Nýfallinn hæstaréttardómur varpar nýju ljósi á mögulegt vanhæfi Sigríðar Benediktsdóttur, hagfræðings, til setu í rannsóknarnefnd Alþingis sem mun innan skamms skila skýrslu sinni um aðdraganda bankahrunsins.

Þetta staðfestir hæstaréttarlögmaður í samtali við Viðskiptablaðið þar sem almennar vanhæfisreglur stjórnsýslulaga gilda um nefndina.

Forsaga málsins er sú að í júní sl. kom upp mál þar sem spurt var um vanhæfi Sigríðar til að sitja í nefndinni. Aðdragandinn var sá að Sigríður hafði, í viðtali við skólablað Yale háskólans í Bandaríkjunum þar sem hún kennir hagfræði, lýst þeirri skoðun sinni að ástæður bankahrunsins hér á landi megi rekja annars vegar til græðgi og hins vegar „gáleysis af hálfu stofnana sem höfðu með höndum eftirlit með kerfinu," eins og það er orðað í skólablaðinu.

Þeir Páll Hreinsson, hæstaréttardómari og formaður nefndarinnar, og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, óskuðu í framhaldinu eftir því að hún segði sig úr nefndinni vegna ummælanna. Sigríður staðfesti það í samtali við Morgunblaðið í júní sl. en eftir að hafa ráðfært sig við samkennara sína ákvað Sigríður þó að segja sig ekki úr nefndinni. Ekkert var aðhafst í málinu og sú skýring gefin að Sigríður hefði einungis tjáð sig almennt um málið án þess að gera sig vanhæfa.

Dómari vék sæti vegna ummæla á opinberum vettvangi

Fyrir stuttu var rekið dómsmál sem fjallar um sambærilegt efni, það er hvort þátttaka í opinberum umræðum valdi vanhæfi. Í byrjun desember sl. staðfesti hæstiréttur að héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, hefði borið að víkja sæti í máli sem hún fékk inn á sitt borð sem dómari. Maður nokkur hafði stefnt ríkinu til heimtu bóta vegna starfs sem hann hafði sótt um en ekki fengið, en um var að ræða skipun héraðsdómara.

Í ljós kom að dómari málsins í héraði hafði veitt útvarpsviðtal í tilefni af umræðu sem varð um skipunina. Í kjölfarið var þess krafist að dómarinn viki sæti í málinu vegna þessa.

Í úrskurði héraðsdóms segir dómarinn að í viðtalinu hafi hann enga afstöðu tekið til þess hvort reglur hafi verið brotnar við skipun í starfið og enga afstöðu tekið til hugsanlegrar bótaábyrgðar.

Tilvitnanir í viðtalið, sem byggt var á til stuðnings kröfu um að dómarinn viki sæti, hafi eingöngu verið upptalning á „þekktum staðreyndum“. Segir í úrskurðinum að ekkert í ummælunum sjálfum valdi því að dómaranum beri að víkja sæti. Hins vegar verði að horfa til þess að með því einu að fara í viðtalið hafi dómarinn tekið þátt í opinberri umfjöllun um málið og þar með megi þeir sem málið varði, með réttu draga óhlutdrægni hans í efa, og sé honum því skylt að víkja sæti.

Úrskurði dómarans var skotið til Hæstaréttar. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn og tók fram að í málinu væru engar „forsendur til að hnekkja því mati héraðsdómara að honum sé rétt að víkja sæti í því [...].“

Staðfestir vanhæfi

Sem fyrr segir gilda um nefndina almennar vanhæfisreglur stjórnsýslulaga, skv. lögum um nefndina sjálfa. Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrrnefndur dómur staðfesti almennt vanhæfi Sigríðar í rannsóknarnefndinni. Hún hafi lýst yfir fyrirframmynduðum skoðunum á máli sem hún nú rannsakar.

„Páll og Tryggvi hafa augljóslega talið hana vanhæfa þegar þeir báðu hana um að víkja sl. sumar,“ segir Brynjar.

„Þeir hljóta að hafa byggt þá skoðun sína á lögum um vanhæfi, annars hefðu þeir aldrei beðið hana um að víkja. Auk þess hafa þeir væntanlega vilja koma í veg fyrir að nefndin missti trúverðugleika. En eftir mikinn þrýsting ákváðu þeir að víkja frá þeirri kröfu sinni.“

Brynjar segir að í 1.gr. laga um markmið og tilgang rannsóknar nefndarinnar sé nefndinni m.a. falið að rannsaka hvort mistök eða vanræksla hafi verið hjá eftirlitsstofnunum.

„Með orðum sínum um gáleysi eftirlitsstofnana hefur Sigríður komist að niðurstöðu fyrirfram að mistök og vanræksla hafi átt sér stað hjá þessum stofnunum,“ segir Brynjar.

„Með hliðsjón af stjórnsýslulögum er hún augljóslega vanhæf að mínu áliti þegar svona stendur á.“

Fleiri nefndarmenn kunna að vera vanhæfir

En samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er það fleira en ummæli Sigríðar sem kann að veikja störf, og þá hugsanlega niðurstöðu, nefndarinnar.

Á vef rannsóknarnefndarinnar kemur fram að tengdadóttir Tryggva Gunnarssonar hafi starfað sem lögfræðingur hjá FME fyrir og eftir bankahrun, frá maí 2006 til september 2009. Ljóst má þykja að stór hluti þeirra mála sem rannsóknarnefndin hefur til skoðunar hafa einhverja nálgun við FME, hvort sem um er að ræða beina eða óbeina tengingu.

Jafnframt er greint frá því að komi til þess að þáttur rannsóknarinnar lúti að störfum þeirra sem nefndir séu í æviágripinu eða öðrum honum nákomnum muni hann víkja sæti í samræmi við reglur stjórnsýslulaga.

Tengdadóttir Tryggva var, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, afar mikilvægur starfsmaður og kom að flestum málum eftirlitsins, ekki síst rannsóknum á fyrirtækjum. Þá var hún um tíma upplýsingafulltrúi FME.

„Við sjáum mörg dæmi þess að menn þurfi að víkja vegna tengsla við aðila sem tengjast rannsókninni,“ segir Brynjar.

„Í þessu máli gildir almenn regla um vanhæfi og því má gera ráð fyrir að Tryggvi sé vanhæfur í fjölmörgum málum sem koma inn á borð nefndarinnar.“

Nefndin ábyrgðarlaus af niðurstöðu sinni

Í þessu samhengi er rétt að taka fram að í desember sl. var lögum um nefndina breytt þannig að öllum kröfum í einkamáli og málum almennra hegningarlaga út af atriðum er koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar eða öðrum skýrslum eða frásögnum í tengslum við rannsóknina, verður ekki beint gegn þeim einstaklingum sem unnið hafa að rannsókninni.

Sama gildir ef mál er höfðað út af málsmeðferð í tilefni af henni, t.d. meiðyrðamál. Íslenska ríkið ber ábyrgð þannig á athöfnum þeirra eftir almennum reglum.

Í raun má því segja að nefndarmenn séu sjálfir ábyrgðarlausir, við þann starfa sinn að leita uppi ábyrgð annarra.

---

Fréttaskýringin var uppfærð kl. 10:25