Evrópudómstóllinn hnekkti fyrr í þessum mánuði ákvörðun breskra stjórnvalda um að frysta eignir Abu Qatada, múslimsks harðlínuklerks sem lýst hefur verið sem andlegum sendiherra Osama bin Laden í Evrópu, að því er segir í frétt The Times. Eignir Landsbankans í Bretlandi voru frystar sl. haust með vísan til hryðjuverkalaganna svokölluðu. Frystingu eigna Landsbankans var aflétt nýlega við undirritun á samkomulagi á milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar.

Spurning hvort frysting eigna Landsbankans hefði staðist fyrir dómi

Niðurstaða í máli Abu Qatada, sem er jórdanskur ríkisborgari búsettur í Bretlandi frá árinu 1993, og sambærilegu máli Yasin Kadi, sádí-arabísks athafnamanns sem er á lista Sameinuðu þjóðanna yfir menn með tengsl við al-Kaída, vekur upp spurningar um hvort frysting eigna Landsbankans hefði staðist ef á það hefði verið látið reyna. Þar með vakna spurningar um hvort unnt hefði verið að fá þeim aflétt án samkomulagsins við Breta.

Ríkisstjórn Íslands fellur frá málshöfðun

Í tilkynningu íslensku ríkisstjórnarinnar þann 6. janúar sl. segir að ákveðið hafi verið að kanna til þrautar möguleika á að leita réttar Íslendinga fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu vegna beitingar breskra stjórnvalda á svonefndum hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum. Sú ríkisstjórn fór frá völdum í lok sama mánaðar. Á vefnum island.is segir nú um þetta að ríkisstjórnin líti svo á að búið sé að ljúka málinu með Icesave-samningunum. Hún muni því ekki fara í mál vegna beitingar hryðjuverkalaganna.

Breska ríkið sagt brjóta grundvallarréttindi

Í fyrrnefndri frétt The Times segir að áfrýi bresk stjórnvöld ekki dómi Evrópudómstólsins fái Abu Qatada, sem nú er í öryggisfangelsi, aðgang að öllum reikningum sínum og öðrum eignum eftir rúma tvo mánuði. Í sambærilegu máli í Yasin Kadi í fyrra komst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu að réttindi hefðu verið brotin á Kadi þar sem hann hefði ekki fengið færi á að andmæla sönnunargögnum gegn honum. Í máli Abu Qatada var vísað í rökstuðninginn í máli Kadi og sagt að brotið hafi verið á grundvallarréttindum Abu Qatada, sem í dómnum er nefndur hr. Othman.

Talsmaður Breta segir ríkisstjórnina verða að viðurkenna grundvallarréttindi

Í viðtali við The Times segir talsmaður breska utanríkisráðuneytisins að ríkisstjórnin viðurkenni dóminn í máli Abu Qatada. Hann segir að aðgerðir gegn einstökum aðilum séu mikilvægar í baráttunni gegn alþjóðlegum hryðjuverkamönnum. Hins vegar fallist ríkisstjórnin á að slíkar aðgerðir gegn einstaklingum eða lögaðilum verði að taka mið af grundvallarréttindum þeirra og virða reglur réttarríkisins.