Húsleit og yfirheyrslur starfsmanna sérstaks saksóknara vegna kaupa Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlut í Kaupþing banka í september sl. hefur vakið mikla athygli en rannsóknin lýtur að stórfeldri markaðsmisnotkun . Þannig er talin ástæða til að halda að viðskiptin við sheik Mohamed bin Khalifa Al-Thani hafi verið sett á svið til að hafa áhrif á gengi bréfa Kaupþings.

Bréfin sem voru seld til Q Iceland Finance ehf. voru í eigu Kaupþings sem hafði verið á kauphliðinni mánuðina á undan. Beinist rannsóknin meðal annars að því hvort stjórnendur Kaupþings hafi haft óeðlileg árif á gengi bréfa félagsins. Það eru þó einkum viðskiptin við Al-Thani sem eru til rannsóknar en bréf Kaupþings hækkuðu nokkuð kjölfarið á því að greint var frá inkomu hans í hluthafahópinn. Þannig er kannað hvort meint markaðsmisnotkun varð til þess að aðrir markaðsaðilar, sem ekki tengdust, viðskiptunum, hafi verið blekkir til að kaupa eða selja hlutabréf með rangar upplýsingar í höndunum.  Nú, eða í einstökum tilvikum halda í bréf sem þeir ella hefðu selt.

Óhætt er að fullyrða að svo stórfelld rannsókn á markaðsmisnotkun hefur ekki áður átt sér stað hér á landi.

Húsleitin í gær var mjög umfangsmikil en alls tóku um 20 manns þátt í henni; starfsmenn embættis sérstaks saksóknara, lögreglumenn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sem og starfsmenn frá Fjármálaeftirlitinu.  Margvísleg gögn voru tekin; tölvupóstar, skýrslur og í sumum tilvikum tölvur.

Húsleitin náði til skrifstofa Kaupþings, Kjalars, Samskipa, lögfræðistofa sem tengdust viðskiptunum og einkaheimila. Allt félög sem tengdust ‚ Ólafi Ólafssyni, stjórnarformanni Kjalars, með einum eða öðrum hætti.