Ríkið sem byggt er á sandi, í bókstaflegri merkingu, er að hruni komið.

Dubai, sem auðkýfingar Mið-Austurlanda hafa byggt með það að markmiði að gera ríkið að mestu fjármálamiðstöð heims, mun vafalítið eiga í erfiðleikum með að greiða 60 milljarða dollara skuldir sínar til baka. Fjárfestingarsjóðurinn Dubai World, helsti bakhjarl ríkisins, er á barmi gjaldþrots.

Mikill titringur var á mörkuðum erlendis í gær vegna orðróms um að Dubai gæti ekki greitt skuldir sínar til baka. Í fréttaskýringu í The New York Times í dag, er haft eftir miðlurum á Wall Street að fjárfestar séu enn brenndir af efnahagslegum hamförunum sl. haust, þegar fjármálakerfi heimsins var á barmi hruns.

Hrun Dubai gæti orðið til þess að draga úr áhættufjárfestingum og hægja á efnahagsbatanum í heiminum. Horft er til mánudagsins í komandi viku með nokkrum spenningi. Þá einkum hvort markaðir muni taka fréttum um að Abu Dhabi sé tilbúið að hjálpa nágrönnum sínum vel eða illa. Í versta falli verður dagurinn „svartur“, þ.e. að markaðir muni lækka skarplega.

Óljós yfirlýsing

Yfirlýsing frá forráðamönnum í olíuríkinu Abu Dhabi um að það sé tilbúið að hjálpa Dubai hefur vakið blendin viðbrögð, að sögn erlendra fréttaskýrenda. Einkum vegna þess að ríkið segist ekki tilbúið að taka á sig ábyrgðir vegna skuldavanda Dubai heldur einungis hjálpa til.

„Hvað menn eiga við nákvæmlega á eftir að koma í ljós,“ segir í greiningu bandarísku fréttastofunnar CNN. Robert Peston, viðskiptaritstjóri breska ríkisútvarpsins BBC, segir á vefsíðu sinni í dag að ástæðulaust sé að óttast alþjóðlegt efnahagslegt hrun þrátt fyrir fall Dubai. Breskir bankar eiga þó mikilla hagsmuna að gæta þar.

Peston segir þá geta tekist á við fall Dubai, þrátt fyrir að ríkið skuldi bönkunum, sem standa afar illa fyrir, miklar fjárhæðir. Ekki sé þó hægt að útiloka að vandamál Dubai muni valda titringi í Bretlandi eins og víða annars staðar, og leiða til þess að seðlabankar muni þurfa að halda vöxtum niðri í lengri tíma en talið var.

Tóm leigurými

Uppbygging Dubai hefur verið ævintýri líkust. Á tuttugu árum hefur ríkið verið byggt upp á gríðarlegum hraða. Í ríkinu eru einstakar lúxusbyggingar sem nú eru einn helsti höfuðverkurinn. Þessar byggingar skila litlum tekjum, leigurými standa auð og ekki fyrirsjáanlegt að mikil eftirspurn myndist á næstu mánuðum, og jafnvel árum.

Þá er einnig grunnhugmyndinni að baki Dubai, þ.e. er að verða helsta stoð fjármálakerfis heimsins, í hálfgerðu uppnámi eftir hamfarirnar sl. haust. Ekki er orðið ljóst ennþá hvernig fjármálakerfið verður endurskipulagt og framtíð Dubai, sem fjármálamiðstöðvar, er þannig óbeint í höndum þeirra sem nú vinna að endurskipulagningunni, sem er í reynd stutt á veg komin.