Þegar Norðurlöndin gengu frá lánasamningi við Ísland fyrir um mánuði var ekkert í lánasamningnum um að Ísland þyrfti að samþykkja Icesave-ábyrgðina. Þetta kom fram hjá Jóni Sigurðssyni, formanni íslensku samninganefndarinnar, eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu. Jón sagði þó að Norðurlöndin legðu áherslu á að Íslendingar stæðu við sínar alþjóðlegu skuldbindingar og þar með innstæðutryggingakerfið.

Lán Norðurlandanna sagt háð samþykkt AGS

Þegar Anna Björnermark, fulltrúi sænskra stjórnvalda í viðræðunum, var spurð hvort höfnun Alþingis á Icesave-ábyrgðinni mundi hafa áhrif á lán Norðurlandanna, svaraði hún því til að höfnun kynni að hafa áhrif á samþykkt stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS, á efnahagsáætlun Íslands og AGS. Þar með hefði það áhrif á útgreiðslu lánanna frá Norðurlöndunum. Fyrsta greiðslan yrði ekki innt af hendi fyrr en stjórn AGS hefði samþykkt endurskoðunina og greitt út sitt lán.

Samþykkt AGS sögð háð láni Norðurlandanna

Nú virðist sem dæmið hafi snúist við. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í gærkvöldi sagði að þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi uppfyllt öll markmið sem sett hafi verið vegna endurskoðunarinnar hafi stjórn AGS ákveðið að afgreiða ekki strax endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, og þar með útgreiðslu láns.

Skýringin sem gefin er í tilkynningu forsætisráðuneytisins er að AGS hafi „staðreynt að fjármögnun efnahagsáætlunarinnar með greiðslum frá utanaðkomandi aðilum, m.a. Norðurlöndunum, hafi ekki verið tryggð“. Umsamin lán séu mikilvægur hluti efnahagsáætlunarinnar og verði aðgengi að þeim að vera að fullu tryggt áður en framkvæmdastjórn AGS telji sig geta gengið frá endurskoðun efnahagsáætlunarinnar.

Veldur ómöguleiki því að málið strandar?

Þarna bendir hvor á annan og ómöguleiki virðist valda því að málið fæst ekki afgreitt. Norðurlöndin greiða ekki út fyrr en eftir afgreiðslu AGS og AGS afgreiðir málið ekki fyrr en eftir að greiðslur frá Norðurlöndunum hafi verið tryggðar.

AGS sagði forsætisráðherra að Icesave-lausn væri ekki skilyrði

Í svari við fyrirspurn Illuga Gunnarssonar þingmanns um Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á Alþingi hinn 13. júlí sl. sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að á fundum sínum með fulltrúum AGS hefði Icesave-málið komið til tals og í máli fulltrúa AGS komið fram að betra væri ef búið væri að leysa málin til að efnahagsáætlunin fengist endurskoðuð. Það hefði hins vegar ekki verið skilyrði. Þegar þingmaðurinn vildi í viðbrögðum sínum túlka þetta sem kurteislega leið embættismanna við að segja að Icesave-samkomulagið væri skilyrði, þvertók forsætisráðherra fyrir það og sagði: „Það er nauðsynlegt að það komi fram að það var alls ekki þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða fulltrúar hans hafi sett þetta sem eitthvert skilyrði, eins og mér fannst hv. þingmaður setja það upp, það er bara langt í frá að þeir hafi gert það. Það var meira að segja undirstrikað að þeir væru ekki að setja fram neitt skilyrði í því efni þó að þeir segðu að það væri betra að búið væri að ganga frá Icesave-samingunum áður en endurskoðunin færi fram. Það er alveg ljóst.“

Icesave-málið virðist skilyrði þráttt fyrir fullyrðingar um annað

Sem stendur er erfitt að sjá nákvæmlega hvar málið strandar eða hvers vegna því að skilaboðin eru óskýr. Þó virðist ljóst að þrátt fyrir að fulltrúar AGS hafi undirstrikað við forsætisráðherra að Icesave-málið væri ekki skilyrði fyrir endurskoðun efnahagsáætlunarinnar og útgreiðslu lánanna, þá sé það engu að síður svo. Það er hins vegar óljóst hvort það er vegna þess að AGS setur þetta sem skilyrði, þá væntanlega vegna þrýstings frá viðsemjendum Íslendinga í Icesave-málinu, Bretum og Hollendingum, eða vegna þess að Norðurlöndin setja þetta sem skilyrði.