Breskir fjölmiðlar hafa verið duglegir við að greina frá því undanfarna daga að tilboð hafi borist í hlut CB Holding, eignarhaldsfélags í eigu Straums-Burðarás fjárfestingabanka, í breska knattspyrnufélaginu West Ham. Daily Telegraph greindi frá því á gamlársdag að breska fjármálafyrirtækið Intermarket, sem hefur verið áhugasamt um kaup á West  Ham um nokkurra mánaða skeið, ætli sér að leggja fram 100 milljóna punda, um 20 milljarða króna, tilboð í knattspyrnufélaginu á morgun, mánudag. Innifalið í því yrði yfirtaka á skuldum West Ham, sem eru sagðar á bilinu 38 til 48 milljónir punda.

Þá fullyrðir breska blaðið Sunday Mirror í dag að fyrrum eigendur Birmingham City, kaupsýslumennirnir David Sullivan og David Gold, ætli sér að kaupa 50 prósent hlut í West Ham af CB Holding fyrir um 50 milljónir punda, eða um 10 milljarða króna.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ýmsir aðilar hafi gefið sig fram við breska fjárfestingabankann Rothchild, sem hefur séð um söluferli West Ham frá því í október, og lýst yfir áhuga á félaginu. Bæði Rothchild og áhugasamir kaupendur hafi hins vegar undirritað trúnaðarsamkomulag þess efnis að hvorugum sé heimilt að tjá sig um gang viðræðna á meðan að þær standa yfir.

Þar sem rúmlega þriggja ára langri eigendasögu Íslendinga á West Ham gæti vel verið að ljúka þótti Viðskiptablaðinu fullt tilefni til að rifja upp sögu hins íslenska eignarhalds á West Ham.

West Ham keypt á hátindi lána-góðærisins

Björgólfur Guðmundsson keypti West Ham ásamt Eggerti Magnússyni í nóvember 2006 og setti félagið inn í eignarhaldsfélag sitt sem bar nafnið Hansa. Kaupverðið var um 85 milljónir punda auk þess sem tekið var yfir skuldir upp á 22 milljónir punda. Heildarfjárfestingin nam því um 117 milljónum punda, eða 23,6 milljörðum króna á núvirði. Eggert varð starfandi stjórnarformaður en Björgólfur útvegaði fjármagnið og var skráður með 95 prósent eignarhlut. Það kom, líkt og flest annað í íslensku viðskiptalífi á þessum tíma, að láni úr íslensku bönkunum.

Ótrúlegt fjáraustur í leikmenn sem skiluðu litlu sem engu

Fljótlega eftir að Íslendingarnir tóku yfir félagið ráku þeir knattspyrnustjórann Alan Pardew og réðu Alan Curbishley í hans stað. West Ham var í mikilli fallbaráttu á þessum tíma og því þótti nauðsynlegt að kaupa nýja leikmenn. Strax í janúar 2007 voru sex leikmenn keyptir fyrir samtals 18,5 milljónir punda, um 3,7 milljarða króna. Til að vera samkeppnishæfir við stóru liðin í ensku úrvalsdeildinni þá gripu þeir Eggert og Björgólfur til þess ráðs að greiða leikmönnunum sannkölluð ofurlaun. Þannig náðu þeir að lokka stóra bita á borð við Lucas Neill og Matthew Upson undan krumlum stærri liða sem höfðu einnig á þeim áhuga.

West tryggði sér áframhaldandi veru í deild þeirra bestu á Englandi við lok tímabilsins eftir mikla fallbaráttu og sumarið 2007 var ákveðið að blása til sóknar. Níu leikmenn voru keyptir fyrir samtals 38,1 milljónir punda, eða um 7,6 milljarða króna. Á meðal þeirra sem fengnir voru til liðsins voru Scott Parker, Kieron Dyer, Nolberto Solano, Craig Bellamy, Julien Faubert og sænska undirfatafyrirsætan Freddie Ljungberg. Risasamningar voru gerðir við þá flesta sem tryggðu þeim laun á borð við efsta lag leikmanna í enska boltanum.

