„Óvissu um gengistryggð lán í krónum hefur ekki verið eytt. Ég tel að nýlegur dómur í máli þar sem Frjálsi fjárfestingarbankinn er málsaðili, sýni að það sé enn óvissa um hvernig fara eigi með gengistryggð lán fyrirtækja og það verður að eyða þeirri óvissu sem allra fyrst,“ segir Magnús Steinþór Pálmarsson hjá slitastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans. Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands eru með málin til skoðunar og möguleg áhrif nýlegra dómsmála á fjármálakerfið.

Dómar Hæstaréttar í tveimur málum vegna lána Frjálsa fjárfestingarbankans ollu nokkrum titringi hjá fjármála- og eftirlitsstofnunum fyrr í vikunni. Slitastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans sagði í tilkynningu að dómarnir hefðu víðtækari áhrif heldur en lögin sem samþykkt voru í desember sl., um hvernig fara ætti með gengistryggð lán.

Í tilkynningunni segir m.a.: „Varðandi úrlausn um vexti í málunum vísaði Hæstiréttur til fordæmis réttarins frá 16. september sl. lagði rétturinn til grundvallar að reikna bæri lánin miðað við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands frá upphafsdegi. Niðurstaða Hæstaréttar er mun víðtækari en lög sem sett voru á Alþingi í desember sl., en samkvæmt þeim var einungis skylt að endurreikna gengistryggð vaxtabótahæf íbúðalán til einstaklinga. Niðurstaða Hæstaréttar tekur hins vegar til allra „gengistryggðra“ lána bankans óháð því hver lántakandinn var eða tilgangur lántökunnar.“

Miklir hagsmunir

Samkvæmt tilkynningu sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið sendi frá sér 16. september í fyrra, er dómur Hæstaréttar um samningsvexti gengistryggðra lána féll, kom fram að gengistryggð lán til fyrirtækja í íslensku fjármálakerfi væru upp á samtals 841 milljarð króna. Gengistryggð lán til einstaklinga, sem lagasetningin frá því í desember í fyrra tekur til, voru þá um 186 milljarðar króna. Gengistryggð lán til fyrirtækja eru meira virði en sem nemur þreföldu eigin fé alls íslenska bankakerfisins. Miklir hagsmunir eru því í húfi hvað þessi mál snertir, þó aðeins dómar Hæstaréttar hafi aðeins áhrif á hluta þessara lána.

Þá ber að nefna að gengistryggð lán hafa mörg hver þegar verið niðurfærð, þó misjafnlega mikið. Einnig er unnið að endurskipulagningu fjölmargra fyrirtækja þar sem lausnir bjóðast fyrirtækjum sem geta í sumum tilfellum verið hagstæðari fyrir fyrirtæki heldur en að fara nákvæmlega eftir dómum Hæstaréttar, hvað varðar vaxtastig og niðurfærslu lána.

Takmarkað fordæmi

Frá stóru bönkunum þremur, Landsbankanum, Arion banka og Íslandsbanka, fengust þau svör að dómarnir í málum Frjálsa fjárfestingarbankans hefðu takmörkuð áhrif á útlán bankanna. Er þar vísað öðru fremur til þess að lánasamningar bankanna eru ekki sambærilegir hvað orðalag varðar.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir dómana í stórum dráttum engu breyta varðandi stöðu Landsbankans og hvernig hann hafi flokkað erlenda lánasamninga í kjölfar fyrri dóma Hæstaréttar. Fordæmisgildið sé því takmarkað. „Þeim lánsformum, sem um ræðir í málunum, svipar mjög til veðskuldabréfa bankans þar sem einstaklingum var veitt erlent lán til fasteignakaupa. Bankinn hefur opinberlega viðurkennt að þeir lánssamningar feli í sér ólögmæta gengistryggingu og er endurútreikningi þeirra lána lokið að langstærstum hluta. Við teljum að fordæmisgildi þessara dóma gagnvart öðrum lánaformum bankans, þar á meðal lánasamningum vegna erlendra lána til fyrirtækja, sé því mjög takmarkað. Hæstiréttur staðfestir að fordæmi í dómi Hæstaréttar í Lýsingar- og SP-málinu eigi við í þessu máli. Lán sem teljast fela í sér ólögmæta gengistryggingu ber því að reikna m.v. vexti Seðlabanka frá stofndegi kröfu. Að auki má nefna að þau ákvæði/lausnir/leiðir sem innifalin eru í Beinu brautinni munu í mjög mörgum tilfellum skila fyrirtækjum hagstæðari niðurstöðu en endurútreikningur myndi gera,“ segir Kristján.

Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Arion banka, segir lánaskilmála fyrirtækjalána bankans vera með öðrum hætti en þeim sem reyndi á í dómum Hæstaréttar. Enn hafi ekki reynt á lögmæti erlendra lána Arion banka til fyrirtækja fyrir Hæstarétti. „Eins og fram kemur í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu þá kemur fram í dómi Hæstiréttar að mestu máli skipti þegar metið er hvort um gilt erlent lán sé að ræða, eða íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu, hvort lánsfjárhæðin sé ákveðin í íslenskum krónum og greiða beri lánið til baka í sömu mynt. Lánaskilmálar fyrirtækjalána Arion banka eru með öðrum hætti en þeim sem reyndi á í dómnum.“

Hún segir Arion vilja benda á að umtalsverður árangur hafi þegar náðst í úrvinnslumálum fyrirtækja. „Það hafa um 750 fyrirtæki þegar hafið úrlausnarferli hjá Arion banka og þar af er komin niðurstaða í um 500 mál. Arion banki hóf vinnu við þennan hóp fyrirtækja nú á haustmánuðum og stefnir að því að gera þeim öllum tilboð um endurskipulagningu fyrir 1. júní næstkomandi.“

Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, sagði lánasamninga Íslandsbanka ekki vera sambærilega samningum þeim sem voru til umfjöllunar í málum Frjálsa fjárfestingarbankans. Því sé ekki litið svo á innan bankans að dómar Hæstaréttar í málum Frjálsa hafi áhrif á lán bankans.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.