilegt hafi verið að víkja frá hefð um samstöðu við vinnslu frumvarpsins og varar við óæskilegri þróun í framhaldinu.

Þá telur Samband íslenskra sveitafélaga í sinni umsögn að eðlilegt sé að bíða með fyrirhugaðar breytingar þangað til eftir kosningar, nema ef til vill breytingum á annarri grein sem snýr að breytingum á stjórnarskránni almennt.

Eins og Viðskiptablaðið hefur þegar greint frá lagðist laganefnd Lögmannafélags Íslands gegn frumvarpinu og taldi ákveðna þversögn felast í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskránni og á sama tíma koma á fót stjórnlagaþingi sem á að semja nýja stjórnarskrá.

Þá leggjast Samorka, HS Orka, RARIK og Landsvirkjun gegn frumvarpinu. Samorka gagnrýndi skamman tíma sem umsagnaraðilum var ætlaður til að móta afstöðu og vakti jafnframt athygli á „ófullnægjandi“ skilgreiningum hugtaka sem „valdið gætu réttaróvissu, um skörun við vinnu sem nú á sér stað á vegum stjórnvalda við útfærslu nýlegra lagasetninga,“ eins og það var orðað á umsögn félagsins.

Landssamban íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) sagðist jafnframt þurfa lengri tíma og gagnrýndi óvandaðan undirbúning. Landssamband smábátaeigenda tók í svipaðan streng og í umsögn félagsins er það harmað hversu knappur tími er til umsagnar.

Þá sagðist Reykjavíkurakademían hafa of stuttan tíma til að vandaðar efnislegar athugasemdir.

Samtök atvinnulífsins (SA) sögðust í umsögn sinni hafa miklar efasemdir um frumvarpið í ljósi almennra sjónarmiða um hlutverk stjórnarskrár, stöðuleika í stjórnarframkvæmd og slíkra þátta.

Þá gerði Viðskiptaráð athugasemdir við málsmeðferð og hraða frumvarpsins en ráðið segir stjórnarskrárbreytingar krefjast vandaðra vinnubragða. Þannig gagnrýndi Viðskiptaráð meðal annars skort á samráði við fræðimenn, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila.

Davíð Þorláksson , lögfræðingur og fyrrverandi lögfræðingur Viðskiptaráðs sendi einnig inn umsögn til nefndarinnar og sagði eðlilegast að bíða með efnislegar breytingar þangað til niðurstaða stjórnlagaþings liggur fyrir.

BSRB og ASÍ studdu frumvarpið þó eindregið og bæði samtökin telja brýnt að ljúka afgreiðslu þess sem fyrst. Er það einu samtökin sem styðja frumvarpið með þeim hætti.

Efast um gildi hugtaksins þjóðareignar

Í kaflanum sem snýr að auðlindum er lagt til að eignarréttur að auðlindum verði í höndum ríkisins og það fari með allar heimildir sem felast í eignarréttinum, s.s. réttinn til umráða, hagnýtingar og ráðstöfunar. Þar eru skiptar skoðanir með umsagnaraðila.

Davíð Þór Björgvinsson segist í umsögn sinni vera frekar fylgjandi tillögunni að ýmsu leyti en gerir þó margvíslegar athugasemdir og ábendingar. Þá segist Ragnhildur Helgadóttir vera fylgjandi ákvæði af þessu tagi en varar við að það verði tekið með stjórnarskrá með þeim hætti sem ráð er fyrir gert og leggur áherslu á að stjórnlagaþing sinni málinu.

Sigurður Líndal segir merkingu orðsins og hugtaksins þjóðareign vera óljósa og það sé álitamál hvort nýtt eignarréttarlegt hugtak hafi verið mótað. Í umsögn sinni leggst hann alfarið á móti fyrstu greininni og gerir athugasemdir með tilvísun til umhverfis, sjálfbærrar þróunar, hagsældar og heilbrigðis.

Samband íslenskra sveitafélaga segir tilganginn með ákvæðinu óljósan og telur eðlilegra að bíða þar til farið er út í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Norðurál skilaði inn umsögn til sérnefndarinnar en í umsögn fyrirtækisins kemur fram að mikilvægt sé að það komi skýrt fram í lögunum að ekki sé verið að raska eignarrétti einstaklinga og lögaðilar. Þá segir Norðurál að ákvæðið megi ekki hindra skynsamlega nýtingu einkaaðila á auðlindum.

Orkustofnun telur að skilgreina verði hugtök með skýrari hætti, þá sérstaklega náttúruauðlindir en þá leggur stofnunin til að hugtakinu um þjóðareign verði sleppt. Í sama streng tekur Samorka og í umsögn félagsins má finna ítarlegar athugasemdir og harða gagnrýni á ákvæðið. Þá segir Samorka að skilgreining á hugtökum sé ófullnægjandi, hætta sé á réttaróvissu en jafnframt er bent á að um ákvæðið hafi ekki farið fram sú almenna umræða í samfélaginu sem eðlileg sé í sambandi við stjórnarskrárbreytingar.

LÍÚ leggst einnig alfarið gegn því að ákvæðið verði samþykkt. Í umsögn sambandsins er bent á óskýra hugtakanotkun og jafnframt varað við réttaróvissu.

Sjómannasamband Íslands telur þó tímabært að setja svona ákvæði í stjórnarskrá og í umsögnum BSRB og ASÍ má heyra svipaðan tón.

SA segir hugtakanotkunina einnig ekki nógu skýra, hætta sé á ágreiningi um túlkun varðandi ýmsa þætti tengda málinu. Þá segja samtökin einnig óljóst hvaða áhrif slíkt ákvæði hefði.

Eins og áður hefur komið fram leggst Viðskiptaráð einnig gegn ákvæðinu og segir þjóð ekki geta átt eign í lögfræðilegum skilningi. Í sama streng tekur Davíð Þorláksson, fyrrverandi lögfræðingur Viðskiptaráðs en hann segir verulega misráðið að samþykkja ákvæðið sem hann segir jafnframt vera marklaust og veikja stjórnarskránna. Davíð vísar í ritgerð sína um málið þar sem fram kemur að þjóð geti ekki átt eignir, eðlilegra sé að tala um ríkiseign – ef á annað borð fjallað verði um málið í stjórnarsrká.

Í umsögn Félags umhverfisfræðinga kemur fram að jafnvel þótt ríkinu verði falið umsjá náttúruauðlinda tryggir ekki endilega bestu nýtingu þeirra. Þá segir félagið hugtakanotkunina vera óljósa.

Hagfræðiprófessorarnir Birgir Þór Runólfsson og Ragnar Árnason segja í umsögn sinni, skerðingu eignarréttar leiða til óhagkvæmni. Ákvæðið feli í sér þjóðnýtingu og valdi efnahagslegu tjóni. Þá vara þeir við lögfestingu ákvæðisins.