Mikil meiðsli fylgdu þessum hópi leikmanna og margir þeirra spiluðu lítið sem ekkert framan af. Frægasta dæmið er líklegast áðurnefndur Ljungberg sem var keyptur til liðsins á þrjár milljónir punda (um 600 milljónir króna), var greitt allt að 85 þúsund pund (um 17 milljónir króna) á viku í laun í eitt ár, spilaði 25 leiki og var síðan keyptur út úr samningi sínum fyrir um sex milljónir punda (um 1,2 milljarðar króna).

Mál Carlosar Tevez vofa yfir félaginu

Ekki voru öll þau vandræði sem West Ham rataði í eftir kaup Íslendinganna þeim sjálfum að kenna. Sum þeirra fengu þeir í arf. Skömmu áður en að Björgólfur og Eggert keyptu West Ham voru tvær argentínskar stórstjörnur, Carlos Tevez og Javier Mascherano, fengnar til liðsins að láni. Skráning þeirra var í eigu þriðja aðla, íransks umboðsmanns, en slíkt eignarhald er ekki leyfilegt samkvæmt enskum reglum og því voru lánssamningarnir úrskurðaðir ólögmætir. West Ham hafði háð harða fallbaráttu en bjargað sér á síðustu stundu. Carlos Tevez lék stórt hlutverk í þeirri björgun. Í stað þess féll lið Sheffield United í næstefstu deild, en því fylgir gífurlegur tekjumissir.

Forsvarsmenn Sheffield United hófu því málsókn á grundvell þess að bjargvætturinn Tevez hefði verið ólöglegur og fór fram á að West Ham greiddi sér 50 milljónir punda í skaðabætur. Málinu var á endanum vísað í gerðardóm sem úrskurðaði Sheffield United í hag. Á endanum var samið um málið utan dóms og samkvæmt breskum miðlum samþykkti West Ham að greiða allt að 20 milljónir punda, um fjóra milljarða króna, til Sheffield United í nokkrum greiðslum. Auk þess þurfti félagið að greiða 5,5 milljónir punda, um 1,1 milljarð króna, til ensku úrvaldsdeildarinnar og önnur félög sem urðu fyrir áhrifum vegna lokastöðu West Ham tímabilið 2006 til 2007 hafa einnig verið að skoða rétt sinn. Málinu er því ekki lokið og ekki ljóst hvort að Tevez-björgunin muni kosta West Ham enn meira fé þegar fram líða stundir.

Björgólfur losar  sig við kók-skiltið

Eggert hætti síðan störfum hjá West Ham í desember 2007 og Björgólfur sagður hafa keypt fimm prósent hlut hans í félaginu við það tilefni. Margar sögusagnir fóru á flug um ástæður þess að Eggert hætti en ein sú lífseigasta var sú að Björgólfi hefði gramist hversu mikinn Eggert gerði sig í hlutverki stjórnarformanns þrátt fyrir að hafa átt nánast ekkert í félaginu. Björgólfur líkti hlutverki Eggerts hjá West Ham meðal annars við kók-skilti í löngu viðtali við breska blaðið Observer skömmu áður en að leiðir þeirra skildu. Þá verður að telja líklegt að ótrúleg offjárfesting West Ham í leikmönnum sem skiluðu litlu í stjórnartíð Eggerts hafi haft áhrif á þá niðurstöðu.

Bankahrunið setur strik í reikninginn

Þegar íslensku bankarnir féllu varð strax ljóst að Björgólfur Guðmundsson, þáverandi aðaleigandi West Ham, væri í miklum fjárhagsvandræðum. Hansa, eignarhaldsfélagið sem hélt utan um West Ham eignina, fór fljótlega í greiðslustöðvun. Samkvæmt kynningu sem haldin var 4. desember 2008 fyrir kröfuhafa Hansa skuldaði félagið tæpa 40 milljarða króna á þeim tíma. Stærstu skuldirnar voru við íslenska banka og aflandsfélög í eigu Björgólfs sjálfs. Forsvarsmenn Hansa vildu halda félaginu í greiðslustöðvun vegna þess að þeir vildu fá meiri tíma til að selja einu eign sína, West Ham. Kröfuhafarnir voru sumir tregir til en samþykktu það að lokum gegn því að allar kröfu í búið væri jafn réttháar.

