Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) er ekki venjulegur banki. Hann er í eigu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og lánar öðru fremur í verkefni þar sem um langtímafjárfestingar er að ræða, ekki síst á sviði samgangna, orkuiðnaðar og annarra verkefna, þar sem algengt er að hið opinbera eða fyrirtæki í þess eigu beri ábyrgð á þeim. Stór verkefni sem NIB lánar til eru meðal annars virkjanir, lestarsamgöngumannvirki, sæstrengir og vegaframkvæmdir. Oftast nær lánar NIB eingöngu til stórra verkefna, í takti við stefnu hans þar um.

Tenging við Ísland

NIB hefur árum saman lánað fé til framkvæmda á Íslandi. Þar ber hæst lán til virkjanaframkvæmda, bæði á vegum Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Starfsmenn NIB komu hingað til lands fyrr í mánuðinum til þess að skoða áhrifasvæði Búðarhálsvirkjunar sem nú er í byggingu. NIB lánar Landsvirkun fyrir hluta af framkvæmdinni, eða um 70 milljónir dollara, jafnvirði um 8,6 milljarða króna. Heildarkostnaður við virkjunina er áætlaður 220 milljónir dollara, eða um 25 milljarðar króna. Lokagjalddagi lánsins er 2027, en lánið ber millibankavexti auk álags sem ekki hefur verið gefið upp opinberlega.

Norræni fjárfestingarbankinn
Norræni fjárfestingarbankinn

Stækka má myndina með því að smella á hana

Sterk staða

Fjárhagsstaða NIB er sterk. Erfiðleikar á fjármálamörkuðum undanfarin ár hafa ekki haft mikil áhrif á bankann. Þar skiptir stöðugleiki í lánasafni hans miklu máli. Bankinn hefur kappkostað að lána til umhverfisvænna verkefna, þar helst virkjanaframkvæmda sem teljast græn. Hlutfall samþykktra lána hjá bankanum í flokki sem telst umhverfisvænn (environment sector) var um 30% í fyrra. Orkuiðnaður var með um 20% samþykktra lána og samgöngur rúmlega 10%. Afgangurinn dreifðist niður á margs konar geira. Útistandandi lán í lok árs 2010 voru 13,7 milljarðar evra eða sem nemur um 2.230 milljörðum króna. Til samanburðar má nefna að landsframleiðsla Íslands var upp á rúmlega 1.500 milljarða í fyrra. Bankinn telst því stór á þann mælikvarða. Heildareignir bankans í lok árs í fyrra námu um 24,8 milljörðum evra, eða sem nemur rúmlega 4.000 milljörðum króna.

Brugðist við með auknum lánum

Fjármálakreppan hafði víðtæk áhrif á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Í ljósi traustrar stöðu NIB á markaði jókst þrýstingur á bankann um að hann lánaði til framkvæmda og ýmissa verkefna í kreppunni. Á milli ára, 2008 til 2009, jukust lán bankans um rúmlega 750 milljónir evra. Til samanburðar jukust lánin um aðeins um 10 milljónir evra milli ára 2009 og 2010. Bankinn brást þannig við kreppunni með auknum lánveitingum til arðbærra verkefna á árinu 2009. Heildareignir bankans jukust umtalsvert milli ára frá 2009 til 2010. Í lok árs 2009 voru heildareignir 22,4 milljarðar evra en voru rúmlega 24,8 milljarðar í lok árs 2010 eins og áður sagði. Aukningin nam því 2,4 milljörðum evra, eða sem nemur 391 milljarði króna.

Minnst lánað til Litháen

Þegar það er skoðað hvernig lánveitingar bankans eftir löndum eru kemur í ljós að hlutföllinn eru ekki í takt við eigendahlutföllin. Þannig eru um 5% af lánum bankans til Íslands. Eignahlutfall Íslands er hins vegar 0,9%. Stærstur hluti lánanna er til Finnlands, eða 29%. Svíar eru með 28% af lánum, Norðmenn 19% og Danir 11%. Eistland, Lettland og Litháen eru samtals með 8%, þar af vegur Lettland þyngst með 4%.

Mest í orkuna

Útistandandi lán til Íslands eru nú tæplega 600 milljónir evra, eða rúmlega 97 milljarðar króna. Um 70% af þeirri upphæð er til verkefna í orkuiðnaði. Það er um 420 milljónir evra. Lán til Landsvirkjunar og OR vega þarna langsamlega þyngst. Sextán prósent af lánunum til Íslands eru til banka og fjármálafyrirtækja og sjö prósent til verkefna er tengjast samgöngum. Afgangurinn, 7%, er síðan til annarra verkefna.

Fréttaskýringin birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.