Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu var töluverð í vikunni og jókst um 106% á milli vikna.

Þannig nam veltan nú í vikunni 4.603 milljónum króna samkvæmt tölum frá Fasteignaskrá Íslands en í vikunni á undan nam veltan 2.237 milljónum króna. Rétt er að taka fram að meðaltal á viku nemur, það sem af er ári, um 1.370 milljónum króna þannig að nýliðin vika er mjög svo „úr takt“ við hefðbundnar vikur.

Þetta er þó ekki í eina skiptið sem þetta gerist því í lok nóvember var veltan á einni viku rúmir 5 milljarðar króna sem þar sem meðalverð á hvern samning nam rúmum 107 milljónum króna. Verður það að teljast til heldur óhefðbundinnar veltu á fasteignamarkaði.

Fjögurra vikna meðalvelta eykst nú fjórðu vikuna í röð og nemur nú 3.342 milljónum króna og hefur aldrei verið meiri á árinu. Þá hefur fjögurra vikna meðalveltan hækkað um rúman 1 milljarð á fjórum vikum en jafnframt hefur fjögurra vikna meðalvelta ekki verið svona há síðan í mars 2008.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur nú hækkað um 195% milli ára en á sama tíma í fyrra hafði fjögurra vikna meðalvelta lækkað um 80% milli ára.

Tólf vikna meðalvelta hækkar einnig á milli vikna eða um rúmar 280 milljónir króna. Þannig nemur 12 vikna meðalvelta nú 2.055 milljónum króna og hefur ekki verið svo há í 12 mánuði. Tólf vikna meðalvelta hefur nú aukist um 37% á milli ára en þetta er í annað skipti frá því í janúar 2008 sem 12 vikna meðalvelta eykst á milli vikna. Á sama tíma í fyrra hafði 12 vikna meðalvelta dregist saman um 75% á milli ára.

Til gamans má skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði. Hún er í dag 1.335 milljónir króna og hækkar um 75 milljónir á milli vikna. Fyrir ári síðan nam 12 mánaða meðalveltan 2.184 milljónum króna og hefur því dregist saman um 39% á milli ára.

Í þessari viku:

Alls var 45 kaupsamningum þinglýst í vikunni, samanborið við 58 samninga í vikunni áður. Það er ekki langt frá meðaltali en að alls hefur 39 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku á þessu ári.

Meðalupphæð á hvern samning hækkar þó sem langt yfir meðaltali eða rúmar 102 milljónir króna, samanborið við 38,6 milljónir í síðustu viku. Þetta telst sem fyrr segir heldur óvenjulegt en meðalupphæð á hvern samning frá áramótum er nú 34,9 milljónir króna.