Líktu sér við Manchester City

Í þeim gögnum sem lögð voru fyrir héraðsdóm þegar Hansa sóttist eftir áframhaldandi greiðslustöðvun kom margt athyglisvert vert. Forsvarsmenn Hansa héldu því meðal annars fram að hægt væri að selja West Ham fyrir allt að 250 milljónir punda, um 50 milljarða króna. Sú upphæð er rúmlega tvöfalt það sem Björgólfur, með peningum frá íslensku bönkunum, greiddi fyrir félagið tveimur árum áður þegar eignarverð stóð í hæstu hæðum. Engin gögn voru sett fram fyrir dómi sem studdu þetta verðmat heldur var bent á að annað enskt félag, Manchester City, hefði verið selt á 230 milljónir punda í ágúst 2008, um mánuði áður en að alþjóðlega kreppan hófst fyrir alvöru með falli bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers.

Hansa-menn töldu West Ham enn verðmætari en Manchester City, þrátt fyrir efnahagshrun og heimskreppu. Í greinargerð þeirra fyrir dómi kom fram að staðsetning félagsins í London, möguleikar á tengslum við ýmis fjárfestingaverkefni, nálægð við ólympíuþorpið og að félagið ætti sinn eigin völl væru allt ástæður til að standa undir þessari ályktun.

Einstakur kaupandi á heimsvísu

Á móti var bent á að Manchester City hafði verið keypt áður en að hin alþjóðlega fjármálakreppa skall á af fullum þunga. Auk þess var sá sem keypti það félag fjárfestingafélagið Abu Dhabi United Group. Það er í eigu konungsfjölskyldunnar í Abu Dhabi sem er ríkast hinna olíuauðugu borgríkja Sameinuðu Arabísku furstadæmanna. Að sögn breskra fjölmiðla er talið að konungsfjölskyldan hafi átt um 500 milljarða punda, um 100 þúsund milljarða króna, þegar hún keypti Manchester City. Afar ólíklegt verður að teljast að sambærilegir kaupendur séu til á jörðinni. West Ham var á endanum flutt inn í CB Holding, félags í eigu stærsta kröfuhafa Hansa, Straums Burðaráss fjárfestingabanka. Eina eign Hansa var West Ham og því er félagið í reynd tóm skel sem stendur. Björgólfur Guðmundsson hefur misst öll ítök í West Ham og er persónulega gjaldþrota þar sem skuldir hans eru tugum milljarða króna hærri en eignir hans.

Gætu takmarkað áhættu sína með því að selja núna

Samhljómur er í fréttum breskra miðla að mögulegri sölu á West Ham um að virði félagsins sé um 100 milljónir punda, eða 20 milljarðar króna. Það er meira en tvöfalt lægri upphæð en Hansa-menn sögðu að virðið væri fyrir réttu ári síðan. Auk þess ríkir töluverð óvissa um framtíðartekjumöguleika West Ham. Liðið er sem stendur með jafnmörg stig og liðið í næst neðsta sæti í ensku úrvalsdeildinni og er einungis fyrir ofan fallsæti vegna markatölu nú þegar tímabilið er rúmlega hálfnað. Falli liðið um deild þá hleypur skammtímatekjumissir þess á tugum milljóna punda. Auk þess dragast aðrir tekjumöguleikar, svo sem á leikmannasölu og með auglýsingasamningum, mikið saman við fall úr efstu deild. Að endingu er alls óljóst hvort að félaginu myndi takast að vinna sig upp í efstu deild að nýju og því ljóst að verðmiðinn á West Ham myndi hríðlækka ef félagið myndi falla.

Því getur verið að CB Holding sé tilbúið að selja núna í upphafi þessa árs og gefa þannig nýjum eigendum tækifæri til þess að koma með nýtt fjármagn inn í West Ham til að eyða í félagsskiptaglugganum sem opnaðist um áramót en lokar aftur í byrjun febrúar. Íslendingarnir myndu þá um leið losa sig undan þeirri fjárhagslegu áhættu sem fylgir harðvítugri fallbaráttu, eða að minnsta kosti takmarka hana með því að selja hluta af félaginu núna og vona síðan það besta.