Fáir hefðu sjálfsagt trúað því í upphafi liðinnar viku að hneykslið vegna símhlerana fjölmiðla Ruperts Murdoch í Bretlandi myndi svo skjótt ná þeim hæðum sem raun ber vitni. Og ekki allt búið enn.

Það kom fáum á óvart að bresku götublöðin beittu misvönduðum meðulum við fréttaöflun og að símhleranir og uppdirkun talhólfa væru þar á meðal. Fyrir lá að aðferðir þessar voru útbreiddar, og svo má heita merkilegt hve flestir fjölmiðlar í Bretlandi voru óforvitnir um hleranirnar.

Murdoch
Murdoch

Hægt er stækka myndina með því að smella á hana.

Breskur almenningur hafði hins vegar takmarkaða samúð með athyglissjúkum slebbum og frægðarfólki, sem kvartaði undan aðgangshörku fjölmiðla. En þegar það kom á daginn að helgarblaðið News of the World hafði truflað rannsókn á hvarfi barns og vakið falsvonir hjá foreldrum þess var mælirinn fullur. Fram komu fleiri dæmi, sem bentu til þess að engu og engum væri eirt af götublöðunum, að hleranir væru þar reglan fremur en undantekningin við fréttaöflun, að lögregluþjónum væru greiddar mútur fyrir upplýsingar um sakamál, viðkvæmar upplýsingar um konungsfjölskylduna og annað í þeim dúr.

Rebekah Brooks, forstjóri News International í Bretlandi, dagblaðaarms Murdochs þar í landi, og aðrir helstu stjórnendur vissu vel á hverju væri von og að þar væru engar góðar fréttir. Því var öllum að óvörum kynnt síðasta fimmtudag að News of the World yrði lokað fyrir fullt og fast eftir 168 ára samfellda útgáfu.

Öllu til fórnandi fyrir yfirtöku Sky

Ýmsir undruðust þessa miklu fórn, en ástæðan er einföld. Murdoch stefndi að yfirtöku á British Sky Broadcasting Group Plc (BSkyB), sem flestir þekkja einfaldlega sem Sky, en ófriðurinn í kringum starfsháttu blaðanna stefndi yfirtökunni í voða. Ekki síst laut það að því að sjónvarpsleyfið er bundið hæfisskilyrðum lykilmanna, að þeir séu áreiðanlegir og með óflekkað mannorð.

Með því að færa þessu stóru fórn vonaðist Murdoch greinilega eftir því að skilja hneykslið eftir í hinu dauða blaði, en það reyndist borin von og í gær var tilkynnt að fallið hefði verið frá yfirtökunni á Sky.

Ósennilegt er að Murdoch-fjölskyldan hafi gefið drauminn um Sky upp á bátinn, en hann verður að bíða betri tíma. Fyrir Rupert Murdoch verða tímarnir eiginlega ekki mikið verri en þeir eru nú í Lundúnum.

Erfitt er að segja hvað getur sefað reiði almennings, annað en tíminn. Þó að Murdoch sé 80 ára gamall er rétt að hafa í huga að hann er við hestaheilsu og á 102 ára gamla móður á lífi!

Hneykslið hefur flóknar pólitískar víddir, en þessi dægrin keppast stjórnmálamenn — Cameron forsætisráðherra sem Miliband stjórnarandstöðuleiðtogi — við að sverja Murdoch og fjölmiðlaveldi hans af sér, eftir margra ára undirlægjuhátt. Fyrir dyrum eru miklar rannsóknir á starfsháttum fjölmiðla, sem ekki munu bæta ástandið, og áhrifavald Murdochs hefur því minnkað verulega. Að sinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.