Á hluthafafundi Icelandair Group sem hófst klukkan 16 í dag og lauk fyrir skömmu náðu minni hluthafar fram breytingum á tillögu sem lá fyrir fundinum og hefði getað þýtt mikla þynningu hlutafjáreignar þeirra.

Gert hafði verið ráð fyrir að heimila stjórn að hækka hlutafé, sem er 1 milljarður króna, um 15 milljarða króna, en samþykkt var breytingartillaga um heimild til hækkunar um 4 milljarða króna.

Allir hluthafar geta haldið hlut sínum

Önnur breyting sem náðist fram er að forgangsréttur hluthafa til að skrá sig fyrir nýjum hlutum muni takmarkast við núverandi hlutafjáreign, en áður var gert ráð fyrir að hægt væri að auka hlutaféð eingöngu með skuldajöfnun, sem hefði þýtt að minni hluthafar hefðu ekki átt annan kost en að þurrkast nánast út. Nafnverð hlutanna til hluthafa er ein króna, en stjórn getur ákveðið áskriftargengi með almennu útboði.

Áfram er gert ráð fyrir að hægt sé að greiða fyrir nýtt hlutafé með skuldajöfnun, enda er markmiðið með hlutafjárútboðinu að bæta skuldastöðu félagsins.

Eins og fjallað var um í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag hafa talsverð átök verið vegna þessa máls á milli almennra hluthafa, sem eiga nokkur prósent í félaginu, og stærri hluthafa, sérstaklega Íslandsbanka, sem á 47% hlut. Auk þess á Landsbankinn 23,8% hlut og Sparisjóðabankinn 9,4% hlut.

Fráfarandi stjórnarformaður gagnrýndi Íslandsbanka og forvera hans

Segja má að óánægja minni hluthafa hafi komið fram í ræðu fráfarandi stjórnarformanns, Gunnlaugs Sigmundssonar, við upphaf fundarinar. Gunnlaugur gagnrýndi Íslandsbanka, og forvera hans Glitni, fyrir það meðal annars að hafa aldrei lokið við að fjármagna félagið. Icelandair Group hafi verið sett á markað árið 2006 á of háu gengi en margir fjárfestar hafi sagt honum að bankinn hafi beðið þá um að taka þátt í útboðinu. Hann sagðist vona að nýi bankinn mundi standa öðruvísi að útboði en þá hafi verið gert.

Enginn annar fundarmanna tók til máls þegar boðið var upp á það og virðist sem sú staðreynd að stóru hluthafarnir féllust á að gera breytingar á tillögu sinni hafi lægt öldurnar nokkuð. Flestir minni hluthafanna héldu framboðum sínum þó til streitu, en einn þeirra, Jónas Gauti Friðþjófsson, dró framboð sitt til baka. Aðrir fulltrúar minni hluthafa sem ekki náðu kjöri voru Friðrik Á. Brekkan, Geirþrúður Alfreðsdóttir og Hlíf Sturludóttir.

Finnur Reyr með flest atkvæði, Sigurður Helgason í öðru sæti

Kjöri náðu Finnur Reyr Stefánsson, með 664 milljónir atkvæða, Sigurður Helgason, fv. forstjóri félagsins, með 618 milljónir atkvæða, Pétur J. Eiríksson, með 617 milljónir atkvæða, og Katrín Olga Jóhannesdóttir og Jón Ármann Guðjónsson, bæði með tæplega 600 milljónir atkvæða. Mætt var fyrir 92% atkvæða, eða 920 milljónir.

Fleira gerðist ekki á fundinum og enginn tók til máls undir öðrum málum. Í lok fundarins óskaði fráfarandi stjórnarformaður nýrri stjórn og félaginu allra heilla, en sagði um leið að almennir hluthafar yrðu að vakta reksturinn. Þeir skyldu ekki treysta á stóru hluthafana, bankana í eigu ríkisins.