Miklar líkur eru nú taldar á því að erlendu kröfuhafarnir eignist Nýja Kaupþing og Íslandsbanka eftir helgi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verða þá kosnar nýjar stjórnir bankanna. Rekstur nýju bankanna fellur þá væntanlega undir skilanefndir þeirra gömlu.

Nokkur viðskipti hafa verið með skuldabréf Kaupþings og Glitnis án þess þó að veigamiklar breytingar hafi orðið á kröfuhafahópnum. Þessi viðskipti eru þó af sérfræðingum, sem rætt var við, talin vera til vitnis um aukna bjartsýni á endurheimtur almennra skuldabréfaeigenda. Það á hins vegar ekki við um Landsbankann en líklega mun ekkert koma upp í almennar kröfur þar. Þar er einnig ólíklegt að kröfuhafar vilji taka yfir bankann.

Ef litið er á kröfuhafahóp bankanna þá sést að þýsku bankarnir eru þar nokkuð stórir og Deutsche Bank fyrirferðamestur í kröfuhafahópi Kaupþings. Sömuleiðis er Bayerische Landesbank stór.  Kröfur í Kaupþing eru um 14 milljarðar evra en engin einn kröfuhafi mun eiga meira en tvo milljarða evra.

Kröfuhafahópur Glitnis er aðeins öðru vísi samansettur og þar er meðal annars Sumitomo Bank í Japan stór ásamt Bayerische Landesbank.

Nýjar stjórnir á bankana

Ef þetta samkomulag næst – sem virðist vera mestar líkur á – munu skilanefndirnar halda utan um nýju bankanna eins og hverjar aðrar eignir. Síðan yrði þetta sett yfir til kröfuhafanna sem myndu ráð hvernig þessu yrði stýrt. Þannig er líklegt að þeir sem eru bankamegin í kröfuhafahópnum muni taka virkara hlutverk. Ekki verður um það að ræða að erlendu bankarnir seti merki sitt á nýju bankanna en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hyggjast þeir setja sína fulltrúa í stjórn. Þannig er líklegt að skipt verði um stjórnir Nýja Kaupþings og Íslandsbanka strax eftir helgi ef þetta gengur eftir.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins munu erlendu kröfuhafarnir tryggja fjármögnun bankanna og leggja áherslu á að starfsemi þeirra verði áfram með líku sniði. Þeir munu hins vegar ekki hafa áhuga á að vera leiðandi til langstíma og sjá fyrir sér að bankarnir færist smám saman í íslenskt eignarhald. Þannig horfa menn til þess að bankarnir verði jafnvel skráðir á ný í Kauphöll eftir tvö til þrjú ár. Lífeyrissjóðirnir íslensku eiga talsvert af skuldabréfum á bankanna og myndu að öllum líkindum koma frekar að eignahaldi þeirra.

Með því að hefja rekstur bankanna yrði lögð áhersla á að endurheimta eignir og ná sem fyrst jafnvægi í rekstri þeirra. Heimildir Viðskiptablaðsins segja að kröfuhafarnir átti sig á að hér sé um að ræða langtímafjárfestingu.

,,Þetta er tvímælalaust jákvætt, ég held að allir séu sammála um það. Þetta er eitt af því sem maður lét sig dreyma um í kringum jólin og þetta er frábært fyrir íslenska bankakerfið enda þurfum við ekki sérstaklaga á ríkisbönkunum að halda. Það verður tryggt að þjónustan er eins og fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af innlánum sínum. Þetta er sigur fyrir alla og kemur Íslandi vonandi á kortið aftur. Við hættum þá að líta út sem hryðjuverkamenn í augum þessar manna,“ sagði einn þeirra sem hafa starfað að málum skilanefndanna.