Hluthafafundur Köplu hf., félags sem R&D Carbon Ltd. stofnaði til að reisa rafskautaverksmiðju í Hvalfirði, hefur ákveðið að slíta félaginu frá 15. maí að telja, að því er segir í tilkynningu frá skilanefnd félagins.

Kapla hf. var stofnað árið 2003 eftir viðræður markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjununar við R&D Carbon um byggingu og rekstur rafskautaverksmiðju á landi Kataness í Hvalfirði. Ætlunin var í byrjun að verksmiðjan mundi framleiða um 340.000 tonn af rafskautum og veita 140 manns atvinnu. Áætlaður kostnaður við að reisa verksmiðjuna var 17 milljarðar króna.

Áform úr 340.000 tonnum í 140.000 árið 2004

Rafskaut eru notuð við álframleiðslu og stjórnarmenn í Kapla hf. voru allir búsettir í SViss og vel þekktir í álheiminum. Þeir voru áður starfsmenn Alusuisse og þekktu því vel til á Íslandi.

Áformað var að selja rafskaut til álversins í Reyðarfirði, en þegar Alcoa ákvað árið 2004 að flytja rafskautin inn fá Noregi ákvað Kapla að reisa mun minni verksmiðju en áður hafði verið áformað, eða 140.000 tonna verksmiðju. Áætlanir gerðu ráð fyrir að í minni verksmiðju myndu starfa 100 manns í stað 140 samkvæmt fyrri áætlunum.

Starfsleyfi gefið út í maí 2005

Þrátt fyrir ákvörðun um að reisa smærri verksmiðju fékk Kapla í maí 2005 starfsleyfi útgefið frá Umhverfisstofnun fyrir 340.000 tonna rafskautaverksmiðju. Mikil mótmæli voru vegna verksmiðjunnar sem ýmsir, þ.m.t. Landvernd, töldu að mundi valda mikilli mengun. Reynt var að koma í veg fyrir að hún yrði reist, meðal annars með því að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar um að rafskautaverksmiðjan mundi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þessar mótmælaaðgerðir báru ekki árangur og Kapla fékk starfsleyfi eins og áður segir.

Áform sett til hliðar skömmu eftir að starfsleyfi fékkst

Mánuði eftir útgáfu starfsleyfisins var hins vegar upplýst að ekkert yrði að sinni af áformum Köplu um byggingu verksmiðjunnar. Hugmyndir um verksmiðjuna voru þó ekki endanlega slegnar af. Þeir sem til þekktu töldu samt að eftir þetta væri afar ósennilegt að rafskautaverksmiðja yrði reist á Katanesi. Nú hefur Köplu hf. verið slitið og þar með má segja að rafskautakaflanum í stóriðjusögunni sé lokið - að sinni að minnsta kosti.